Fimmtudagur 24.05.2012 - 22:45 - FB ummæli ()

ESB, þjóðaratkvæðagreiðslur og ný stjórnarskrá

Í dag samþykkti Alþingi þingsályktun um fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla í haust um tillögur stjórnlagaráðs og nokkur nýmæli í þeim tillögum. Til hamingju með það öll! Nú fær þjóðin tækifæri til að koma að málinu aftur og veita þinginu ráð um framhaldið. Það hefur nú ekki gengið þrautalaust fyrir sig að koma þessari tillögu í gegn þótt vitað væri að góður meirihluti væri fyrir málinu í þinginu eins og sýndi sig í þriggja tíma langri atkvæðagreiðslu um málið í dag en einungis 15 þingmenn treystu sér þegar til kom til að greiða atkvæði gegn málinu. Ég viðurkenni að stundum hef ég leitt hugann að ýmsum fremdardýrum á meðan á þessu ferli hefur staðið.

En önnur tillaga náði ekki fram að ganga í dag, breytingartillaga Vigdísar Hauksdóttur um að bæta við einni spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslunni um hvort hætta ætti aðildarviðræðum við ESB. Tillagan er orðuð svo:

 Við 3. efnismálsgrein bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Vilt þú að stjórnvöld dragi aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka?

*    Já.

*    Nei.

Það er sem sagt gert ráð fyrir því að bæta við einni spurningu á atkvæðaseðilinn. Samkvæmt lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna skal leita umsagnar Landskjörstjórnar um orðalag spurninganna. Það var einmitt gert með þær spurningar sem meirihlutinn lagði fram og endurbættum við sem skipuðum meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í þessu máli spurningarnar eftir að hafa ráðfært okkur við það góða fólk og ýmsa sérfræðinga, bæði úr atvinnulífinu og háskólasamfélaginu. Nefndarmenn úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki sendu einnig bréf til Landskjörstjórnar og báðu hana að yfirfara sínar breytingartillögur. Landskjörstjórn sendi umsögn um þær til nefndarinnar þann 15. maí s.l. og vísaði í áðurnefnd lög um að hver þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að fjalla um ,,tiltekið málefni eða lagafrumvarp“. Landskjörstjórn bendir á að þótt túlka beri hugtakið málefni rúmt hlýtur spurning Vigdísar að fela í sér alveg sérstakt málefni. Ég held að allir hljóti að sjá að það er hárrétt; aðildarviðræður við ESB eru allt annað mál en nýja stjórnarskrá lýðveldisins.

Í lögunum stendur einnig að heimilt sé að halda þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt lögunum samhliða forsetakjöri eins og upphaflega stóð til, alþingiskosningum og kosningum til sveitarstjórna. Það má sem sagt nýta ferðina og það hefur stundum verið gert, t.d. þegar kosið hefur verið um sameiningu sveitarfélaga samhliða öðrum kosningum. Spurningunni er hins vegar ekki bætt við á kjörseðilinn heldur eru tveir atkvæðaseðlar og tveir kjörkassar. Það segir hins vegar ekkert í lögunum um það hvort tvær þjóðaratkvæðagreiðslur megi fara fram samtímis en samkvæmt frétt mbl.is í dag segir Freyr Ófeigsson, formaður Landskjörstjórnar, ekkert því til fyrirstöðu að hafa spurninguna á sérkjörseðli. Ég er sammála þeirri túlkun því þótt ekki kveði á um slíkt í lögunum þá er heldur ekkert þar að finna sem bannar það.

Breytingartillaga Vigdísar Hauksdóttur var hins vegar ekki að leggja það til, því eins og ég hef áður bent á vildi hún bæta spurningunni á hinn seðilinn sem nýjan tölulið. En breytingatillögum má breyta og á tillögu Vigdísar kemur fram að hún hefur þegar verið prentuð upp tvisvar. Sú gerð sem greidd voru atkvæði um í dag var sem sagt þriðja útgáfa Vigdísar. Ég hef sjálf þurft að láta prenta upp þingskjal vegna villu og það er gert í einum grænum til að forðast misskilning og tryggja að allir séu að tala um sama þingmálið. Þegar umsögn Landskjörstjórnar um tillögu Vigdísar barst fyrir níu dögum hefði Vigdís því vel getað brugðist við þeim góðu, vel rökstuddu ábendingum sem þar eru settar fram og breytt breytingatillögunni einu sinni enn á þann hátt að hennar spurning yrði sett á sérstakan kjörseðil eins og formaður Landskjörstjórnar segir að ekkert sé til fyrirstöðu. Það gerði hún hins vegar einhverra hluta ekki og það væri nú kannski upplagt ef einhver spyrði hana nánar út í það.

