Miðvikudagur 18.04.2012 - 23:49 - FB ummæli ()

ESB og líkið í lestinni

Eftir að Framkvæmdastjórn ESB óskaði eftir meðalgöngu í dómsmáli ESA gegn Íslandi vegna Icesave reikninga Landsbankans hafa ýmis þung orð fallið. Sumir hafa lagt til að við slítum viðræðum um aðild að sambandinu strax eða setjum þær alla vega á ís í bili en aðrir benda á að málið varði vissulega ESB, enda er innstæðutryggingarkerfi nánast allrar álfunnar undir. Því sé eðlilegt að ESB taki þátt. En sennilega er það frekar stuðandi fyrir okkur flest. Þá hafa menn gerst ansi harðorðir í garð þeirra sem eru á öndverðri skoðun í málinu og umræðan stundum vart við barna hæfi. Segja má að skotgrafirnar hafi náð nýrri dýpt.

Ég hef yfileitt verið fremur jákvæð í garð aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið. Það þýðir ekki að ég vilji endilega að Ísland gangi í ESB en ég taldi æskilegt að sækja um fyrir kosningar 2009 og ég hef viljað vanda viðræðurnar, hafa ferlið opið og gegnsætt og klára þær á þeim tíma sem þær þurfa að taka. Ég hef enga trú á því að ef við viljum eiga möguleika á góðum samningi sé rétt að flýta sér. Það er beinlínis ávísun á lélegan samning. Og ég held að það sé flestum ljóst að viðræðurnar klárast vart á þessu kjörtímabili. Þegar og ef samningar klárast er það svo ekki mitt að ákveða hvort þeir séu ásættanlegir, „hvort hag Íslands sé betur borgið innan eða utan ESB“ eins og menn segja (menn spyrja nefnilega aldrei hvað við getum gert fyrir ESB, heldur bara hvað ESB geti gert fyrir okkur). Það er þjóðarinnar að ákveða, í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort við eigum að ganga inn eður ei og ég treysti þjóðinni.

En mér hefur ekki alltaf fundist góð hugmynd að sækja um aðild að ESB. Mér fannst það nefnilega ekki þann 16. júlí 2009. Þá var ég nýbakaður þingmaður, blaut á bak við bæði eyrun. Á þessu sumarþingi að loknum kosningum 2009 lágu einkum tvö mál fyrir þinginu; ESB og Icesave. Þau átti helst að klára fyrir 17. júní. Það stóðst nú ekki. Eftir því sem tíminn leið og okkur gafst færi á að skoða málin betur urðu tengslin á milli þeirra greinilegri með degi hverjum. Og Icesave, sem lítið hafði verið til umræðu fyrir kosningar (Borgarahreyfingin var til að mynda eina stjórnmálaaflið með nokkuð um það í stefnuskrá sinni) varð geislavirkt. Loksins sáum við skrímslið. Eða kannski ekki, ég efast um að eitthvert okkar hafi búist við því að nú, árið 2012, værum við enn með það í fanginu. Og enn að rífast þegar við þyrftum að standa saman.

Mér fannst hættulegt að þessi tvö risastóru mál rynnu í gegnum þingið á nokkrum dögum snemmsumars 2009 eins og til stóð. Því reyndum við að stöðva Icesave með fremur klaufalegum tilburðum – enda kunnum við ekkert fyrir okkur í stjórnmálum – gegn atkvæðum okkar um aðildarviðræðurnar. Þetta kölluðu margir hrossakaup en var þó frekar eitthvað skilt við örvæntingu. Það eina sem við vorum 100% á var að Svavars-samninginn varð að stöðva hvað sem það kostaði. Við vissum að án atkvæða okkar væri tæpur og jafnvel ekki meirihluti fyrir aðildarviðræðum á þingi. Það var og er nefnilega ekki þannig að meirihluti þingmanna VG sé áfjáður í að ganga í ESB. Atkvæðagreiðslunni var frestað um einn dag á meðan snúið var upp á handleggi. Ég greiddi atkvæði með tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja ætti um aðild (ætli það væri ekki meiri sátt um ferlið ef sú tillaga hefði verið samþykkt) en gegn upprunalegu tillögunni. Þetta var atkvæðaskýring mín þennan dag:

