Sunnudagur 29.04.2012 - 16:29 - FB ummæli ()

Geir H. Haarde í Kastljósinu

Mér hefur sýnst umræðan um það sem fyrrum forsætisráðherra Íslands sagði eftir að dómur féll út og suður og þrátt fyrir að upptökur séu aðgengilegar á vefnum eru ekki allir á sama máli um hvað hann sagði. Því hef ég ákveðið að birta hér viðtölin við hann sem sjónvarpað var um kvöldið, í þessari viðtalið í Kastljósi, í þeirra á undan viðtalið í Íslandi í dag á Stöð 2. Ræða hans úr tröppunum í Þjóðmenningarhúsinu er aðgengileg á vef RÚV.

 

RÚV–Kastljós – 23.04.2012.

Sigmar Guðmundsson (SG) ræðir við Geir H. Haarde (GHH), fyrrverandi forsætisráðherra um Landsdóm.

SG:                   Velkomin í Kastljós. Geir Haarde var í dag sakfelldur í einum ákærum af fjórum en Landsdómur kvað upp sinn dóm í dag.  Geir hefur gagnrýnd þessa niðurstöðu harðlega og hann er gestur Kastljóss í kvöld. Við heyrum líka ….. en fyrst er það Geir Haarde. Vertu velkominn í Kastljós.

GHH:              Takk fyrir það.

SG:                   Við skulum kannski aðeins, eigum nú svo sem eftir að fara vítt og breitt um þetta allt saman, en við skulum kannski staldra fyrst við þennan ákærulið þar sem þú ert sakfelldur. Þar er niðurstaðan býsna afgerandi, það steðjaði mikil hætta að fjármálakerfinu, hún birtist þér með mörgum hætti, þú varst meðvitaður um hana frá því í upphafi árs 2008 og hefðir átt að halda með formlegum hætti utan um þau mál inn á ríkisstjórnarfundi og ert sakfelldur fyrir það að hafa ekki gert það. Af hverju starfar ríkisstjórnin ekki með þeim hætti að svona mál séu tekin þar fyrir formlega?

GHH:             Ég fylgdi venjum sem tíðkast hafa hér á Íslandi í áratugi og sem ég hafði sjálfur kynnst sem óbreyttur ráðherra í ríkisstjórnum í 10 ár. Það er þannig að í samsteypustjórnum á Íslandi að þá byggja þær mikið á samstarfi formanna flokkanna hvort sem þeir eru tveir, þrír eða jafnvel fjórir og síðan ræður hver flokkur fyrir sig hvernig hann skipar málum sín megin. Og auðvitað var alltaf verið að ræða málefni bankanna t.d. milli okkar Ingibjargar Sólrúnar og stundum við fleiri og þá var það hennar verkefni að halda sínum ráðherrum upplýstum og mitt verkefni að halda mínu fólki með á nótunum. Sko, ég tel að þessi niðurstaða sem fengin er varðandi þetta atriði hún sé alveg út í hött og gangi þvert á þá venju sem skapast hefur um þessi mál og að ætla að sakfella mann fyrir það að framfylgja gamalli stjórnskipunarvenju sem þessari það finnst mér bara ekki geta gengið.

SG:                   Nei, en engu að síður sko, af því að þetta er náttúrlega svolítið skýrt kveðið á um þetta í Stjórnarskrá þannig að það er nú það sem dómurinn er að líta til; þetta er brot á Stjórnarskránni og þetta er brot á lögum um ráðherraábyrgð……

GHH:              Já, já, það er eins og ég sagði í dag…

SG:                   …Það hlýtur að ganga framar einhverri venju.

GHH:              …Það er eins og ég sagði í dag sko, ég skal þá bara taka á mínar herðar öll brot allra fyrrverandi forsætisráðherra á Íslandi frá því að það embætti varð til. Og gott og vel en aðalatriðið í þessu er nú samt það að þetta er mikil sneypuför fyrir þá sem lögðu af stað með það fyrir að fá mig sakfelldan fyrir að hafa borið ábyrgð á hruninu. Vegna þess að þessi liður – hann hefur ekkert að gera með orsakir hrunsins. Hinir liðirnir – tveimur var vísað frá í upphafi –  eða fljótlega og þrír voru afgreiddir í dag með sýknu. Það voru hinir efnislegu liðir. Þetta er allt annars eðlis og þess vegna segi ég það: ég hef unnið stóran sigur í málinu miðað við þessa niðurstöðu og líka það að þó að þeir segi að ég hafi gerst sekur um vanrækslu með að halda ekki þessa fundi þá var hún nú ekki meiri en svo að þeir sjá ekki ástæðu til þess að refsa fyrir það.

