Sunnudagur 29.04.2012 - 16:14 - FB ummæli ()

Geir H. Haarde í Íslandi í dag

Mér hefur sýnst umræðan um það sem fyrrum forsætisráðherra Íslands sagði eftir að dómur féll út og suður og þrátt fyrir að upptökur séu aðgengilegar á vefnum eru ekki allir á sama máli um hvað hann sagði. Því hef ég ákveðið að birta hér viðtölin við hann sem sjónvarpað var um kvöldið, í þessari viðtalið á Stöð 2, í þeirra næstu viðtalið í Kastljósi. Ræða hans úr tröppunum í Þjóðmenningarhúsinu er aðgengileg á vef RÚV.

 

STÖÐ 2 – ÍSLAND Í DAG

23. apríl 2012

Þorbjörn Þórðarson (ÞÞ) ræðir við Geir H. Haarde (GHH), fyrrverandi forsætisráðherra.

 

Þorbjörn Þórðarson:

Gott kvöld og verið velkomin í Ísland í dag. Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, er fyrsti ráðherra í heiminum sem dreginn er til ábyrgðar fyrir vanrækslu í tengslum við bankahrunið 2008. Það var því í reynd sögulegur dagur í dag er hann var sýknaður af þremur ákæruliðum af fjórum í Landsdómi í Þjóðmenningarhúsi en sakfelldur fyrir hirðuleysi og brot á 17. gr. stjórnarskrárinnar, fyrir að hafa látið hjá líða að halda fundi í ríkisstjórn þegar hann var forsætisráðherra, þegar honum mátti vera vandi íslensku bankanna ljós. Geir Haarde er gestur okkur í dag.

 

ÞÞ                  Vertu velkominn í Ísland í dag, Geir.

 

GHH             Þakka þér fyrir.

 

ÞÞ                   Mig langar að byrja að ræða við þig bara svona á mannlegu nótunum, af því að þú… þegar þessi niðurstaða lá fyrir, þá varstu sýnilega mjög reiður og ósáttur þegar þú ræddir við þessa fjölmiðlamenn. Þú varst í geðshræringu, eðlilega, enda mikið áfall að vera ekki sýknaður af öllum fjórum. Geturðu sagt mér nákvæmlega, svona, hvernig þér líður núna eftir að þér hefur runnið reiðin, a.m.k. að hluta.

 

GHH                Jájá. Sko, þetta er nú þannig að þegar maður er búinn að vera lengi í pólitík, að þá veit maður að maður þarf alltaf að búast við því að hið óvænta geti gerst eða verri kosturinn verði ofan á ef það eru tveir í boði. Þess vegna var ég búinn að undirbúa mig undir tvo kosti: annars vegar þann að ég fengi sýknu af öllum atriðum, eins og ég reyndar átti von á, og hins vegar það að það kæmi sakfelling á nákvæmlega þessum lið. Og þess vegna var ég með hvort tveggja á hreinu. Ég vissi ekki náttúrulega um ýmis svona smáatriði en ég, hérna, var semsagt undir þetta búinn. En, sko, það verður að hafa þetta í huga, að málið hér byrjar með sex ákæruliðum. Tveim var vísað frá fyrir nokkru síðan. Í dag var verið að fjalla um fjóra ákæruliði. Það var tveim efnislegum vísað og í dag var kveðinn upp dómur um það að ég væri saklaus af þremur öðrum efnisliðum. Það er semsagt bara einn liður, sem að ég leyfi mér að kalla lið sem lýtur að formsatriðum, sem að ég er sakfelldur. Það segir reyndar í dómnum að það hafi verið stórfellt brot eða stórfelld vanræksla en eigi að síður er mér ekki dæmd nein refsing. Og ef þetta var stórfelld vanræksla að halda ekki nógu marga ríkisstjórnarfundi og bóka ekki nógu mikið á þessum fundum, hvernig getur það þá verið að maður þurfi ekki að sæta einhverjum refsingum fyrir það?

 

ÞÞ                   Það er náttúrulega rökstutt sérstaklega í dómsniðurstöðunni hvers vegna…

 

GHH              Jájá, það er rökstutt með því að ég sé 61 árs gamall og það er auðvitað alveg fjarstæðukennt.

