Þriðjudagur 20.03.2012 - 23:28 - FB ummæli ()

Frelsið er yndislegt!

Það hefur vart farið framhjá nokkrum að uppi er mikil umræða og að því er mér sýnist áróður fyrir forvirkum rannsóknarheimildum lögreglunnar. Þá fer ég ósjálfrátt að hugsa um bókina Endalok Ameríku (e. The End of America: Letter of Warning to a Young Patriot) eftir Naomi Wolf sem fjallar um það hvernig fólk afsalar sér frelsinu fyrir ímyndaða vörn gegn ógn sem, að minnsta kosti að hluta til, er tilbúningur. Og ég hugsa líka um sumarið okkar í New York og New Jearsey 2005. Þá, tæpum fjórum árum eftir árásirnar á tvíburaturnana (og Pentagon, höldum því til haga) var borgin full af vörðum, lögreglu og vopnuðum hermönnum. Kannski er hún það enn. Vinur minn sem bjó þá í Kanada en hafði búið í Stóra Eplinu löngu áður sótti okkur heim og var mjög brugðið að sjá þessi varnarviðbrögð setja svona sterkan svip á allt mannlífið. Og ósjálfrátt leitaði hugurinn að leiðum framhjá öllu örygginu. Hvernig hægt væri að snúa á það. Auðveldlega. En það stóð auðvitað ekki til og sennilega hefði engu okkar dottið það í hug ef ekki hefði verið allt fullt af vörðum, löggum og byssum.

Við höfum fengið ótal fréttir af skipulögðum glæpahópum síðustu daga og vikur og ég er ein af þeim sem finnst nóg um. Ég sé ekki betur en verið sé að sverta mannorð allra sem ganga í leðurfatnaði og keyra mótorhjól. Hvorugt varðar nefnilega við lög. En glæpir eru bannaðir og hafa verið eins lengi og elstu menn muna.

Í DV á föstudaginn mátti sá lýsingar á hrottafenginni árás fjögurra einstaklinga sem sagðir eru tengjast Hells Angels og sitja í gæsluvarðhaldi. Hvernig þessar nákvæmu upplýsingar um hrottaskapinn komust í fjölmiðlum er rannsóknarefni út af fyrir sig því málið virðist enn í rannsókn. Mér finnst þetta eins hræðilegt og flestum venjulegum manneskjum. Það þýðir samt ekki að ég ætli héðan í frá að hræðast fólk sem keyrir mótorhjól. Flest er það nefnilega bara venjulegar manneskjur líka.

Lítum á lykilatriði sem hafa komið fram á síðustu vikum:

  • 11 gengi eru undir sérstöku eftirliti lögreglu. Samtals eru 89 meðlimir í þessum 11 gengjum. Þetta eru því fremur fámenn gengi sem innihalda að meðaltali 8 manns.
  • Á síðustu þremur árum fór lögreglan fram á það í 539 skipti að fá heimildir til að hlera síma. Í 533 tilvikum – þ.e. í 99% tilvika – fékk lögreglan heimild til þess.

Það liggur því fyrir að lögreglan fær nánast allar þær hlerunarheimildir sem hún biður um. Og hún veit hvaða 89 karlar og konur eru í glæpagengjum. Því get ég ekki séð að lögreglan þurfi einhverjar forvirkar rannsóknarheimildir til að fylgjast með þessu fólki. Ég get ekki séð að nokkur íslenskur dómari myndi neita lögreglunni um heimildir til að hlera síma þessa fólks, klúbbhús eða heimili. Forvirkar rannsóknarheimildir þýða að hafi yfirvöld slíkar heimildir mega þau fylgjast með og safna upplýsingum um einstaklinga jafnvel þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um brot.

Frelsið er yndislegt, frelsið er dýrmætt. Og frelsið er ekki sjálfgefið. Sagan er full af fólki sem hefur þurft að berjast fyrir því og stundum tapað. Látum ekki hræða okkur til þess að afsala okkur frelsinu til þess að tala í síma sem ekki eru hleraðir, ferðast um án þess að fylgst sé með okkur eða að yfirvöld safni um okkur upplýsingum án þess að við höfum verið grunuð um nokkuð misjafnt.

Ef lögregluna vantar frekari verkefni ætti hún kannski að reyna að bregðast við fljótt og vel þegar borgararnir fá hótunarbréf um grófar líkamsmeiðingar eða þegar borgararnir hringja í neyðarlínuna og láta vita að þeir hafi heyrt spengingu við stjórnarráðið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is