SG:                   Nei, ertu….

GHH:              Og þeir dæma mér sennilega hæstu málsvarnarlaun í sögunni sem er líka til marks um það að þeir telja málatilbúnaðinn af okkar hálfu hafa verið málefnalegan og vel að honum staðið.

SG:                   Já, þú sagðir líka í dag að það hefði verið sakfellt fyrir eitt smáatriði.

GHH:             Já.

SG:                   Þetta smáatriði er formsatriði, sagðirðu, svokallað formbrot.

GHH:             Ég sagði það já.

SG:                   Stendurðu ennþá við það?

GHH:              Ja, ég átti eftir, ég  var ekki þá búinn að kynna mér þetta til hlítar en það blasir þannig við mér já, að þetta sé fyrst og fremst formbrot.  Menn gátu ekki fundið neitt í efnisatriðunum og þá koma þeir með þetta atriði. Vegna hvers gera þeir það? Ja, þeir nota þá staðreynd að þetta er mjög matskennt og teygja þetta, að því er mér sýnist og ég hef fullan rétt á því að halda því fram – þó ég hafi ekki verið áheyrandi að fundum dómaranna þarna – þeir teygja þetta þannig að maður eins og Steingrímur J. Sigfússon, sem þú ætlar að tala hérna við á eftir, maðurinn sem stendur á bak við þetta og hans félagar, bæði í VG og Samfylkingunni, fá þarna smá haldreipi til að afsaka alla þessa óhæfu sem þetta mál hefur verið.

SG:                   Já, við skulum fara nánar í það á eftir …….

GHH:              Og til þess að ég sé nú bærilega sáttur að þá er mér ekki gerð refsing og ég fæ þennan háa málskostnað og væntanlega gert ráð fyrir því að ég segi þá ekki neitt og bara uni glaður við mitt.

SG:                   Já, já…..

GHH:              En það ætla ég ekki að gera.

SG:                   Nei,  þetta er þín kenning á þessu. En af því að, við þurfum að staldra við þetta vegna þess að þetta er mikilvægt. Þú talar um þetta eins og þetta sé smáatriði, formsatriði sem þér finnst formbrot – þá langar mig að lesa það sem er sagt í dómnum um þetta: Sú háttsemi ákærða að láta farast fyrir að hlíta fyrirmælum 17. gr. Stjórnarskrárinnar um að halda ráðherrafundi sem lýst hefur verið hér að framan var ekki eingöngu til þess að brotin væri formregla heldur stuðlaði hún líka að því að ekki var á vettvangi ríkisstjórnarinnar mörkuð pólitísk stefna til að takast á við þann mikla vanda sem ákærða hlaut að vera ljós í febrúar 2008. Ef slík stefna hefði verið mörkuð og henni síðan fylgt eftir að skipulegan hátt má leiða að því rök að draga hefði mátt úr því tjóni sem hlaust af falli bankanna og enn fremur er líklegt að stjórnvöld hefðu þá verið betur undir það búin að taka afstöðu Glitnisbanka um fjárhagsaðstoð þannig að það hefði mátt greiða úr vanda þess banka á yfirvegaðri hátt heldur en gert var.

GHH:               Já, já. Sko…

SG:                   Þetta, þú getur ekki sagt að þetta sé…

GHH:              Nei, sko…

SG:                   …. formbrot eða smáatriði…

GHH:              … þetta er nákvæmlega…

SG:                   það er talað um það að ef þú hefðir gert það sem þú áttir að gera þá hefði verið minna tjón á bankahruninu og skaðinn ekki jafn mikill.

GHH:              Það vantar alveg að setja inn í þetta: í hverju átti þessi stefna að felast?  Hvað var það sem vantaði í það sem verið var að gera. Þetta er nákvæmlega sama meinlokan og kemur fram hjá þingmannanefndinni sem formúleraði þessar ákærur. Það segir ekkert um það. Það segir ekkert um það í hverju þessi stefna átti að felast, til hvers hefði hún leitt?