 

ÞÞ                   En það er ekki…

 

GHH              En, sko, málið er það að hérna, að það er engu líkara, eins og ég var að segja þarna í dag, að dómararnir hafi viljað ná þarna einhverri pólitískri málamiðlun gagnvart því fólki á Alþingi sem að stóð fyrir þessu upphlaupi sem þetta mál er og þessu gönuhlaupi sem að þetta mál allt saman hefur reynst vera.

 

ÞÞ                   En trúirðu því í hjarta þínu, Geir, að það sé raunveru…

 

GHH              Ég trúi…

 

ÞÞ                   Má ég, sko, bara aðeins…

 

GHH              Já, fyrirgefðu. Jájá.

 

ÞÞ                   Trúirðu því að það sé raunverulega ástæðan? Af því að þegar maður skoðar nú hvaða dómarar þetta standa að baki, þetta eru dómarar í hæstarétti Íslands, sem eru skv. stjórnarskrá… eiga eingöngu að láta réttarheimildir ráða för, ekki pólitík. Trúirðu því virkilega að það sé ba… að það sé málið?

 

GHH               Skoðum þetta aðeins betur. Það eru níu dómarar af fimmtán sem vilja sakfella fyrir þennan lið. Allir fimmtán dómararnir vilja sýkna fyrir þessa þrjá liði. Ég… Mér býður í grun – auðvitað veit ég ekkert hvað mönnum hefur farið í milli þarna í dómnum – að þeir hafi viljað kasta einhverju svona… einhverju akkeri til þeirra sem að stóðu fyrir þessu máli en gera það þannig að ég mætti, eins og kallað er, vel við una, þ.e.a.s. ég fengi ekki refsingu, ég fengi hæstu málsvarnarlaun dæmd sem um getur á Íslandi og ég myndi þar með ekki segja orð við því. Það er misskilningur, sko. Og í þessum níu dómarahópi eru tveir dómarar sem að komu inn í réttinn, semsagt, undir meðferð málsins. Það urðu þarna dómaraskipti og það munar akkurat um þessa tvo. Nú ætla ég ekkert að segja að það hafi skipt máli en ég er bara að benda á að þetta er staðreynd.

 

ÞÞ                   En ertu ekki… Er ekki samt ómálefnalegt að fara í þessa hluti fremur en að skoða bara þau rök sem eru notuð í dómsniðurstöðu og reyna að átta sig á þeim og kannski svara þessu af örlítið meiri einlægni?

 

GHH               Sko, ég skal segja þér það, að ég er nú eldri tvævetur. Og þó að ég sé nú ekki lögfræðingur að mennt, að þá þekki ég lyktina af pólitík þegar að hana rekur á mína fjöru. Og því miður, að þá held ég að dómstóllinn þarna hafi látið sig hafa það, að ganga þarna pólitískra erinda í þessu máli. Og það er alveg ömurlegt ef að það er tilfellið. Og það er svona á þessu stigi mín niðurstaða í þessu. En aftur á móti verð ég samt sem áður að segja það, að ef maður horfir á öll efnisatriðin, ef maður horfir á hvernig niðurstaðan í þessu máli var, þá er ég auðvitað sigurvegari málsins; ég vann málið. Ég er annað hvort sýknaður eða ákærum er vísað frá hvað varðar fimm atriði og svo er þetta litla atriði sem er dæmt án refsingar. Og svo þessi háu málsvarnarlaun sem skipta auðvitað alltaf máli, það er alltaf litið til þeirra, hver borgar sakarkostnaðinn þegar verið er að gera upp, sko, hvernig mál kemur út á endanum.

 

ÞÞ                   Það er rétt. Það er náttúrulega tekið fram í dómsorði meirihlutans, að þú hafir verið sýknaður af alvarlegustu brotunum…

 

GHH             Það er einmitt málið.

