Fimmtudagur 31.05.2012 - 17:09 - FB ummæli ()

Forsetakosningar og fjórða valdið – Opið bréf til Freys Einarssonar hjá 365

Ágæti Freyr,

það fauk í mig í gær þegar ég rak augun í frétt um að Stöð 2 hyggðist standa fyrir og sjónvarpa kappræðum við tvo af þeim sjö sem bjóða sig fram til að gegna embætti forseta Íslands. Formlegur framboðsfrestur er rétt runninn út og enn er beðið eftir úrskurði um hvort öll framboð séu gild. Engu að síður hafið þið hjá 365 þegar ákveðið hverjir koma til greina í embættið. Það finnst mér óásættanlegt.

Fjölmiðlar eru oft kallaðir fjórða valdið og þeir eru afar mikilvægir, ekki síst nú á okkar rósturslegu tímum. Þeir gegna lykilhlutverki í vestrænu samfélagi sem vill teljast lýðræðislegt. Þeir eru allt í senn; vettvangur umræðu og skoðanaskipta, upplýsinga og afþreyingar. Og áhrif þeirra eru mikil því fólk tekur afstöðu eftir þeim upplýsingum sem það fær – úr fjölmiðlum.  Því er skoðanamyndandi vald fjölmiðla mikið og vandmeð farið eftir því. Því hefur verið fleygt í umræðunni að einkafjölmiðli sé í sjálfsvald sett hvað hann fjalli um og hvernig en það er ekki rétt. Með nýjum lögum um fjölmiðla 38/2010 var skerpt mjög á lýðræðislegu hlutverki fjölmiðla en 26. gr. fjölmiðlalaganna hljóðar svo:

26. gr.  Lýðræðislegar grundvallarreglur.

Fjölmiðlaveita skal í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. Hún skal virða mannréttindi og jafnrétti auk þess að hafa í huga friðhelgi einkalífs. Fjölmiðlaveita skal gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í umfjöllun sinni um fréttir og fréttatengt efni og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna. 

Fjölmiðlaveitu sem hefur þá yfirlýstu stefnu að beita sér fyrir tilteknum málstað skal vera óskylt að miðla efni sem gengur í berhögg við stefnu miðilsins.

Í greininni er sem sé mælt fyrir um að svokallaðir fjölmiðlaveitur, lesist 365 og Stöð 2, skuli í allri starfsemi sinni halda lýðræðislegar grundvallarreglur í heiðri, uppfylla kröfur um hlutlægni, jafnrétti og virða tjáningarfrelsi. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að greinin „vísar til þeirra hugmynda sem liggja til grundvallar upplýstri umræðu og ákvarðanatöku í lýðræðissamfélagi. Slíkar lýðræðishugmyndir byggja á að upplýst umræða, tjáningarfrelsi og rétti til upplýsinga að teknu tilliti til friðhelgi einkalífs sé grundvöllur lýðræðisins … Til þess að borgarar geti myndað sér skoðanir og tekið upplýstar ákvarðanir þurfa þeir að hafa aðgang að ólíkum sjónarmiðum og hlutlægum upplýsingum og gegna fjölmiðlar veigamiklu hlutverki í þessu sambandi.“

Þannig er nú það.

Nú ætla ég ekki að gera þér það upp að þekkja ekki það lagaumhverfi sem 365 starfar í og ég skil vel hvata ykkar til að búa til sjónvarpsefni sem spennandi gæti verið að fylgjast með að ykkar mati. Ég vil hins vegar benda á að það getur líka verið verulega spennandi að heyra hvað Andrea, Hannes, Herdís, Ástþór og Ari Trausti hafa að segja og hvernig þau bregðast við undir þeim kringumstæðum sem þið ætlið að skapa. En kosningar í lýðræðissamfélagi eru ekki raunveruleikaþættir eða hæfileikakeppnir þar sem framleiðandinn getur stjórnað atburðarásinni. Forsetakjör er ekki afþreyingarefni og við munum ekki greiða atkvæði í gegnum síma eða með SMS. Sjónvarp er án efa ein allra mikilvægasta uppspretta upplýsinga hér sem annars staðar og þið sem önnur af tveimur stóru sjónvarpsstöðunum hér á landi getið einfaldlega ekki hagað ykkur svona. Í þessu sambandi er einnig vert að hafa í huga að sjónvarp er jafnan talið hafa verulegan slagkraft og þar með víðtæk áhrif á skoðanamyndun almennra borgara á flestum sviðum umfram aðra fjölmiðla. Ábyrgð ykkar er mikil, reynið að standa undir henni.

Um leið og ég vil hvetja þig og samstarfsfólk þitt á 365 til þess að breyta rétt í þessu máli og bjóða hinum frambjóðendunum einnig að taka þátt vil ég þakka þér fyrir að hafa lagt þetta siðferðislega lýðræðispróf fyrir þau Þóru og Ólaf. Með því að staðfesta þátttöku sína í þætti ykkar hafa þau bæði fallið á prófinu og því mun atkvæði mitt í komandi forsetakosningum fara annað. Ég mun leita til annarra fjölmiðla eftir upplýstri umræðu þegar ég kynni mér þá fimm frambjóðendur sem ekki fengu að vera með hjá þér.

Með kveðju,

Margrét Tryggvadóttir

kjósandi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is