SG:                   Sko, þarna…..

GHH:              Þannig að þetta er bara…

SG:                   Þarna er náttúrlega verið að vísa til þess, eins og þú veist, af því þú ert búinn að lesa þetta, þarna er verið að vísa til þess að stefna Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks þegar þessi  ríkisstjórn var mynduð, var að hlúa að bönkunum, örva að útrás þeirra og gera þeim mögulegt að stækka og eflast og dafna. Sú stefna var enn við lýði árið 2008. Það er það sem er verið að tala um í þessum dómi.

GHH:              Það stendur hvergi í stefnuyfirlýsingunni að það eigi að örva vöxt bankanna eða neitt slíkt.

SG:                   Hvetja þá eða a.m.k. ýta undir ……

GHH:              Nei, nei, lestu nú bara stjórnarsáttmálann um þetta.

SG:                   Ég var að lesa þetta allt saman í dag.

GHH:              Já, já, það stendur, þar eru bankarnir teknir sem dæmi um að það eigi að hlúa að fyrirtækjum sem eru í útrás og reyna að hvetja þau til þess að vera með sínar höfuðstöðvar á Íslandi vegna þess ..

SG:                   Þarna er hins vegar komin upp að það átti að draga úr stærð bankakerfisins og kannski….

GHH:              Heyrðu, það mál er afgreitt í sérstökum ákærulið, Sigmar, ég er sýknaður af því að hafa hérna, hafa… ekki staðið mig í því…

SG:                   Ekki í þessu tilfelli, þeir halda þessu fram í …….

GHH:              Heyrðu¸þú varst að nefna stærð bankana, það var sérstakur ákæruliður, niðurstaðan í dag er skýr: ég er sýknaður af því atriði. En þarna er verið að tala um þessa fundi og ég er búin að margsegja það, ég fór eftir hefðbundnum venjum í því efni. Það má auðvitað segja sem svo, varðandi Glitni auðvitað hefði það verið fínt ef við hefðum haft meiri tíma til að vinna úr því máli. Það liggur alveg í augum uppi. En lestu líka minnihlutaálitið, þetta var 9:6 þessi dómur, eða 9:5 og 1 og það er alveg greinilegt að lögfræðingarnir eru nú ekkert allir sammála. Og í þessum 9 manna hópi þarna eru 2 sem komu nýir inn í hópinn og voru ekki með allan tímann. M.ö.o. þessir 2 hafa hugsanlega velt meirihlutanum þarna í þessum dómi. Þetta er allt saman til umhugsunar.

SG:                  Þetta eru vangaveltur hjá þér en það eru gerðar athugasemdir…..

GHH:             Bíddu aðeins. Þessi dómur er auðvitað endanlegur. Ég get ekki gert kröfur til þess að dómararnir  fari eitthvað að rökræða þetta við mig eða rökræða dóminn út á við. Ég get hins vegar lagt á borðið hér mínar vangaveltur og hvernig ég túlka þetta og hvað mér sýnist um þennan dóm. Og ég ætla bara að gera það.

SG:                   Já, já, algjörlega og hérna  má ég þá halda því til haga að athugasemdir dómsins í þessum ákærulið eru kannski talsvert alvarlegri og meiri heldur en þú hefur verið að segja. Það eru t.d.  gerðar athugasemdir við að það hafi ekki verið rætt um samráðshópinn  í ríkisstjórn, það var ekki talað um þessa pólitísku stefnumótun sem við vorum að fara í gegnum hér áðan. Icesave var ekki rætt sérstaklega í ríkisstjórn, ekki  fundur með bankastjórn Seðlabankans 7. febrúar, ekki yfirlýsingin um gjaldmiðlaskiptasamning við Norðurlöndin, þar m.a. skuldbatt ríkið sig til ákveðinna aðgerða. Ekkert af þessu var formlega rætt í ríkisstjórn….

GHH:              Í fyrsta lagi var það nú ekki skuldbinding heldur viljayfirlýsing en í öðru lag þá voru þessir hlutir allir ræddir á….

SG:                   A.m.k. ríkið tók að sér að gera eitthvað …

GHH:              Seðlabankinn tók að sér að gera ákveðna hluti, ríkið tók að sér að gera aðra hluti eða ætlaði að beita sér fyrir því. Allir þessir hlutir…..