 

ÞÞ                   Það er tekið fram skýrum orðum. En hins vegar er rökstuðningur fyrir þessari sakfellingu, 17. gr. stjórnarskrárinnar, býsna ýtarlegur. Og þar er m.a. áréttað sérstaklega að með því að þegar þér átti að hafa verið aðsteðjandi vandi bankanna ljós í febrúar 2008, að hafa ekki brugðist við með nægilega öflugri stefnumörkun pólitískt og upplýsa þinn meðráðherra, ráðherra bankamála, Björgvin G., við. Þá hafirðu einnig… ekki bara brotið formreglu, þú hafir einnig brotið efnisreglu, af því að þú stuðlaðir ekki að því að á vettvangi ríkisstjórnarinnar væri mörkuð pólitísk stefna til að bregðast við vandanum, eins og hann var þarna í febrúar 2008. Er þetta ekki eitthvað sem þú þarft að horfast í augu við?

 

GHH              Þetta er bara nákvæmlega sams konar málflutningur og kom út úr þingmannanefndinni. Það er sagt: það þurfti að gera eitthvað. Þarna segir: það þarf að móta pólitíska stefnu. Hver átti hún að vera? Því er ekkert svarað.

 

ÞÞ                   Að upplýsa ráðherra bankamála.

 

GHH              Hvað átti að… Hvað átti að felast í þeirri stefnu og til hvers hefði hún leitt? Ég meina, þarna er bara verið að stilla upp nýjum spurningum. En „pointið“ í þessu er það… Aðalatriðið í þessu er það, að þetta er mjög matskennt. Þetta ákvæði í stjórnarskránni og þetta ákvæði í lögunum um ráðherraábyrgð, þetta eru mjög matskenndir hlutir. Og dómararnir teygja þetta eins langt og þeir geta til þess að ná fram niðurstöðu sem að við heyrum núna að Steingrímur J. Sigfússon, Þór Saari og allt þetta fólk telur sig geta unað við.

 

ÞÞ                   En það kemur líka, eins og kom fram í fréttum okkar áðan, þá er töluverð gagnrýni sett fram einmitt á það að það hafi ekki legið fyrir áætlun til að bregðast við og hefði verið hægt að nota til að bregðast við, t.d. þegar þessi uppákoma verður í lok september varðandi Glitni banka. Þú verður að… Geir, er það ekki… er það ekki hægt að, burtséð frá ákæruliðunum á hendur þér…

 

GHH              Vertu nú aðeins rólegur, sko hérna… Ég hef margsagt það, ég sagði það í minni yfirlýsingu í dag: Auðvitað er það svo, þegar maður horfir til baka, að það var ekki allt kannski 100% hárrétt sem gert var, auðvitað var ýmislegt sem mátti betur fara ef menn hefðu haft betri tíma. En þegar að bankakreppa skellur á, þá hafa menn nú yfirleitt aldrei neinn tíma til að liggja í einhverjum miklum vangaveltum. Auðvitað hefði það allt saman verið miklu betra ef við hefðum haft tíma til þess að fara betur yfir þetta. Ef að t.d. allir ráðherrarnir í ríkisstjórninni hefðu verið á Íslandi og við hefðum getað kallað þá til o.s.frv. o.s.frv.

 

ÞÞ                   Vegna veikinda utanríkisráðherra.

 

GHH             Varðandi þarna Glitni…

 

ÞÞ                   [ógreinilegt] veikinda utanríkisráðherra.

 

GHH              Já, ég er t.d. að tala um það. En það voru ýmsir ráðherrar í burtu. Þetta var bara nokkrum dögum áður en að þingið átti að koma saman og þá eru ráðherrar að sinna alls kyns erindum erlendis.

 

ÞÞ                   En finnst þér sjálfum sem fyrrverandi forsætisráðherra, af því að það var… var það ekki fréttum okkar áðan, þarna þessi tilvitnuðu orð varðandi þessa atburði varðandi þessa Glitnishelgi. Er ekki dálítið sérstakt að ráðherra bankamála hafi frétt á sunnudegi, daginn fyrir þjóðnýtingu Glitnis, að hún stæði yfirleitt til? Er það ekki dálítið sérstakt?

 

GHH              Sko. Þá kem ég að því sem ég hef nú margfarið yfir, að… og ef þú vilt endilega fara að ræða einhver einstök atriði úr þessu í staðinn fyrir að ræða það sem að var verið að gera… var að gerast hérna í dag, þ.e.a.s. uppkvaðning þessa dóms. Það er þannig í samsteypustjórnum á Íslandi, að þær byggja mikið á samstarfi formanna flokkanna eða, ef að þeirra nýtur ekki við, að þá einhverra sem að þeir tilnefna. Það var allt eðlilegt í þeim efnum milli mín og formanns Samfylkingarinnar og Samfylkingin réði því hvernig hún hagaði sínum málum, við réðum því hvernig við höguðum okkar málum. Þetta er bara mjög gömul venja í samsteypustjórnum á Íslandi, alveg eins…

 

ÞÞ                   Þetta var hjá formanni Samfylkingarinnar.

