Sunnudagur 29.04.2012 - 16:56 - FB ummæli ()

Ofstækismanneskja játar

Ég verð að viðurkenna að ég varð ansi hugsi eftir að hafa hlustað á fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar, Geir H. Haarde, ausa úr skálum reiði sinnar í kjölfar dómsuppkvaðningar Landsdóms á mánudag. Hann talaði eins og sá sem valdið hefur – án þess þó að hafa það. Það kom ekki vel út. Niðurstaðan virtist koma honum á óvart og sigurræðan sem hann hafði greinilega undirbúið var ekki í neinu samræmi við tilfinningar hans á þessari stundu og úr varð undarlegt ávarp þar sem stórir dómar féllu. Ólíkt vönduðu dómsorði Landsdóms byggðist málflutningur Geirs á órökstuddum fullyrðingum og aðdróttunum í ýmsar áttir, meðal annars í garð dómsins þar sem hann sagði „pólitísk sjónarmið [hafa] laumað sér inn í réttinn og meirihluti dómara ákveðið að láta þau ráða för frekar heldur en hreint lögfræðileg mat.“

Geir hélt áfram í viðtölum á tveimur sjónvarpsstöðvum um kvöldið og ekki virtist honum runnin reiðin. Í hef birt ritun viðtalanna tveggja hér á blogginu mínu, fólki til frekari glöggvunar. Í Kastljósi tók hann dæmi um mál sem honum finnst að hefði verið kjörið fyrir landsdóm – sala Steingríms J. Sigfússonar á ríkisjörðum árið 1990 án þess að hafa til þess heimildir en Sjálfstæðisflokkurinn bjargaði honum með því að útvega heimildirnar eftir á. Það gekk fram af mér að sjá þennan fyrrum ráðamann þjóðarinnar stæra sig af þátttöku sinni í gömlu, pólitísku spillingarmáli sem afhjúpaði bæði samtryggingu stjórnmálastéttarinnar og valdamakk eins og þáttastjórnandi benti réttilega á. Getur verið að honum finnist það vera sér til framdráttar?

Í framhaldi af því ræddi Geir um hinn pólitíska kúltúr á Íslandi sem hann kallar svo. Hann sagði:  „Það komst inn á þing alls kyns ofstækisfólk, eins og þetta fólk sem situr á þingi núna fyrir Hreyfinguna.“  Að mati Geirs var Landsdómsmálið „tilraun til þess að breyta pólitíska kúltúrnum hérna á Íslandi.“ Og að mati Geirs „eru hatursfullir einstaklingar bæði í VG og Samfylkingunni og þetta fólk náði saman um þetta Landsdómsmál [með ofstækisfólkinu úr Hreyfingunni] og þar með var tilraun gerð til þess að hérna breyta stjórnmálakúltúrnum í landinu sem hefur nú alltaf verið svona frekar á vinsamlegum nótum.“

Það er nefnilega það. Samtrygging stjórnmálamanna er sem sagt stjórnmálakúltúr á frekar vinsamlegum nótum.

Það er rétt hjá Geir að það ferli sem hann sjálfur hóf ásamt formönnum hinna stjórnmálaflokkanna og forseta þingsins, með því að leggja til að Rannsóknarnefnd Alþingis yrði skipuð hafa ýmsir, þar á meðal ég, notað til þess að reyna breyta stjórnmálahefðinni enda ekki vanþörf á. Skýrsla nefndarinnar er vel unnin og geymir mikinn lærdóm um hvernig ekki á að gera hlutina. Mér finnst að hann eigum við að nýta til að uppræta gamla Ísland, land pólitískrar spillingar og samtryggingar, land þar sem oddvitar stjórnarflokka hafa hunsað þá stjórnskipun sem stjórnarskráin (sem gamla Ísland vill alls ekki breyta) kveður á um. Þegar menn ræða mikilvæg mál er varða þjóðarheill ekki í ríkisstjórn og halda staðreyndum frá fagráðherra er lýðræðið í hættu. Þá er ef til vill styttra í einræðið en við höldum.

Geir segist hafa verið að klást við þetta mál síðustu tvö ár. Í raun er það refsing í sjálfu sér. Ég hef verið að fást við afleiðingarnar af þessu hruni í þrjú og hálft ár, bæði í störfum mínum og einkalífi. Ég hef horft á húsnæðis- og námslán stökkbreytast, ég hef horft á eftir bæði vinum og hluta fjölskyldu minnar flýja land eftir atvinnumissi. Ég lofaði sjálfri mér því fyrir þremur og hálfu ári að gera allt sem í mínu valdi stæði til að laga þjóðfélagið sem ég ólst upp í og þar sem ég vil geta búið áfram. Þjóðfélag sem að mínum dómi er  óbærilegt vegna misskiptingar og ranglætis. Hér vil ég að synir mínir geti tekið út þroska, stofnað heimili og fjölskyldu og átt bjarta framtíð. Ef það er ofstæki verð ég að gangast við því.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is