SG:                   En af hverju…

GHH:              … voru ræddir á öðrum vettvangi, Sigmar, þeir voru ræddir á ýmsum öðrum vettvangi og…

SG:                   Finnst þér ekki  eftir á að hyggja…

GHH:               …og líka, þeir voru líka ræddir utan dagskrár á ríkisstjórnarfundum eftir atvikum. Ég get ekki nefnt þér nákvæmlega hvenær og hvar. Það var heilmikið rætt t.d. um þetta Icesave mál á milli mann þegar…

SG:                   En það er kannski talað um það að þetta þurfi…

 GHH:              Já, já.

SG:                   … að vera formlega. ..

GHH:              Já, já, ok, sko.

SG:                   Finnst þér ekki eftir á að hyggja þegar þú ert búinn að lesa þetta að það sé….

GHH:             Það má vel halda því fram að það hefði þurft að vera formlegra og  það gæti hafa þurft að vera það frá 1918 sko.  Við töldum ekki og höfðum ekki hugmynd um að nokkrum manni dytti í hug að fara með það fyrir Landsdóm hvernig að þessum málum var staðið og að mann hefði einhvern tíma órað fyrir því að maður væri að brjóta Stjórnarskrána  með þeim vinnubrögðum sem tíðkuðust. Mér datt það bara aldrei í hug. Venjulega vita menn nú af því ef þeir eru að brjóta lög eða tala nú ekki um Stjórnarskrána, en ekki í þessu tilfelli og þessir hlutir voru margræddir á hinum og þessum stöðum. En það má auðvitað segja sem svo – OK – ég meina auðvitað  hefði ég viljað hafa rætt þetta úr því að maður er sakfelldur fyrir það….

SG:                   Já, já, það…

GHH:              … Það var ekki það að menn vildu ekki ræða hlutina. Það gat að vísu verið hætta á því að einhverjir hlutir lækju út.

SG:                   Já, já, og …

GHH:              Það er ekki…

SG:                   …og það er gagnrýnt í dómnum líka að þið hefðuð ekki átt að…

GHH:              …það er ekki óþekkt fyrirbæri.

SG:                   Nei.

GHH:              En varðandi þetta að hlutirnir séu ekki ræddir í ríkisstjórn. Hvað má þá segja t.d. um Icesave samninginn sem Steingrímur J. Sigfússon og þeir gerðu, var hann ræddur í ríkisstjórn? Ja, a.m.k. var hann ekki ræddur þar að frumkvæði forsætisráðherra sem sá ekki samninginn áður en hann var lagður fram.

SG:                   En má ég spyrja þig…

GHH:              Bíddu, má ég klára aðeins þetta.

SG:                   Já.

GHH:              Varðandi hérna það nýjasta í þessu sem er meðalganga Evrópusambandsins í þessu máli ESA gegn Íslandi..

SG:                   Já, já.

GHH:               …Fyrir ESA dómstólnum, EFTA dómstólnum. Utanríkisráðherrann vissi þetta heillengi. Þetta  er  mikilvægt stjórnarmálefni, af hverju var þetta ekki lagt fyrir ríkisstjórn? Á að fara með hann fyrir Landsdóm út af því? Ég er bara að nefna þetta, þarna eru ný dæmi. Svo var náttúrlega annað mál…

SG:                   Heyrðu, en má ég þá spyrja þig af því við skiljum alveg punktinn þinn. En er það í sjálfu sér vörn fyrir þig að mögulega hafi einhverjir aðrir þá brotið gegn Stjórnarskrá? Það sem ég er kannski að reyna, er undirliggjandi hérna: eru menn ekki að skauta svolítið….

GHH:              Ég er bara að nefna þér það, nefna þér dæmi um það Sigmar…

SG:                   … létt fram hjá þeirri staðreynd að það fellur áfellisdómur í dag yfir því hvernig ríkisstjórnir í landinu hafa starfað?

