Miðvikudagur 06.06.2012 - 23:38 - FB ummæli ()

Baráttan um Ísland er núna!

Við erum rík þjóð, þrátt fyrir hrun og skuggalega skuldastöðu heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs. Landið okkar er náttúruparadís, við eigum gnægt af hreinu vatni, sjaldséð víðerni og orkulindir. Og allt í kringum landið okkar, 200 mílur í allar áttir, eru gjöfug fiskimið.

Arðurinn af auðlindum okkar ætti að duga til þess að við öll, 320.000 íbúar þessa lands, lifðum kóngalífi hér, ekki satt?

En arðurinn fer eitthvert annað. Orkuauðlindirnar eru nýttar til að búa til ódýrt rafmagn fyrir útlensk álfyrirtæki sem vissulega skapa einhver störf (svo því sé til haga haldið) en eins og forstjóri Landsvirkjunar hefur bent á er arðsemi virkjana alls ekki ásættanleg og fyrirtækið sem gæti verið gullnáman okkar skuldsett upp í rjáfur.

Og fiskinn mega ekki allir veiða. Stundum koma til okkar þingmanna framhaldsskólanemar til að fræðast um stjórnmálaflokkana og stefnumálin. Ég reyni að útskýra fyrir þeim hvers vegna okkur finnst mikilvægt að auðlindirnar séu í þjóðareigu og arðurinn af þeim renni til þjóðarinnar. Ég segi frá kvótakerfinu, hvernig sumum var úthlutað sameiginlegum gæðum okkar allra án þess að borga fyrir það krónu, hvernig þeir gátu selt sig úr greininni og lifað á Kanarí ever after og hve erfitt er fyrir kvótalausa að hefja útgerð. Og ég segi líka frá áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í kærumáli tveggja sjómanna gegn íslenska ríkinu þar sem 12 nefndarmanna (af 18) töldu lögin um stjórn fiskveiða brjóta í bága við 26. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um jafnrétti allra manna. Og ungmennin, þau bara trúa þessu ekki.

En kannski er það ekkert svo skrítið. Það hefur nefnilega gengið ansi vel að telja okkur trú um að fiskurinn í sjónum komi okkur ekki við. Best sé að láta bara LÍÚ um þetta, þeirra er mátturinn og dýrðin. Það er líka búið að telja okkur trú um að fiskveiðistjórnunarmálin séu svo flókin að venjulegt fólk geti ómögulega sett sig inn í þetta og skilið með fullnægjandi hætti. Hugtök eins og krókaaflamark og framseljanlegir sóknardagar virðast líka sérstaklega fundin upp til að hrekja okkur frá og telja okkur trú um að þetta sé óskiljanlegt.

En þetta er ekkert flókið. Við eigum fiskinn í sjónum öll saman, ekki nokkrir karlar. Ef við viljum skapa hér frelsi til fiskveiða þarf að innkalla kvótann og úthluta honum aftur með sanngjarnara móti. Og til að tryggja að þjóðin fái sem hæsta auðlindarentu þarf að bjóða aflaheimildirnar upp eða leggja á almennilegt veiðigjald eða auðlindarentu. Nokkrar leiðir eru til þessa. Ein þeirra er fyrningarleiðin sem stjórnarflokkarnir lofuðu fyrir kosningar þar sem kvótinn er innkallaður á 20 árum, 5% í senn. Önnur er leið Hreyfingarinnar og sú þriðja frumvarp Péturs Blöndals.

Þrjú ár eru liðin frá kosningum en það er ekki verið að gera neitt af þessu. Fyrir þinginu liggja nú tvö frumvörp sem tekist er á um. Annað mun festa kvótakerfið í sessi og eftir því sem manni heyrist innan úr þinginu er nú verið að semja af því allt sem þó hefði verið til bóta. Og takið eftir að grátkór LÍÚ vælir ekkert yfir því. Það eitt fær hárin til að rísa. Hitt frumvarpið er um veiðigjald og það virðist lækka með hverjum deginum. Upphaflega stóð til að ríkið aflaði um 25 milljarða á næsta ári með því en nú er verið að tala um 11 milljarða og hver veit hvar það endar. Til gamans má geta að áætluð framlegð útgerðarinnar á næsta ári er 87 milljarðar. Þótt grátkórinn yrði látinn greiða 25 milljarða eins og til stóð stæðu samt eftir 52 í arð.

Í síðustu kosningum fékk Samfylkingin 20 þingmenn sem ætluðu allir að innkalla kvótann á 20 árum. VG fékk 14. Borgarahreyfingin var ekki með stefnu í fiskveiðum en í stefnuskrá hennar var að auðlindir skyldu vera í þjóðareigu og arðurinn renna til þjóðarinnar. Samtals gera þetta 38 þingmenn af 63 eða 60% sem vildu breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu, tryggja að auðlindin væri í þjóðareigu og að samfélagið allt nyti arðsins. Síðan hafa einhverjir breytt um lið en þessu lofuðu menn hátíðlega. Enn ætti þó að vera drjúgur meirihluti fyrir róttækum og nauðsynlegum breytingum.

Á næstu dögum mun endanlega koma í ljós hvort hagsmunaöflin ráða enn yfir Alþingi. Sömu öflin og vildu alls ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá með auðlindaákvæði. Fyrir mér er þetta mál prófsteinn á hvort við getum breytt einhverju í þessu landi eða hvort Gamla Ísland verði endurreist.

Það er eitthvað verulega bogið við þing með þetta rúman meirihluta og stærstan hluta þjóðarinnar á bak við sig sem getur ekki gert þær nauðsynlegu breytingar sem það sagðist, fyrir kosningar, ætla að gera. Nema þetta spili inn í.

Á virkilega að lúffa einu sinni enn?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is