Laugardagur 12.05.2012 - 13:55 - FB ummæli ()

Pontan

Hugmynd margra af störfum alþingismanna er sá hluti sem tengist þingsalnum og einkum ræðustólnum. Það er þar sem hlutirnir virðast gerast, þaðan sjáum við fréttir (oftar en ekki af átökum, málþófi, mismælum eða dónaskap) og þar held ég að margir haldi að við höldum til alla daga – það er ef við erum ekki hreinlega að skrópa.

Þingmönnum er samkvæmt 60. gr. þingskapa skilt að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni eins og það er orðað. Og maður reynir auðvitað að vera þar á hverjum degi og oftast tekst það. Þingfundir hefjast ýmist á fyrirspurnartíma þar sem þingmenn geta spurt ráðherra spjörunum úr eða dagskrárlið sem nefnist „störf þingsins“ þar sem þeir geta spurt hvorn annan,  komið með yfirlýsingu eða rætt ákveðin mál í tvær mínútur. Eftir það heldur dagskrá þingsins áfram með þingmálum og stundum svokölluðum „sérstökum umræðum“ sem hétu áður „umræður utan dagskrár“ og fjalla um tiltekið mál sem þingmaður vill ræða við ráðherra og aðra þingmenn. Stöku sinnum eru svo umræður um skýrslur.

En þingmenn gera auðvitað margt fleira og eiga að gera það. Okkur berst ótrúlegt magn af lesefni og í raun ekki nokkur leið að komast yfir það allt með góðu móti. Nærveru þingmanna, einkum af landsbyggðinni, er óskað við fjölmörg tækifæri og nánast á hverjum degi eru haldnir áhugaverðir umræðu- og fræðslufundir sem gagnlegt væri að sækja og tengjast því sem maður er að fást við en það er ekki séns að sinna því öllu. En fyrirferðamest er þó, auk starfa í þingsal nefndarstarf. Í þinginu starfa átta fagnefndir og sitja þingmenn ýmist í einni eða tveimur nefndum. Þær funda á morgnanna og þangað er frumvörpum og þingsályktunartillögum vísað og málin skoðuð ef meirihlutinn ætlar á annað borð að afgreiða þau út úr nefndinni. Þá eru auðvitað ótaldir fundir í þingflokkum, stjórnmálasamtökum og með alls konar fólki.

Allt er þetta mikilvægt og fer yfirleitt fram í mun betri sátt og samkomulagi en fólk almennt trúir að þingmenn séu færir um. Á nefndardögum finnst mér ég í „alvöru vinnu“, við fundum frá morgni til kvölds, tökum á móti spekingum og umsagnaraðilum og reynum að skilja málin til fullnustu og bæta þau ef þarf. Þar er líka hægt að hafa töluverð áhrif á framgang þeirra hvar í flokki sem maður stendur. En það er ekki þetta sem fólk sér. Það sér bara pontuna og yfirleitt bara verstu augnablikin.

En ræðustóll Alþingis er líka mikilvægur. Þingmönnum ber að veita ráðherrum aðhald og það geta þeir gert með fyrirspurnum. Þeir geta líka spurt út í þingmál þegar ráðherrar eða aðrir þingmenn mæla fyrir málum til að fá nánari útskýringar. Og þingmenn geta komið sínum sjónarmiðum á framfæri um málin hvort sem þeir eiga sæti í fagnefndinni eða ekki, sagt hvað þeim finnst að eða komið með ábendingar um hvað betur megi fara.

Þegar best lætur nýtist pontan því vel til skoðanaskipta og er gríðarlega mikilvæg. Nefndarmenn reyna að vera viðstaddir umræðuna og hlýða á öll sjónarmið sem fram koma og taka með sér í nesti inn í nefndarstarfið. Þegar mál hafa verið afgreidd frá nefnd er greint frá vinnu nefndarinnar og niðurstöðum og frá breytingum ef einhverjar eru. Frumvörp verða ekki að lögum nema þau séu samþykkt  eftir þrjár umræður og því gefst þinginu tækifæri til að breyta og bæta enn frekar ef þörf er á ef eitthvað nýtt kemur fram við aðra umræðu málsins. Þingsályktanir eru hins vegar aðeins ræddar í tveimur umræðum.

