Sunnudagur 20.05.2012 - 23:29 - FB ummæli ()

Á 431 km hraða …

Ég var að skoða ljósmyndir frá því herrans ári 2008. Við fjölskyldan vorum svo lánsöm að fá tækifæri til að dvelja við nám, leik og störf í Kína í nokkra mánuði fyrri hluta ársins. Ein myndanna er af skjá sem sýnir hraðann á maglev lestinni sem gengur frá Shanghai út á flugvöllinn í Pudong. Myndin er tekin þegar lestinn náði mesta hraða 431 km á klukkustund og er lestin eftir því sem ég best veit sú hraðskreiðasta í heimi. Stórveldið Kína sýnir hvers það er megnugt.

Samt er Kína skilgreint sem þróunarríki. Samt er þar fólk sem býr við mikla fátækt og vinnur erfiðisvinnu með sama hætti og gert var fyrir áratugum eða jafnvel öldum þótt tækninni hafi fleygt fram.

En stjórnvöld ákváðu að setja þessa framkvæmt í forgang, svo ríkir Kínverjar, hin vaxandi millistétt og ferðamenn kæmust út á flugvöll á rúmlega sjö mínútum. Miði aðra leiðina kostar 50 juan eða um þúsund kall en þau 10% þjóðarinnar sem lifa á innan við sem nemur einum bandaríkjadal á dag eða 130 krónum geta ekki einu sinni látið sig dreyma.

Það er hægt að skipta gæðum og byrði heimsins með öðrum hætti, jafnt í Kína sem hér á Íslandi. Arðinum af auðlindunum og kostnaði við velferð þegnanna; læknisþjónustu og menntun. Og það er líka hægt að leiðrétta stökkbreyttar og verðtryggðar skuldir og afnema verðtrygginguna. Stjórnvöld á hverjum stað þurfa hins vegar að ákveða að gera það sem gera þarf. Annars þjóta þeir sem forskotið hafa fram úr hinum, á 431 km hraða á klukkustund.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is