GHH:               … Já, já, gott og vel, en ég er bara að sýna þér það að þetta er enn þann dag. Enn þann dag í dag hefur þetta verið tíðkað svona. Það er lagt í vald hvers ráðherra fyrir sig hvort hann kemur með mál fyrir ríkisstjórnina eða ekki og forsætisráðherrann  auðvitað hefur stjórn á því hvaða mál eru á dagskrá fundarins. Ég ætla að nefna þér annað mál sem er nú orðið dálítið gamalt  en varð ekki ekki að Landsdómsmáli en hefði getað orðið það. Það var þegar umræddur Steingrímur J. Sigfússon seldi jarðir sem ríkið átti án þess að hafa til þess heimildir Alþingis. Kirkjuferja og Kirkjuferjuhjáleiga í Ölfusi  að mig minnir á árinu 1990. Þarna var alveg rakið Landsdómsmál vegna þess að maðurinn ráðstafaði eignum ríkisins án þess að hafa til þess heimildir. Hvað gerðist: Sjálfstæðisflokkurinn kom til skjalanna og bjargaði honum ofan af króknum. Útvegaði h onum þær heimildir sem hann þurfti svoleiðis að hann gæti ekki, þyrfti ekki að sitja uppi með…

SG:                   Og er það þá bara rétt….

GHH:              Nei, nei, ég er bara að segja það…

SG:                   …ef hann gerði svona rangt átti þá Sjálfstæðisflokkurinn að skera hann niður úr snörunni?

GHH:              Sjáðu bara til, ég er bara að segja þér það…

SG:                   Þú ert að lýsa því kannski svolítið hvernig pólitíkin hefur virkað í gegnum tíðina…

GHH:              Ég er að segja þér það …

SG:                   … svona einhver samtrygging og …

GHH:              Þú leyfir mér ekkert að komast að …

SG:                   .. valdamakk.

GHH:              Má ég komast að núna?

SG:                   Gjörðu svo vel.

GHH:               Sko. Þetta Landsdómsmál er tilraun til þess, eða var tilraun til þess að breyta pólitíska kúltúrnum hérna á Íslandi. Það komst inn á þing alls kyns ofstækisfólk, eins og þetta fólk sem situr á þingi núna fyrir Hreyfinguna. Það eru hatursfullir einstaklingar bæði í VG og Samfylkingunni og þetta fólk náði saman um þetta Landsdómsmál og þar með var tilraun gerð til þess að hérna breyta stjórnmálakúltúrnum í landinu sem hefur nú alltaf verið svona frekar á vinsamlegum nótum. Menn hafa alltaf getað unnið saman þvert á flokka, unnið saman fyrir utan þingsalinn þó þeir væru að rífast inni í þingsalnum o.s.frv. o.s.frv. Ég er nú að gera mér vonir um að það takist ekki að breyta þessum kúltúr en auðvitað hefur þetta mál eitrað heilmikið andrúmsloftið í stjórnmálunum og á Alþingi, það vita allir.

SG:                   Þú talar sem sagt um að þetta mál sé frá upphafi pólitísk vegferð, pólitískt mál?

GHH:              Það hef ég margsagt.

SG:                   Já. Hvernig stendur þá á því að það ert þú og Sturla Böðvarsson sem leggið fram tillögu í þinginu um það að Rannsóknarnefnd Alþingis eigi að taka til starfa og í þeirri tillögu er beinlínis gert ráð fyrir því að Rannsóknarnefndin komi því til Alþingis hvort það eigi að sækja ráðherra til saka samkvæmt lögum um Landsdóm.

GHH:              Þetta er ekki rétt með farið hjá þér. Ég er stoltur af því að hafa haft…

SG:                   Þú lagðir fram þessa tillögu.

GHH:               … og formönnum annarra flokka. Ég er stoltur af því að hafa átt frumkvæði að þessari tillögu ásamt Sturlu Böðvarssyni…

SG:                  Þar var leiðin vörðuð.

GHH:             Bíddu nú rólegur. Það stendur í lögunum um Rannsóknarnefndina að um mál er varða lögin um ráðherraábyrgð þá fari samkvæmt lögunum um ráðherraábyrgð. Það var nú bara svo augljóst að það þurfti ekki einu sinni að setja það inn í lögin en við gerðum það nú samt.  En þar var enginn vegvísir að því að það ætti að fara í svona Landsdómsmál…

SG:                   Það stendur…

GHH:              … eins og gert hefur verið.