Frú forseti. Á milli Icesave-málsins og ESB liggja ótal þræðir. Ríkisábyrgð á Icesave-skuldunum er aðgöngumiðinn inn í ESB, rándýr aðgöngumiði sem ég er ekki tilbúin að láta þjóðina greiða. Mér finnst vel koma til greina að sækja um aðild að Evrópusambandinu en við eigum ekki að gera það með Icesave-líkið í farteskinu. Í gær reyndum við að losa okkur við það lík svo Evrópulestin gætu haldið áfram. Við vildum fresta Icesave-samningnum svo þinginu gæti gefist tími til að fá botn í málið því að það er flókið og framlögð gögn stemma ekki og daglega koma fram ný gögn sem varpa ljósi á málið. Það tókst ekki. Því verðum við að reyna að halda áfram með líkið og kryfja það til mergjar en stöðva ESB-lestina. Þar liggur sannfæring mín. Þjóðin fær þá að kjósa um það hvort rétt er að fara í aðildarviðræður og ég treysti henni fullkomlega til þess. (Forseti hringir.) Því segi ég já við tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu til að reyna að rjúfa tengslin milli Icesave-málsins og ESB.

Í ljósi þess sem síðar hefur komið í ljós finnst mér ég geta verið nokkuð sátt við gjörðir mínar þennan dag. Það sem ég vissi hins vegar ekki 16. júlí 2009 var að okkur tækist að stoppa Icesave, aftur og aftur, og teygja á þessum þráðum á milli þessara tveggja mála þótt þeir tóri nú enn eins og dæmin sanna. Ég vissi heldur ekki að ýmis evruríki myndu ramba á barmi gjaldþrots nokkrum misserum síðar og að fjármálakerfi álfunnar og jafnvel heimsins alls stæði meira og minna allt á brauðfótum. Og ég vissi ekki nærri jafn mikið um hve hugmyndin á bak við innstæðutryggingarkerfi ESB og EES ríkjanna hvílir á hæpnum grunni. Nú erum við allmörg orðin nokkrir sérfræðingar í þeim.
En hvað nú? Er rétt að halda áfram aðildarviðræðum eins og ekkert hafi í skorist þótt ESB hafi í raun snúið við og sótt líkið?
Meirihluti þeirra sem greiddu atkvæði um síðasta Icesave samninginn höfnuðu honum. Ljóst var að hugsanlega yrði Íslandi stefnt fyrir dóm, einmitt það hefur gerst og það þarf ekki að koma á óvart. Það er ekkert óeðlilegt við það að ágreiningur sé leystur fyrir dómi. En dómurinn á bara að snúast um ágreiningsmálið sjálft, ekki óskylda hluti svo aðildarviðræðurnar, deilur um makrílveiðar eða önnur mál þótt þau kunni að varða sömu aðila. Með því að slíta aðildarviðræðum núna, vegna meðalgöngu ESB í mál ESA, fyndist mér málið fyrst verða pólitískt og það á ekki að þurfa að verða það. Auk þess fengjum við aldrei botn í það hvort við gætum náð ásættanlegum samningi við sambandið, hvort við ættum að vera inni eða fyrir utan og sennilega yrði það heitt kosningamál árið 2017 hvort taka ætti upp viðræður að nýju. Nennum við því?
Ég legg því til að við vöndum okkur við hvort tveggja, reynum að horfa á hvort mál fyrir sig og halda þeim eins aðskyldum og hægt er og umfram allt að við stöndum öll saman í þeim báðum. Í get vel sett mig í spor þeirra sem vilja slíta viðræðum við ESB og grípa til þess öll mál sem gefast. Ég hef keppnisskap. En að fórna þeirri samstöðu sem loksins hefur náðst um málareksturinn um Icesave vegna þess finnst mér einfaldlega ekki skynsamlegt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is