Fimmtudagur 26.04.2012 - 14:04 - FB ummæli ()

Af hverju Dögun?

Í tilefni þess að í gærkvöldi samþykkti félagsfundur Dögunar umsóknir þriggja stjórnmálasamtaka; Hreyfingarinnar, Borgarahreyfingarinnar og Frjálslynda flokksins, ætla ég að birta hér grein sem ég skrifaði fyrir blaðið Reykjanes og sem komu út fyrr í mánuðinum. Með inngöngu þessara þriggja afla eru félagar í Dögun orðnir um 2187 talsins!

***************************

Fyrir stuttu voru stofnuð ný stjórnmálasamtök sem ætla sér stóra hluti. Að þeim standa fjölmargir einstaklingar sem og Hreyfingin, Borgarahreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn. Við erum sammála um ákveðin grunngildi sem við viljum byggja á og við teljum okkur eiga erindi. Við viljum nefnilega breytingar. Á stofnfundi Dögunar – samtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði, var kjarnastefna, byggð á grunngildunum samþykkt en frekari stefnumótun mun fara fram í málefnahópum þar sem allir eru velkomnir.

Þau mál sem við munum leggja höfuðáherslu á og mynda kjarnastefnuna eru:

Öflugar aðgerðir í þágu heimila

Leysa verður skuldavanda heimilanna með róttækum hætti og bæta aðstöðumun almennings gagnvart fjármálavaldinu. Leita skal lausna á forsendum lántakandans frekar en lánveitandans. Við viljum tafarlaust afnám verðtryggingar á neytendalánum og almenna leiðréttingu húsnæðislána. Þá viljum við að lágmarks framfærsluviðmið verði lögfest og að vextir í landinu verði hóflegir.

Lýðræðisumbætur – Ný stjórnarskrá

Ný stjórnarskrá fólksins komi sem allra fyrst til þjóðaratkvæðis. Við teljum frumvarp Stjórnlagaráðs mikilvægt skref í átt til virkara lýðræðis og að þjóðin eigi að fá að kjósa um það. Við leggjum sérstaka áherslu á að tryggja tafarlaust með lögum eftirfarandi rétt almennings: Persónukjör samhliða flokkakjöri. Kjósendur hafi rétt til að kjósa framboðslista eða einstaklinga, jafnvel þvert á framboðslista. Þjóðaratkvæðagreiðslur óski 10% kjósenda þess. Íbúar kjördæma eða sveitarfélaga geti átt frumkvæði að atkvæðagreiðslu um sameiginleg hagsmunamál svæðisins óski 10% kjósenda þess. Sjálfstæði sveitarfélaga verði aukið og nálægðarreglan í heiðri höfð. Ákvarðanir verði teknar á því stjórnsýslustigi sem næst er málinu sjálfu.

Skipan auðlindamála og uppstokkun á stjórn fiskveiða

Orkufyrirtæki verði í eigu ríkis og / eða  sveitarfélaga og nýting allra náttúruauðlinda til sjávar og sveita skal vera sjálfbær. Auk þeirra breytinga sem ný stjórnarskrá að forskrift Stjórnlagaráðs hefur í för með sér fyrir skipan auðlindamála er nauðsynlegt að stokka upp stjórn fiskveiða frá grunni. Tryggja þarf aðskilnað veiða og fiskvinnslu og að jafnræði ríki meðal landsmanna við nýtingu á sameiginlegum fiskveiðiauðlindum. Hámarka skal arð þjóðarinnar af auðlindum hennar. Virða skal álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Allur ferskur fiskur skal seldur á fiskmörkuðum.

Siðvæðing stjórnsýslu og fjármálakerfis

Bæta ber siðferði og auka gegnsæi í stjórnmálum, stjórnsýslu og fjármálakerfinu. Nauðsynlegt er að þessir aðilar vinni eftir skýrum siðareglum. Lög verði yfirfarin með því markmiði að fyrirbyggja spillingu og herða viðurlög við henni. Tryggður verði aðgangur almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Þann aðgang má aðeins takmarka með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem til að tryggja persónuvernd. Komið verði í veg fyrir óeðlileg völd sérhagsmunaaðila og skilið á milli stjórnmála og viðskiptalífs. Bankaleynd skal afnumin að undanskildu því sem lög um persónuvernd kveða á um. Tryggt verði að eftirlitsstofnanir ásamt efnahags og viðskiptanefnd Alþingis hafi ávalt fullar rannsóknarheimildir gagnvart fjármálafyrirtækjum.

Lagalegt réttlæti og afdráttarlaust uppgjör við hrunið

Gera þarf ráðstafanir til að endurheimta illa fengið fé aðalgerenda í svonefndri útrás og höfða skaðabótamál á hendur þeim. Samfélag þar sem glæpir borga sig er ekki hægt að sætta sig við. Ganga þarf sérstaklega eftir því að sinnt verði brýnum rannsóknarefnum sem ætla má að hinir gamalgrónu stjórnmálaflokkar séu tregir til að láta rannsaka. Tryggja þarf góð starfsskilyrði sérstaks saksóknara og annarra sem koma að rannsókn efnahagsbrota í tengslum við Hrunið. Almenningur hafi aðgang að öllum upplýsingum sem rannsakendur Hrunsins afla, enda séu ekki sérstök rök fyrir því að halda þeim leyndum. Öllum skal gert kleift að leita réttar sins og verjast fyrir dómstólum, óháð efnahag. 

Evrópusambandið

Við leggjum áherslu á opið og lýðræðislegt ferli, óháða upplýsingagjöf og fræðslu og treystum þjóðinni til að ráða niðurstöðunni. Ef aðildarviðræðum verður ekki lokið fyrir samþykkt nýrrar stjórnarskrár og þjóðin ákveður að hætta aðildarviðræðum í samræmi við 66. grein frumvarps Stjórnlagaráðs, munum við styðja þá niðurstöðu. Að öðrum kosti verði aðildarviðræður við Evrópusambandið kláraðar og niðurstaðan borin undir þjóðaratkvæði.

Ég vil hvetja alla sem vilja láta til sín taka til að taka þátt í mótun þessa nýja afls. Framtíðin kemur okkur við og það mun enginn krefjast breytinga fyrir okkur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is