Fimmtudagur 22.03.2012 - 17:17 - FB ummæli ()

Að spyrja þjóðina

Ég verð að viðurkenna að mér finnst allt að því fyndið hvað sumum þykist finnast það flókið að spyrja þjóðina út í fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá. Nú hefur þingsályktun þess efnis litið dagsins ljós og spurningarnar eru í mínum huga fullskiljanlegar sæmilega læsu fólki.

Þá finnst mér það fullkomnlega fáránleg túlkun sem ég hef meðal annars heyrt frá hámenntuðum stjórnmálafræðingum í umræðunni að það sé veikleikamerki hjá þinginu að ákveða að spyrja þjóðina álits. Sá meirihluti sem leggur það til sýnir að mínu mati  djörfung og styrk með því að leggja málið í dóm þjóðarinnar á meðan það er enn á vinnslustigi. Ég hef jafnvel heyrt því fleygt að með því sé þingið að lítillækka sig. Þetta er kannski angi af þeirri hugmyndafræði að stjórnmálamenn eigi að vera einhvers konar Renaissance menn sem allt vita og skilja betur en aðrir. Það játast hér að ég er ekki þannig. Ég þarf oft að spyrja aðra ráða eða leita mér upplýsinga. Ég veit ekki alltaf allt langbest af öllum. Og þau þrjú ár sem ég hef starfað í stjórnmálum hefur fjölmargt ratað á mitt borð sem ég hef ekki haft hugmynd um áður og þurft að kynna mér nánast frá grunni. Ef það sýnir einhvern veikleika af minni hálfu verður bara að hafa það. Ég er bara ekki fullkomin frekar en annað fólk og ætla ekki að þykjast vera það. Mér finnst engin lítillækkun fólgin í því að spyrja hvað öðrum finnst.

Mér finnst hún líka skondin, hugmyndin um að betra sé að gera bara stóra skoðanakönnun en að leyfa þjóðinni að kjósa um málið í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Við skulum nú ekki gera lítið úr skoðanakönnunum. Og slík könnun hefur í raun farið fram með þjóðfundinum þar sem tæplega þúsund Íslendingar komu saman og lögðu fram sína skoðun á því sem þeim finnst að eigi að vera í stjórnarskrá. Á niðurstöðum þess fundar byggði stjórnlaganefndin meðal annars sína vinnu sem og stjórnlagaráðið sjálft. Nú viljum við hins vegar spyrja um afraksturinn og við viljum samtal við þjóðina.

Lýðræði er ekki bara það að kjósa. Lýðræði felur í sér samræðu um þá valkosti sem í boði eru. Og sú samræða með tilheyrandi upplýsingamiðlun fjölmiðla, skoðanaskiptum, umræðuþáttum, kynningarefni, greinarskrifum og skilaboðum frá þeim sem láta sig málið varða mun ekki fara fram þótt framkvæmd verði hefðbundin skoðanakönnun. Skoðanakönnun framkvæmd af Gallup getur verið til margra hluta nytsamleg en hún er ekki lýðræðislegasta leiðin til að finna út hvað þjóðinni finnst um tillögur stjórnlagaráðs. Og þátttaka í slíkri könnun felur ekki í sér að fólk taki sig til og kynni sér efnið.

Því dettur mér stundum í hug hvort þeir sem ekki vilja spyrja þjóðina vilji kannski fyrst og fremst þagga niður í umræðunni.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is