Miðvikudagur 13.06.2012 - 17:21 - FB ummæli ()

Meirihlutinn sem missti völdin og þorir ekki að taka þau aftur

Á Alþingi ríkir nú ófremdarástand. Minni hluti þingmanna kemst upp með það hvað eftir annað að taka þingið í gíslingu með því að hertaka ræðustólinn sem er náttúrulegur flöskuháls hvers þings. Samkvæmt þingsköpum geta þingmenn talað endalaust í seinni umræðu þingsályktanna og annarri umræðu frumvarpa að lögum, reyndar ekki í einu eins og var þegar núverandi forsætisráðherra sló sitt ræðumet heldur aftur og aftur. Þá geta þingflokkar beðið um tvöföldun ræðutíma og hefur það verið notað í umræðu um veiðigjöldin. Það gerir málþóf þægilegri, af því hef ég góða reynslu úr Icesave.

En þetta þarf ekki að vera svona. Út um allan heim starfa þjóðþing sem flest öll hafa mun fleiri þingmenn en við Íslendingar með okkar litla Alþingi. Víðast hvar skipuleggja menn sig nefnilega, skipta með sér verkum og skipa talsmenn í málaflokkum. Yfirleitt er líka samið um ræðutíma eftir umfangi og mikilvægi málsins. Þá geta þingmenn skipulagt sig því þeir vita hvenær þeirra mál kemur á dagskrá, geta verið undirbúnir og hagað öðrum störfum í kringum þingstörfin. Á Alþingi Íslendinga göntumst við stundum með að það eina sem við getum gengið að sem vísu sé hvað sé í matinn. Annað krefst yfirskilvitlegra hæfileika til að sjá fyrir.

Þó er það svo að þingsköp Alþingis, þau lög sem við störfum eftir, gera ráð fyrir því að hægt sé að koma skikk á þingstörfin ef slíkt ófremdarástand kemur upp. Í 64. gr. þingskapalaga segir:

[64. gr.]1)Ef umræður dragast úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd.

Forseti getur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum.

Sömuleiðis geta níu þingmenn krafist þess að greidd séu atkvæði um það umræðulaust hvort umræðu skuli lokið, umræðutími eða ræðutími hvers þingmanns takmarkaður. …2)

Nú hefur verið samþykktur takmarkaður umræðutími eða ákveðinn ræðutími hvers þingmanns og skal þá forseti skipta umræðutímanum í heild sem jafnast á milli fylgismanna og andstæðinga máls þess sem er til umræðu, án þess að hann sé bundinn við í hvaða röð þingmenn hafa kvatt sér hljóðs, eða milli flokka ef hentara þykir.

Ákvæði þessarar greinar ná einnig til ræðutíma ráðherra.

Það er því alveg ljóst að meirihluti þings, það eru þeir flokkar sem fengu flest atkvæði í síðustu kosningum, fólkið sem meirihluti kjósanda ákvað að treysta fyrir stjórn landsins, getur tekið völdin í þinginu aftur í sínar hendur. Einhverra hluta vegna virðast menn þó hikandi að beita þessari grein – ýmist er talað um að hún sé óvirk eða algjör kjarnorkusprengja og verði henni beitt marki það varanlegar breytingar á þingstörfum. Menn virðast upp til hópa frekar vilja svíkja kjósendur sína en nota það vopn sem þingsköpin færa meirihlutanum.

Í virku lýðræðisríki þurfum við að gæta að því að sjónarmið allra heyrist og að tekið sé tillit til þeirra. Það er bæði sanngjarnt og eðlilegt. Það er hins vegar misskilningur hjá mörgum stjórnarandstöðuþingmönnum að það sé lýðræðisleg og heilög skylda minnihlutans að reyna að stoppa öll mál og skemma fyrir og að minni hlutinn hafi neitunarvald í öllum málum eins og nú virðist vera. Við höfum ákveðna neyðarhemla – t.d. rétt til að tala út í hið óendanlega – en neyðarhemla á bara að nota í neyð. Annars missa þeir bitið og við verðum eins og stákurinn sem kallaði úlfur, úlfur; enginn tekur mark á okkur lengur. Með því að hertaka pontuna þykjast menn skapa sér samningsstöðu – oft um einhver allt önnur mál en til umræðu eru. Og tímapressan virkar því oft er verið að miða við ákveðnar dagsetningar, svo sem áramót eða þinglok. Nú eru það forsetakosningarnar sem ekki má trufla. Mér finnst það reyndar fáránleg krafa úr fortíð þar sem aðeins var ein útvarpsrás og ein sjónvarpsstöð. EM í knattspyrnu hefur sennilega mun meiri áhrif á umfjöllun um kosningabaráttu forsetaframbjóðenda en störf þingsins.

Í ljósi þess að mér finnst ásýnd þingsins ekki geta versnað held ég að meirihlutinn, sem kemur engum af stóru málunum sínum í gegn, ætti að taka sénsinn og virkja 64. greinina. Þótt ég sé ekki sátt við öll mál meirihlutans og sé hreinlega á móti mörgum þeirra, þá er eitthvað verulega bogið við það að lýðræðislega réttkjörin meirihluti komi engu í gegnum þingið.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is