Miðvikudagur 30.05.2012 - 00:09 - FB ummæli ()

Þingið sem brást

Fyrir þremur árum vorum við, 63 sem sitjum hér inni í þessum merkilega sal, kjörin til starfa fyrir þjóðina. Sum okkar höfðu verið hér áður, jafnvel áratugi. Aðrir voru að stíga sín fyrstu skref á nýjum vettvangi. Og verkefnin voru ærin. Heilt hrun, ekki bara efnahagslegt, heldur einnig siðferðislegt og stjórnmálalegt.

Ég trúi því að við höfum öll ætlað að gera okkar besta. Laga þetta, bjarga því sem hægt var að bjarga og byggja upp á nýjan leik betra og réttlátara samfélag. Þetta er landið okkar, þjóðin sem við tilheyrum. Við búum hér og ætlum helst að gera það áfram. Hér eigum við fjölskyldur, hér eigum við vini.

Það var alltaf ljóst að þetta yrði erfitt. Og mér fannst augljóst að það krefðist þess að við tækjum öll höndum saman og gerðum þetta í sameiningu. Öllum hlaut að vera ljóst að þetta var ekki rétti tíminn fyrir flokkspólitíska valdabaráttu og eiginhagsmunapot, það var alltof mikið í húfi. Við máttum engan tíma missa. Heimilin voru í hættu, fyrirtækin römbuðu mörg hver á barmi gjaldþrots, fólk missti vinnuna.

Við þekkjum öll einhvern sem var að selja eigur sína og flytja úr landi. Lánin hækkuðu upp úr öllu valdi og stjórnvöld virtust úrræðalaus.

Ábyrgð okkar var mikil. Okkur var treyst fyrir fjöreggi þjóðarinnar. Okkar var að leysa vandann. Mér var það alveg ljóst að til þess að það væri hægt yrðum við að standa saman. Leggjast öll sem eitt á árarnar og róa í takt.

Hver hefði trúað því að nú, þremur árum síðar væri það eitt ljóst að við höfum brugðist. Einstaka þingmenn hafa staðið sig vel, staðið í lappirnar og vaxið í þessu undarlega starfi og tekið hagsmuni þjóðarinnar fram fyrir sérhagsmuni. En við höfum brugðist hópur og sem heild. Við réðum ekki við verkefnið. Við getum ekki talað saman, við getum ekki unnið saman. Við höfum brugðist íslensku þjóðinni.

Hér snýst allt um klækjabrögð. Hver getur brugðið fæti fyrir ríkisstjórnina? Hver getur klekkt á Sjálfstæðisflokknum? Hver er fyndnastur? Hver getur verið dónalegur en samt sagt háttvirtur og hæstvirtur í öðru hvoru orði? Hver getur gulltryggt hagsmuni síns flokks, hver á flesta feisbúkk vini? Hver mun vinna næstu kosningar?

Störf Alþingis snúast þessa dagana ekki um að finna lausnir á skuldavandanum. Þau snúast ekki um réttlæti eða hvernig við getum bætt samfélagið og fundið það sem sameinar okkur. Hér ríkir sundurlyndið.

Þessi ponta sem ég stend í á að vera lýðræðislegur vettvangur rökræðu og skoðanaskipta en er orðinn herfang þeirra sem vilja sýna hvers þeir eru megnugir, jafnvel þótt mikill meirihluti þings og þjóðar sé á öndverðum meiði. Þeir sem reyna að miðla málum eru stimplaðir svikarar. Heilbrigð skoðanaskipti hafa vikið fyrir málþófi sem er réttlætt með því að benda á að áður fyrr hafi ræðurnar verið enn lengri og stjórnarandstaðan enn herskárri.

En það skiptir engu máli hvað sagt var árið 1973 eða árið 2001. Það skiptir ekki máli hver hefur talað lengst í þingsögunni. Það sem öllu skiptir er vandi dagsins í dag og það er okkar að leysa hann. Það hafa engir aðrir umboð þjóðarinnar til þess.

Þetta er vandi á heimsvísu en okkar er að finna lausnir hér heima.

Það er alltaf leið og við verðum að finna hana saman.

Fyrir utan þetta hús bíður þjóðin. Fólkið sem valdi okkur til þess að leysa málin. Fólk sem hefur misst alla trú á okkur, allt traust. Við eigum ekki að vinna fyrir hagsmunafélög eða atvinnurekendur, fjármálafyrirtækin eða hvalveiðimenn. Okkar er að vinna að sameiginlegum hagsmunum allra Íslendinga.

Það er okkar að sanna að við stöndum undir verkefninu. Til þess höfum við nú eitt ár fram að næstu kosningum. Eitt ár er ekki langur tími þegar mikið verk er óunnið. En eitt ár getur verið óbærilega langt að líða í aðgerðarleysi, argaþrasi og kyrrstöðu.

Ef þingmenn stjórnar- og stjórnarandstöðu eru ekki tilbúnir til þess að leggja ágreiningsefnin til hliðar og reyna að vinna saman, finna það sem sameinar okkur í stað þess að einblína á það sem sundrar okkur ættum við að hætta þessu, rjúfa þing og leyfa þjóðinni að kjósa. Þá sannast það sem flestum er þó þegar ljóst að okkur hefur öllum mistekist ætlunarverkið og við munum skilja þjóðarsálina eftir með enn ljótari sár en hún bar þegar við tókum við keflinu.

Sættum við okkur við þau eftirmæli.

Það er margt eftir ógert, mörg mál óleyst.

En það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Ræða flutt á Eldhúsdegi 29. maí 2012.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is