Síðustu vikur í þinginu – ja þar til í gærkvöldi – hafa einkennst af miklu málæði, málþófi. Þá fer þetta mikilvæga hlutverk pontunnar fyrir lítið. Þegar umræðan hefur staðið í tugi klukkustunda og sömu þingmennirnir hafa rætt málin aftur og aftur er ekki bara hætt við heldur næstum víst að þau mikilvægu sjónarmið sem þurfa að koma fram fari fyrir lítið. Það er útilokað að skilja kjarnan frá hisminu. Þótt nefndarmenn sem aðrir þingmenn séu allir af vilja gerðir og reyni að sinna starfi sínu af alúð og hlusta fara þau orð sem taka þarf tillit til oft fyrir ofan garð og neðan. Og svo hætta jafnvel aðrir þingmenn, sem kunna að hafa eitthvað gáfulegt til málanna að leggja, við að tala í málinu því þeir vilja ekki lengja umræðuna, taka þátt í málþófi né sjá tilgang í því að ræða málin að næturlagi. Og í þannig ástandi hættir pontan að þjóna öðru hlutverki en að tefja mál eða stöðva þau alveg og skapa flöskuháls sem kemur í veg fyrir að önnur mál fáist rædd. Það er nefnilega bara einn ræðustóll. En svo lýkur þingstörfum að lokum þegar samið hefur verið í óreykfylltum bakherbergjum og síðustu dagana eru mál keyrð í gegn án alvöru umræðu í þingsal. Að sumu leyti er ekki óeðlilegt að mörg mál séu afgreidd á lokasprettinum því hann er eins konar uppskerutími og sum mál hafa verið í skoðun meira og minna allan veturinn en önnur eru í raun bara nýkomin inn í þingið og hafa lítið komist í umræðu í þingsal því pontan hefur verið tekin undir annað.

Málþóf ætti að mínu mati að vera öryggisventill og það er mikilvægt lýðræðinu að hafa slíkt tæki í þinginu. Það verður að vera hægt að grípa í taumana. En málþóf er ekki endilega skynsamlegasti öryggisventillinn sem þing getur haft. Og eftir því sem ég kemst næst (þótt ég sé hvorki hokin af þingreynslu né einhver sérfræðingur) eru þau fátíð í flestum löndunum í kringum okkur. Í Bandaríkjunum skilst mér að það nægi minnihlutanum að hóta málþófi til að mál séu tekin af dagskrá. Á Norðurlöndunum er yfirleitt samið um ræðutíma fyrirfram og málþóf því afar fátíð og mun styttri en við eigum að venjast. Og kannski það sem mestu skiptir – þau eru um stóru, mikilvægu málin. Hér er talað lon og don um mál sem skipta litlu eins og hvað ráðuneytin heiti, hvað þau eru mörg og hvar þau eru til húsa til þess að skapa samningsstöðu um stóru málin með því að koma þeim í tímaþröng. Í fyrra var talað í heilan dag um EES tilskipun sem engin man lengur um hvað snérist bara til að sýna að það var hægt. Ræðustóll Alþingis er reglulega hertekin því sá sem ræður yfir honum hefur töglin og haldirnar í þinginu. Þannig er djöflast á neyðarhemlinum með þeim afleiðingum að pontan er í raun ónýt því hún virkar hvorki sem lýðræðislegur umræðuvettvangur né mun hún virka í neyð því það er svo oft búið að kalla þaðan úlfur, úlfur án tilefnis.

Alþingi er lítið þing, þingmenn aðeins 63. Samt tölum við jafnmikið eða meira en mörg þjóðþing milljóna þjóða, höldum fleiri þingfundi sem standa lengur. Allir virðast þurfa að tjá sig um öll mál þótt þeir hafi stundum ekkert sérstakt til málanna að leggja og ræðurnar séu  endurtekningasamar. Í stærri löndum sem hafa mun fjölmennari þing skiptir fólk með sér verkum. Fólk sérhæfir sig og flokkar eru með talsmenn í ákveðnum málaflokkum. Hér röðum við okkur vissulega í fagnefndir eftir áhugasviðum, menntun og starfsreynslu en það er rík krafa á stjórnmálamenn að þeir viti allt og kunni allt. Menn tala fjálglega en hætt er við því að þekkingin risti ekki djúpt.

Fyrir þinginu er þingmál sem gerir ráð fyrir því að samið sé um ræðutíma fyrirfram eins og gert er á Norðurlöndunum. Verði það gert þarf stjórnarandstaðan nýjan neyðarhemil og sá sem mér huggnast best er að minni hluti þings geti sent mál til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er t.d. hægt í Danmörku og þar hefur þessu ákvæði aðeins verið beitt einu sinni. Ég held að slíkt fyrirkomulag yrði í mesta lagi misnotað einu sinni því þjóðin hefur engan húmor fyrir því að fá send til sín smámál eins og þau sem hafa verið rædd dag og nótt undanfarið og skipta almenning litlu sem engu máli.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is