 

GHH              … og tilhögun ríkisstjórnarfunda er bara, sko, áratugahefð fyrir. Ég held að meira að segja að það sé viðurkennt í dómnum, að það sé mjög löng stjórnarfarsvenja að haga hlutum með þeim hætti sem þarna var gert. En svo segja þeir: ja, en það var samt ekki… dugar ekki til. Það varð samt að halda einhverja fundi o.s.frv.

 

ÞÞ                   Hefurðu áhyggjur af því að það gleymdist að þú – eins og þú áréttar sjálfur auðvitað – þú varst sýknaður af þremur alvarlegustu ákæruliðunum, eins og reyndar meirihluti landsdóms tekur fram í dómsorðinu, dómsniðurstöðunni…

 

GHH              Jájá. Jájá. Já, það fer eftir því hvað menn eins og þú tala mikið um síðasta atriðið og minna um hitt.

 

ÞÞ                  Já, en það, ég ætlaði nú einmitt að spyrja þig út í það atriði. Telurðu að… Hefurðu áhyggjur af því að – af því að það er hægt að rífast endalaust um þessa niðurstöðu og þú ert eðlilega mjög ósáttur – hefurðu áhyggjur af því að umræðan um þessa sakfellingu – nú erum við með Guðna Th. Jóhannesson, hérna, hér áðan og hann var nú að benda á að þetta væri kannski lítilfjörlegra en menn lögðu upp með.

 

GHH              Já.

 

ÞÞ                   Ég held að það sé með sanngirni hægt að halda því fram. En hefurðu áhyggjur af því að þetta verði þér í óhag til lengri tíma vegna þeirrar staðreyndar að það er býsna harkalegt orðalag þarna í dómnum um vanrækslu?

 

GHH              Nei, ég held að… Sko, þegar að lögfræðingar munu núna leggjast yfir þennan dóm og greina hann til hlítar, að þá er ég nú ekki viss um að niðurstaða þessara níumenninga í dómnum verði nú talin hin endanlega rétta. Og það er auðvitað allt rétt sem Guðni Jóhannesson sagði hérna áðan: Það var lagt upp með það að finna aðilann, sökudólginn í þessu bankahruni. Var það forsætisráðherrann? Út úr þessu máli hefur komið að svo er ekki. Ég meina, það stendur ekkert eftir í þessu máli sem lýtur að bankahruninu. Þessir ríkisstjórnarfundir og þetta sem verið er að fjalla um í kringum það höfðu bara ekkert með hrunið að gera. Þeir voru ekki orsökin að hruninu. Og hvort það var rætt meira eða minna á ríkisstjórnarfundum – menn ræddu alls kyns hluti innan og utan funda. En ætlarðu að segja mér að það hafi verið orsökin fyrir bankahruninu? Það bara stenst ekki.

 

ÞÞ                   Hvað með… Núna sat ég allar þessar skýrslutökur og sumir hafa haldið því fram að skýrslutakan yfir Davíð Oddssyni hafi verið þér mest í óhag af öllum sem báru þarna vitni. Ertu sammála því?

 

GHH                Neinei, ég er ekkert sammála því. Ég held því fram reyndar að… Ég held reyndar að nær því öll vitnin sem þarna komu hafi vitnað mér í hag efnislega.

 

ÞÞ                   Hann sagði að fundargerð… reyndar af þeim ákærum sem þú varst sýknaður [af]. Hann hélt því samt fram að fundargerðirnar og starf samráðshóps um fjármálastöðugleika hafi ekki verið nægilega markvisst.

 

GHH               Jájá.

 

ÞÞ                   Hann sagði það.

 

GHH              Hann sagði það.

 

ÞÞ                   Og hann var býsna gagnrýninn. Hann sagði að þú hefðir getað gert eitthvað og með því vildi hann gefa í skyn, fannst mér, að þú hafir ekki gert nóg.

