Föstudagur 15.06.2012 - 17:56 - FB ummæli ()

Íslandsmetið í frekju innanhúss með atrennu

Dæs!

Nú er í burðarliðnum „samkomulag“ um þinglok á Alþingi. Hér hefur verið hangið dögum saman, foringjar funda, þingflokksformenn funda. Þingmenn horfa á fótbolta og Desperate Housewifes, vafra um í netheimum og leggja kapal. Klukkan þrjú standa menn upp og rölta út á torg og fá sér ís.

Þingið starfar á veturna, málin eru að detta inn frá þingsetningu til 1. apríl og eru unnin eftir því sem þau berast. Mál frá stjórnarflokkunum ganga fyrir. Nefndirnar leggja mikla vinnu í að skoða öll sjónarmið, lesa ítarlegar umsagnir frá þeim sem málin varða og hafa lagt á sig mikla vinnu við skoða frumvörp og meta áhrif þeirra. Og ef mál ná ekki í gegn á þessu þingi falla þau niður og þarf þá að endurflytja þau á næsta þingi. Það eru örlög margra mála, bæði góðra og slæmra.

Það samkomulag sem nú virðist vera að nást byggist á því að stjórnarflokkarnir fá veiðigjaldið sitt og að stjórnarandstaðan „hleypi í gegn“ málum þar sem einhverjar dagsetningar eru sem þarf að standa við og málum sem „ekki eru í ágreiningi“ eins og sagt er. Ágreiningur er þannig skilgreindur að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru á móti þeim. Hreyfingin gerir verulegar athugasemdir við sum mál en það telst ekki með. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn (eða sá hluti hans sem ræður þar á bæ) hefur sem sagt neitunarvald hér á þinginu í öllum málum.

Því munu mörg góð mál sem þingmenn úr öllum flokkum hafa unnið ötullega að síðustu mánuði daga upp og þarf að endurflytja þau á næsta þingi ef þau eiga að verða að lögum eða því þarnæsta eða þingunum þar á eftir. Hver veit.

Eitt slíkt er rannsókn á einkavæðingu bankanna sem afgreitt var úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nú í maí. Hún mun sem sagt varla fara fram úr þessu þótt meirihluti sé fyrir því á Alþingi Íslendinga.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is