Miðvikudagur 28.03.2012 - 01:51 - FB ummæli ()

Gamla Ísland gerir dyraat

Nú er klukkan að verða hálf tvö um nótt og ég sit hér í þinghúsinu. Fyrstu umræðu um þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu er nýlega lokið og í lok hennar átti að vísa málinu til nefndar eins og venja er „ef enginn hreyfir andmælum við“. Þá er hægt að koma með athugasemd, t.d. ef manni finnst málið frekar eiga heima í annarri nefnd. Í kvöld (ja eða nótt) gerðust hins vegar þau undur og stórmerki að Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gerði athugasemdir við að málinu væri yfir höfuð vísað til nefndar og kallaði eftir atkvæðagreiðslu um það. Þá fóru menn að hringja í liðið sitt og kalla það í hús en 32 þingmenn þurfa til svo atkvæðagreiðsla geti farið fram. Þingmenn Framsóknarflokksins yfirgáfu húsið þrátt fyrir að samkvæmt þingsköpum, sem eru landslög, beri þingmönnum að vera viðstaddir atkvæðagreiðslur:

71. gr.]1) Eigi má gera neina ályktun nema meira en helmingur þingmanna sé á fundi og taki þátt í atkvæðagreiðslunni, sbr. 53. gr. stjórnarskrárinnar. Þingmaður, sem er á fundi en greiðir ekki atkvæði við nafnakall [eða við atkvæðagreiðslu með rafeindabúnaði],2) telst taka þátt í atkvæðagreiðslunni.
2)
 Skylt er þingmanni að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi.

Sjálfstæðisflokkurinn veit að óvenjumargir þingmenn stjórnarflokkana eru í burtu vegna þingstarfa erlendis og gerðu heiðursmannasamkomulag við Samfylkinguna um að para menn út í atkvæðagreiðslu um lengd þingfundar fyrr í dag. Menn vissu því að ekki tækist að manna atkvæðagreiðsluna, sérstaklega á þessum tíma dags þegar venjulegt fólk er sofandi.

Við höfum sem sagt hringt út og suður, rifið fólk upp úr rúmunum til að reyna að komast nær því að þjóðin fái að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá en fulltrúar Gamla Íslands, fólkið sem vill alls ekki vita hvort þjóðin vilji ákvæði um auðlindir í stjórnarskrá eða hvort atkvæðisréttur fólks verði jafn á landsvísu, skrópar og brýtur í leiðinni landslög svo atkvæðagreiðslan geti ekki farið fram.

Á Gamla Íslandi voru hlutirnir nefnilega í lagi er þeir voru ekki sérstaklega bannaðir. Og þeim trikkum ætla menn að beita til þess að stöðva framfarir og breytingar. Svei!

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is