Þótt öllum formsatriðum hefði verið fullnægt ætti enn eftir að svara spurningunni hvort það væri æskilegt að spyrja að þessu tvennu á sama tíma. Nú vil ég ekki gera lítið úr fólki. Við tökum öll trilljón ákvarðanir á hverjum degi, sem betur fer flestar ágætar. Ég verð að viðurkenna að ég er hálft í hvoru fegin að ekki verður spurt um stjórnarskránna samhliða forsetakjörinu því baráttan um það embætti hefur þegar tekið óvænta stefnu. Það eru vissulega kostir við að „nýta ferðina“. Það sparast fullt af peningum og ekki eigum við of mikið af þeim. Þá er líklegra að kjörsókn sé betri en ella. En það eru líka ókostir. Við höfðum t.d. áhyggjur af því í vetur að forsetinn og hlutverk hans yrðu of áberandi í allri umræðu um frumvarp stjórnlagaráðs fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem færi fram samhliða forsetakjöri. Og einnig því að aðrar kosningarnar myndu skyggja á hinar, stjórnarskráin falla í skuggann af forsetanum eða öfugt. Og myndu fjölmiðlar gera báðum málefnunum jafnhátt undir höfði eða myndi tímanum sem venjulega er varið í umfjöllun fyrir kosningar verða skipt á þessi tvö mál og þá hvorugt fá nægilega umfjöllun? Þessar vangaveltur eiga ekki síður rétt á sér þegar um er að ræða tvö risavaxin mál; sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins og aðildarviðræðurnar við ESB. Ég er ekki sannfærð um að það sé góður kokteill.

Það þýðir ekki að ég vilji ekki að kosið verði um aðildarviðræðurnar. Og þótt ég hafi ákveðnar efasamdir um kokteilinn réði það ekki úrslitum í ákvörðun minni í dag. Framsetning tillögunnar gerði útslagið og viljaleysi flutningsmannsins til að laga hana.

Í nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar um aðildarviðræðurnar og ályktuninni sjálfri er skýrt kveðið á um að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn þegar hann liggur fyrir. Ef samningaviðræðum lýkur einhvern tímann mun því fara fram atkvæðagreiðsla um hann. Og hún verður ráðgefandi nema búið verði að breyta stjórnarskránni okkar fyrir þann tíma.

Margir benda hins vegar á að margt hafi breyst síðan viðræður hófust og þeir hafa mikið til síns máls. Þeir hörðustu segja jafnvel að Evrópusambandið séu rústir einar sem mér finnst reyndar orðum aukið en staðan er vissulega breytt, bæði hjá okkur og þeim. Ég hafði efasemdir á sýnum tíma um að gott væri að sækja um aðild að sambandinu á hnjánum en nú er ESB komið niður á að minnsta kosti annað hnéð og við að rísa upp. Margir „sölupunktarnir“ fara þó fyrir lítið. Ég sé t.d. ekki að okkur muni takast að taka upp evruna í fyrirsjáanlegri framtíð. Maastrict skilyrðin eru enn langt í frá uppfyllt og líklegt að þau verði hert enn frekar. Það er því nokkuð ljóst í mínum huga að við verðum að leysa okkar mál sjálf, án aðstoðar ESB. Persónulega er ég því samt fylgjandi að viðræðum verði haldið áfram á meðan einhver hefur nennu til að ræða við okkur.

Mín persónulega skoðun á hins vegar ekki að skipta neinu máli því eins og Eygló Harðardóttir hefur bent svo réttilega á á ekki bara að halda þjóðaatkvæðagreiðslur um mál sem ég, hún eða aðrir þingmenn eru sammála. Vilji þjóðarinnar á hér að skipta höfuðmáli og því mikilvægt að við komum nýju stjórnarskránni alla leið enda er þar kveðið á um í henni að 10% þjóðarinnar geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá held ég líka að það væri ágætt að taka stöðuna núna eða fljótlega, sjá hvort þjóðin vilji halda aðildarviðræðum áfram eða ekki. Hún á auðvitað að ráða því. Mér finnst umræðan um ESB oft vera út og suður og stór kostur við þjóðaratkvæðagreiðslur er að í aðdraganda þeirra fer fram mikil umræða og fræðsla. Ábyrgðinni á ákvörðuninni er velt yfir á þjóðina – það er þá hennar að taka upplýsta ákvörðun og þá þurfa menn að fara að vinna heimavinnuna sína og gera upp hug sinn.

Þjóð sem myndi vilja slíta aðildarviðræðum myndi að öllum líkindum heldur ekki samþykkja aðild. Ef staðan er í raun þannig er auðvitað best að slíta viðræðum strax og snúa sér að öðru.

En kannski vill þjóðin halda viðræðum áfram og þá væri umboð íslenskra stjórnvalda til áframhaldandi viðræðna mun sterkara og þjóðin upplýstari um málið eftir góða umræðu og óháða kynningu.

Þingmenn allra flokka yrðu hins vegar að una við þá niðurstöðu sem kæmi út úr slíkri þjóðaratkvæðagreislu þótt þún væri ekki lagalega bindandi. En eru þeir allir til í það?

Við fyrri umræðu þeirrar tillögu sem samþykkt var í dag spurði ég Vigdísi Hauksdóttir eftirfarandi spurningar:

Þingmaðurinn hefur margoft lýst því yfir í mín eyru og annarra að þingið sé ekki bundið af ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú veit ég að þingmaðurinn hefur lagt fram breytingartillögu (VigH: Það má ekki ræða hana.) um að þjóðin verði spurð hvort hætta eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið og ég spyr hvort þingmaðurinn mundi virða niðurstöðu úr slíkri atkvæðagreiðslu.

Ég þurfti reyndar að ítreka spurninguna en svarið sem ég fékk að lokum er hér.

Þýðir þetta ekki nei?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is