SG:                   … það stendur í greinargerðinni: Samhliða verður skýrslan birt opinberlega þ.e.a.s. skýrsla Rannsóknarnefndarinnar. Það er síðan hlutverk Alþingis að meta hvort tilefni sé til þess að ráðherrar sæti ábyrgð fyrir mistök eða vanrækslu í starfi.

GHH:              Já, já.

SG:                   Þið gerðuð m.ö.o. algjörlega ráð fyrir þeim möguleika að þetta gæti dottið ….

GHH:              Eða sko, eins og þetta mál æxlaðist nú og þróaðist þá var enginn vafi á því hvað bjó að baki hjá þessu fólki sem ég nefndi nú hérna áðan. Sko, það er sett á laggirnar þingmannanefnd, henni stýrir Atli Gíslason. Hann dregur … með sér alls kyns fólk í þessari nefnd sem skákar í því skjóli að hann sé svo góður hæstaréttarlögmaður og kannski var hann það nú einhvern tíma en hins vegar hérna er engin rannsókn gerð á málsatvikunum og allur málatilbúnaðurinn sem þarna er í þinginu er í skötulíki. Það var aldrei ætlun okkar Sturlu Böðvarssonar að þannig yrði staðið að málum. Eða að það yrði reynt að sigta út pólitíska andstæðinga – eins og gert var í þinginu – þegar niðurstaðan lá fyrir.

SG:                   En það að það kemur sakfelling í málinu að hluta til það hlýtur nú að réttlæta það að vegferðin fór af stað, er það ekki? Þegar menn eiga náttúrlega ….

GHH:              Nei, ég tel það ekki vera. Ekki miðað við það hvernig þetta mál allt saman liggur þegar spilin eru öll komin á borðið og það er þarna vægileg sakfelling án refsingar í lið sem hefur ekkert með hrunið að gera.

SG:                   Nei, en hvað finnst þér þá um að lesa t.d. í þeim ákæruliðum þar sem þú ert sýknaður, ekki síst í þeim ákæruliðum sem dregur það fram að þú hafir átt að draga úr stærð bankakerfisins, að þar færðu svona nokkuð harðar aðfinnslur hér og þar fyrir eitt og annað sem þú lést ógert.

GHH:               Sko, ég hef margsagt og sagði það í dag að auðvitað mátti ýmislegt betur fara. Ég hef aldrei haldið því fram að allt sem ég hafi gert meðan ég sat í ríkisstjórn hafi verið það eina rétta eða 100% rétt. Ég gengst við því en ég framdi ekki glæpi, ég braut ekki lögin. Hvað þá að ég hafi gert það af ásetningi eins og mér er gefið að sök. Það er bara fáránleg ásökun.

SG:                   Já. Þú kallaðir í dag eftir afsögn manna…

GHH:              Já.

SG:                   Hverjir eiga að segja af sér?

GHH:              Ja, ég mælist nú til þess að þeir menn sem hafa tekið á sig þá ábyrgð að hefja þetta mál, þetta gönuhlaup og þessa sneypuför, taki nú einu sinni ábyrgð á gerðum sínum. Og hverjir eru það þá, þú spyrð að því. Ja, það er nú fyrst og fremst höfuðpaurinn í málinu Steingrímur J. Sigfússon og síðan allir þeir sem geta rakið til sjálfs sín hluta af ábyrgðinni fyrir málinu. Ég ætla ekkert að nefna hérna  marga menn fleiri, þeir eru auðvitað mjög margir, Samfylking og annað sem eiga að hafa manndóm í sér til þess að horfast í augu við það…

SG:                   Og segja af sér?

GHH:              … að út úr þessu máli kom ekki það sem til stóð.

SG:                   Og eiga þessir menn að segja af sér?

GHH:              Það finnst mér. Það hefði ég gert í þeirra sporum.

SG:                   Já. En núna hrundi bankakerfið á þinni vakt. Heilt bankakerfi hérna yfir þjóðina með tilheyrandi skaða og voða fyrir alla og fjárhagslegu tjóni. Þú vildir ekki segja af þér út af því. Af hverju ættu að vera ríkari kröfur til pólitískra andstæðinga um að segja af sér út af þessu máli þegar þú steigst ekki til hliðar þegar bankakerfið hrundi?

