Miðvikudagur 16.05.2012 - 11:38 - FB ummæli ()

Spyrjum þjóðina

Í dag og líklega næstu daga verður umræðum um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga á dagskrá þingsins. Eins og menn muna tókst þingflokki Sjálfstæðisflokksins og nokkrum þingmönnum Framsóknarflokksins að koma í veg fyrir að hægt væri að halda atkvæðagreiðsluna samhliða forsetakosningunum og spara þannig mikið fé. Kannski var það bara ágætt – baráttan milli frambjóðenda þar virðist ætla að verða skrautleg. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur lagt fram breytingartillögu sem gerir ráð fyrir að þjóðin verði spurð fyrir 20. október n.k. Til að stöðva það þyrfti því að halda uppi málþófi til 20. júlí en síðasti dagur þingsins samkvæmt starfsáætlun (sem hefur reyndar aldrei staðist síðan ég byrjaði hérna) er 31. maí.

Þetta eru þær spurningar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vill spyrja þjóðina að:

 1.Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? 
* Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
* Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
2.Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?
* Já.
* Nei.
3.Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
* Já.
* Nei.
4.Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?
* Já.
* Nei.
5.Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?
* Já.
* Nei.
6.Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?
* Já.
* Nei.

Ný stjórnarskrá kemur okkur öllum við og mér finnst mikilvægt að tryggja aðkomu almennings að gerð hennar. Það var gert með þúsund manna þjóðfundi í upphafi ferilsins en mér finnst líka rétt að spyrja þjóðina nú, áður en lengra er haldið, hvort rétt sé að halda áfram á sömu braut. Því er spurt hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að vera lagðar til grundvallar frumvarps á næsta þingi og um nýmæli í þeim tillögum.

Ég skora á þingmenn að tefja málið ekki frekar. Það hefur þegar verið rætt í 21 klukkustund í þingsal og fyrirhugað að ræða málið fram á laugardag. Það held ég að sé vel í lagt – flest sjónarmið eru þegar komin fram. Drífum í þessu!

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is