 

GHH              Hann sagði það við fréttamenn á eftir en ég man ekki til þess að hann hafi sagt það við dómarana. En þetta skiptir nú engu máli, sko, hvað einstakir… hvað einstakir menn sögðu.

 

ÞÞ                   Hvernig leið þér þá að vera… Kannski að ég spyrji, hvernig leið þér samt að – þú varst varaformaður þegar hann var formaður Sjálfstæðisflokksins – hvernig leið þér að vera í þeirri stöðu þarna að formaður Sjálfstæðisflokksins er að bera vitni í máli þar sem þú ert ákærður og …

 

GHH                Já, fyrrverandi formann.

 

ÞÞ                   … yfir höfði þér fangelsisvist og hann er að segja að fundirnir hafi…

 

GHH                Nei, veistu það, ég ætla ekki að tala við þig um hvað einstakir menn sögðu þarna í dómi. Ég tel að þeir hafi allir meira og minna staðfest minn framburð, þ.e.a.s. þeir hafi allir meira og minna haldið því fram, að það sé ekki hægt að kenna mér um það sem gerðist þarna, mér persónulega. Og það á við um hann og það á við um marga aðra. Eini maðurinn sem hélt einhverju öðru fram var Steingrímur J. Sigfússon, sem að var einn af ákærendunum í málinu og gat þess vegna ekki verið vitni – og það var auðvitað fáranlegt af saksóknara Alþingis að kalla hann til sem eitthvert vitni. Og meira að segja hann sagði, eins og ég sagði niðri í Þjóðmenningarhúsi í dag: Ja, ég sá nú aldrei fyrir að bankarnir þrír myndu allir fara á hausinn. Sko, þetta mál er pólitískt. Þetta mál á rætur að rekja til, hérna, þess að Vinstri grænir og ákveðinn hluti af Samfylkingunni og svo auðvitað ofstækisfólkið í Hreyfingunni vill finna einhvern sökudólg eða sökudólga upphaflega. Þetta er hápólitískt mál og á bak við þetta stendur fyrst og fremst Steingrímur J. Sigfússon. Hann er sá sem að mesta ábyrgð ber í þessu máli og hans, hérna, lautinant í þessu, hans liðsforingi í málinu er síðan Atli Gíslason. Ætla þessir menn núna að sitja og horfa á það sem að Guðni Jóhannesson lýsti svo ágætlega, að þetta mál er að engu orðið, þetta er sneypuför hjá þessum mönnum? Ætla þeir svo bara að sitja og láta eins og ekkert hafi í skorist?

 

ÞÞ                   Ja, þú ert sakfelldur fyrir einn ákærulið af fjórum [hlær].

 

GHH              Ekki fyrir það að hafa orsakað hrunið eða hafa neitt, hérna, haft… Sko, ég er sakfelldur fyrir lið sem að, hérna, kemur ekkert ástæðum hrunsins við. Og þar að auki er sakfellingin svo óvægileg að það er ekki einu sinni refsað.

 

ÞÞ                   En geturðu ekki horft í gegnum… horft á þetta hlutlægt, bara litið á… Ja, það var aðdragandi að þessu máli, sem er pólitískur. Það mat þitt er rétt. En síðan eru það dómarar í hæstarétti sem að dæma í málinu. Geturðu ekki horft frekar bara hlutlægt á niðurstöðu, hérna, meirihluta landsdóms og sagt, hérna: Ég hefði getað staðið mig betur, það er alveg rétt sem kemur þarna fram en…

 

GHH               Heyrðu, sko, það gátu allir…

 

ÞÞ                   … er ekki vott… Það sem ég er að kalla kannski eftir er að… Gerirðu ekki greinarmun á ákvörðun um málshöfðun, sem að var pólitísk, en síðan ertu með sakamál og allar grunnreglur réttarfars sem eru viðhafðar í þessu máli. Er ekki munur þarna á milli?