GHH:              Nei, vegna þess að við vorum með plan um það hvernig ætti að bregðast við og hvernig ætti að vinna landið út úr þessari krísu sem hafin var og því miður þá hefur núverandi ríkisstjórn tafið það ferli allt saman…

SG:                   En af því að þú ert að kalla eftir…

GHH:              Já, leyfðu mér að segja það…

SG:                   Þú ert að kalla eftir  -þú skilur alveg punktinn – þú ert að kalla eftir ábyrgð.

GHH:               Sjáðu til. Hér hafa menn lagt mikið undir til þess að koma höggi á mig. Það er mjög hátt reitt til höggs til þess að koma höggi hér á einn einstakling og koma höggi á minn flokk. Þetta  högg geigar. Það misheppnast og eins og ég sagði áðan þá verður úr þessu sneypuför og hvernig væri nú að þeir einstaklingar sem bera ábyrgð á því reyndu nú einu sinni að horfast í augu við, við, við, við afleiðingar gerða sinna og tækju nú pokann sinn.

SG:                   Finnst þér það í alvöru alvarlegra að þú hafir verið dæmdur og þess að vegna eigi menn að segja af sér út af þeim málatilbúnaði frekar heldur en að þú hefðir átt að segja af þér þegar bankarnir hrundu hérna yfir þjóðina?

GHH:              Ekki snúa út úr.

SG:                   Ég er ekki að snúa út úr. Þú ert að tala um ábyrgð …

GHH:              Ekki snúa út úr fyrir mér.

SG:                   Nei, þú ert að tala um það að ráðherrar eigi að bera ábyrgð og þeir eigi að standa á bak við sannfæringu sína og víkja ef þeir gera mistök. Það hlýtur að mega líkja þessu tvennu saman.

GHH:              Bankahrunið kom ekki til skjalanna sem ávöxtur af einhverjum mistökum sem við höfðum gert.  Það var hérna í uppsiglingu ákveðinn tíma og það var vegna þess….

SG:                   Annað segir nú …

GHH:              … bankarnir voru alltof veikir.

SG:                   … skýrslan sem rannsakaði þetta.

GHH:              Nei, nei.

SG:                   Án þess að við förum nú í þá umræðu. Þú …

GHH:             Skýrslan segir fyrst og fremst var þetta bönkunum sjálfum að kenna en svo komu auðvitað utan að komandi faktorar og auðvitað…

SG:                   Og stjórnvöld líka,Geir. Þú getur ekki gert svona lítið úr því sem skýrslan….

GHH:              Heyrðu. OK. Hvað erum við að tala um? Erum við að tala um ábyrgð manna hérna núna eða ætlarðu að fara tala um…

SG:                   Ég er bara að líkja þessu saman af því að þú ert að…

GHH:               … eða ætlarðu að fara að tala um skýrslu Rannsóknarnefndarinnar?

SG:                   Nei, nei.

GHH:              Ég segi það, það var reitt hátt til höggs. Það var reynt að koma mér varanlega til hliðar, bæði í stjórnmálum og á opinberum vettvangi almennt. Það var reynt að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn að hann biði þess aldrei bætur. Þetta  misheppnast allt. Þetta geigar allt. Þetta eru klámhögg og fólk á að horfast í augu við það og taka pokann sinn, þeir sem á annað borð vilja kannast við einhverja ábyrgð á sínum  gerðum.

SG:                   Stutt í lokin. Ef þú ferð með þetta mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu eins og þú hefur  talað um að gerist mögulega, á hvaða forsendum yrði það þá?

GHH:              Ja, þá myndi ég vilja láta kanna það og fara yfir það hvort það stenst að sakfella á þeim grunni sem hér er gert. Það er nú yfirleitt það sem gerist við slíka yfirferð hjá Mannréttindadómstólnum. Stenst þetta sem hér var gert? Og þá í leiðinni: Stenst málsmeðferðin sem Landsdómur beitti sér fyrir í upphafi og var að mínum dómi algjört klúður bæði hjá Alþingi, saksóknara Alþingis, Landsdómi sjálfum og dómsmálaráðuneytinu á þeim tíma. Þetta myndum við allt láta fara yfir.

SG:                   Já, þetta ætlið þið að skoða og það kemur þá í ljós síðar hvort þið farið í þá vegferð. Ég þakka þér fyrir að koma í Kastljós, Geir.

Lengd viðtals: 00:19:09

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is