Mánudagur 30.04.2012 - 18:35 - FB ummæli ()

Hvenær getum við hætt að vera reið?

Reynir Traustason skrifaði athyglisverðan og umdeildan leiðara í DV síðasta föstudag undir yfirskriftinni “Fyrirgefningin”. Í pistlinum segir hann að við verðum að sætta okkur við það að í einhverjum tilfellum, jafnvel flestum, muni okkur ekki takast að koma lögum yfir þá sem flestir telja bera mesta ábyrgð á hruninu – og við þurfum að sætta okkur við það og fyrirgefa hinum svokölluðu útrásarvíkingum. Við þurfum að kalla fólk til verka sem hafi “vit og þekkingu”  sem nýtist við endurreisn landsins.

Nú má gera alvarlegar athugasemdir við þá hugmynd að útrásarvíkingarnir okkar búi yfir sérstöku viti eða þekkingu en látum það liggja milli hluta. Spurningin um það hvenær nóg er komið, hvenær við verðum að loka á fortíðina og horfa fram á veginn stendur hins vegar eftir.

Höggið

Ég vona að enginn móðgist þótt ég lýsi Hruninu og afleiðingum þess fyrir íslensku þjóðina við áfall, sorg og sorgarferli. Þannig upplifði ég það að minnsta kosti. Þótt ýmsar blikur hafi verið á lofti þá kom það sem reiðarslag. Allt sem við höfðum tekið sem gefinn hlut reyndist byggt á lygi. Allir sem við treystum til að gæta hags okkar virðast hafa brugðist. En einhvern tímann verðum við að setja punkt og horfa fram á veginn.

Sorgarferlið

Þótt enginn bregðist nákvæmlega eins við sorg eða áfalli hefur sorgarferlið verið skilgreint og framvinda þess virðist svipuð hjá flestum. Fyrsta kemur lost eða  vantrú – Maður á erfitt með að trúa því að þetta hafi í raun og veru gerst. Næst kemur viðbragðastig þar sem fólk neyðist til að horfast í augu við raunveruleikann og reyna að skilja hann. Þriðja stigið er úrvinnsla og það fjórða skilningur. Hvort tveggja lýsir ágætlega þeirri vinnu sem unnin var með skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og umræðum í kjölfarið sem og vinnu sérstaks saksóknara sem við sjáum enn ekki fyrir endann á. Fimmta stigið er svo sátt. Og stóra spurningin er : Hvernig og hvenær komumst við þangað?

Aldrei aftur 2007

Lífið verður aldrei aftur eins og það var 2007 og persónulega hef ég engann áhuga á að endurreisa það yfirborðskennda efnishyggjusamfélag þar sem fólk gaf sér ekki tíma til að fara með veik börn til læknis nema kvöld og helgar. En eins og Reynir bendir á er blóðtakan úr samfélaginu okkar frá hruni gífurleg. Þar finnst mér hins vegar muna mestu um alla þá dugmiklu og/eða velmenntuðu einstaklinga sem hafa gefist upp og flúið land. Allt heilbrigðisstarfsfólkið sem samfélagið hefur kostað miklu til að mennta en þjónar nú norskum eða sænskum ríkisborgurum, alla smiðina okkar, leikskólakennarana, kokkana og hárgreiðslumeistarana.

En spurningin er brýn: Hvenær og hvernig getum við fyrirgefið? Og er yfirhöfuð hægt að fyrirgefa fólki sem notar hvert tækifæri til að afneita sínum þætti í því sem gerðist? Og er hægt að ná sátt án réttlætis? Er mögulegt fyrir Meðal-Jóninn sem situr uppi með stökkbreyttar skuldir (en er vissulega flatskjáseigandi og tók jafn vel lán fyrir nýjum jeppa) að fyrirgefa þeim sem settu Ísland á hausinn, hafa fengið milljarða afskrifaða en halda þó öllu sínu? Einhvern veginn efast ég um það.

 

Greinin birtist fyrst í DV 30. apríl 2012.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is