 

GHH               Þetta byggist allt á mati. Þetta eru svo matskenndir þættir að dómararnir beita sínu persónulega mati í þessu máli. Og þeir eru ekki sammála. Það er 9-6 og af þessum níu eru tveir nýir sem koma seint inn í málið. En, sko, auðvitað er þetta þannig, að málið byrjar sem hápólitískt og er það auðvitað allan tímann. En það er rétt sem Guðni sagði hérna, að ef mönnum… ef það vakti fyrir fólki að ná fram sakfellingu fyrir að hafa kallað fram hrunið, þá hefur það algjörlega mistekist. Og ætla þá þessir menn, sem hafa kallað fram allan þennan kostnað, allt þetta mál – burtséð frá því sem þetta hefur þýtt fyrir mig og mína fjölskyldu – ætla þeir þá bara að sitja þarna eins og fínir menn og láta eins og ekkert sé? Þeir eru búnir að fá löðrung frá landsdómi fyrir þetta mál.

 

ÞÞ                   Þeir eru búnir að svara því að þeir ætla ekki að reyna(?) að gera það. En þú varðst fyrir nokkrum heilsubresti í hruninu og …

 

GHH              Já, það kemur nú ekki þessu máli neitt við.

 

ÞÞ                   Nei. En mig langar svona bara að spyrja þig: Þú hefur gengið í gegnum þessi erfiðu tímamót í lífi þínu að glíma við þá baráttu, í þínu einkalífi, og svo þetta í hinu opinbera lífi. Ertu, svona, léttur þrátt fyrir allt?

 

GHH              [hlær] Sýnist þér það ekki? Ég, hérna… Sko, ég lenti í veikindum – það gerðist í ársbyrjun 2009 – en ég fór í gegnum þau. Ég fékk mjög góða…

 

ÞÞ                   Þú hefur náð fullri heilsu?

 

GHH              Jájá. Ég fékk mjög góða hjálp við það. Og af því að þetta greindist svo snemma, þ.e.a.s. krabbamein í vélinda, að þá… þá held ég að það mál sé leyst. Auðvitað veit maður það aldrei fyrir víst en ég geri ráð fyrir því.

 

ÞÞ                   Þú hefur náð fullri heilsu.

 

GHH              Það er eitt mál. En svo höfum við náttúrulega haldið áfram með okkar líf, ég og mín fjölskylda allan þennan tíma. Það eru tvö ár núna úr lífi mínu sem hafa farið í þetta ömurlega mál. Og þar sem ég hef setið þangað til í dag og eiginlega ekki sagt orð. Ég var nú búinn að lofa ykkur öllum að ég myndi koma að tala við ykkur þegar dómurinn félli. En lífið heldur áfram, sko. Hérna, við erum bæði búin að halda upp á okkar sextugsafmæli, við hjónin. Tvö af börnunum okkar voru að gifta sig í fyrra. Við erum búin að vera að skíra tvö barnabörn. Við eigum silfurbrúðkaup bráðum og svona gengur þetta fyrir sig, sko. Þannig að við höfum ekki látið þetta á okkur fá. Og ef einhver hefur haldið það, að það væri hægt að kýla mig kaldan eða koma mér í þunglyndi með svona löguðu, þá er það bara algjör misskilningur. Ég hef aldrei verið sprækari.

 

ÞÞ                   Ég ætlaði að spyrja þig einmitt að þessu: Hvað tekur nú við? Þetta er eðlilega mikill mann… mikið högg fyrir mannorðið að fá þessa niðurstöðu, þrátt fyrir að þú sért sýknaður af öllum stærstu ákæruliðunum [ógreinilegt]. Hvað tekur við núna?

 

GHH               Sko. Í mínum huga hefur þetta mál fyrst og fremst snúist um heiður minn persónulega. Og ég tel að hann standi óhaggaður eftir þessa niðurstöðu, miðað við það sem að hefði getað… miðað við það sem hefði getað orðið. Ég tel að það hafi ekki tekist að ræna mig mannorðinu með þessu, þó að það hafi verið þarna ýmsir aðilar sem að höfðu það að markmiði að koma mér út úr opinberu lífi…

 

ÞÞ                   En hvað tekur við?

 

GHH              … í eitt skipti fyrir öll. Og náttúrulega að koma Sjálfstæðisflokknum ofan í… ofan í kjallara. Ég veit ekkert hvað tekur við. Ég hef ekki tekið neinar ákvarðanir um það.

 

ÞÞ                   Þú hefur starfað stærstan hluta þíns ferils í stjórnmálum. Sérðu fyrir þér að það sé möguleiki á einhvers konar endurkomu, í hvaða mynd sem það kann að [ógreinilegt]?

 

GHH              Nei, veistu það, ég hef haft bara um allt aðra hluti að hugsa upp á síðkastið og ekkert verið að pæla í því. Það er nú sem betur margt gott fólk á ferðinni innan Sjálfstæðisflokksins, hann er í góðum höndum, ég hef engar áhyggjur af honum. Og ef ég get eitthvað hjálpað þeim, þá auðvitað hef ég og er áfram reiðubúinn til þess. En ég hef engin áform um að… um að snúa aftur í pólitík. Ég hef ekki nein slík áform, a.m.k. ekki í augnablikinu.

 

ÞÞ                   Þú nefndir á blaðamannafundinum, að þið Andri ætlið að fara yfir hvort það væru skilyrði til að kæra þetta til mannréttindadómstóls Evrópu. Það er reyndar gríðarlega þungur málaþungi þar og aðeins lítið brotabrot af málunum sem eru kærð komast að þar. Er komin einhver niðurstaða í það?

 

GHH              Neinei. Þetta var nú bara að gerast núna í eftirmiðdag. En við munum að sjálfsögðu fara yfir þetta og það er engin spurning um það að ef að það er einhver skynsamlegur möguleiki að gera það, þá hefði ég viljað láta á þetta reyna vegna þess að mér er misboðið með þessum dómi, algjörlega misboðið. Og mér er líka misboðið með öllu klúðrinu sem var í þessu máli til að byrja með þó maður hafi nú látið gott heita. Mér var neitað um verjanda í heilan mánuð. Það dróst óhemju lengi eða alltof lengi að skipa saksóknara. Og svo voru þarna undirmál milli landsdóms, dómsmálaráðuneytisins og saksóknarans þegar var verið að reyna að breyta lögunum sem að gilda um þennan dómstól. Ég meina, þetta er ekkert gleymt. Og allt þetta verður lagt fyrir mannréttindadómstólinn ef að við förum með málið þangað.

 

ÞÞ                   Mig langar að spyrja þig, svona að lokum, vegna þess að það kom upp þessi tortryggni sem var í samstarfinu á milli þessara flokka vegna, ja, m.a. formanns bankastjórnar Seðlabankans. Ingibjörg Sólrún er búin að segja þetta. Hún er búin að segja þetta opinberlega, að það var vantraust. Ef þú hugsar til baka núna, verandi með þessa sýknu í þessum þremur og sakfellingu í fjórða ákæruliðnum, hvað hefðirðu viljað gera öðru vísi?

 

GHH              Það kemur nú ekkert þessu… fyrri hlutanum af þinni spurningu við. En þegar maður veit það sem að… það sem að maður núna veit um það sem að gerðist þarna, þá er náttúrulega eitt og annað sem að maður auðvitað getur sagt við sjálfan sig að það hefði verið betra ef maður hefði gert þetta. En allir… Þetta eða hitt. En allir sem að voru að vinna að máli hér á vegum íslenska ríkisins gerðu sitt besta á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeir þá höfðu. Það eru ótal aðilar úti í heimi, bandaríski Seðlabankastjórinn, breski Seðlabankastjórinn, fullt af fullt af aðilum sem að hafa viðurkennt eftir á að þeir sáu ekki þessa kreppu koma. Og að gera þá kröfu að við ættum að hafa séð hana eitthvað frekar eða fyrr en aðrir er náttúrulega alveg út í hött. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem við höfum nú átt mjög gott samstarf við, sem að ég, hérna, beitti mér fyrir á sínum tíma, er búinn að gefa út skýrslu, sem er heiðarleg skýrsla og tilraun til þess að útskýra: Af hverja sáu þeir ekki kreppuna 2008 koma? Hvað var það sem að fór úrskeiðis? Við erum nefnd sem dæmi um það, að þeir hafi gefið okkur ranga ráðgjöf og rangar upplýsingar.

 

ÞÞ                   Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Þakka þér kærlega fyrir að vera með okkur í Íslandi í dag og gangi þér vel í þínum störfum.

 

GHH              Þakka þér fyrir það.

 

 

Lengd viðtals: 00:19:25


 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is