Mánudagur 19.03.2012 - 11:32 - FB ummæli ()

Af tapi, tjóni eða ráni

Mikill er máttur orðsins. Sá sem segir frá stjórnar nefnilega ansi miklu um hvað okkur finnst, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Því er ábyrgð fjölmiðlamanna á framsetningu frétta mikil.

Bankarnir græða

Fyrir síðustu helgi sendu tveir stóru bankanna frá sér ársreikninga fyrir síðasta ár. Sem fyrr er hagnaðurinn gífurlegur en nú fylgdu sögunum fréttir af “tapi” vegna dóms hæstaréttar um gengistryggð lán frá 15. febrúar. Hagnaður Landsbankans eftir skatta var 16,9 milljarðar króna en gert er ráð fyrir að dómur hæstaréttar þýði 38 milljarða niðurfærslu í lánasafni bankans. Í kynningu frá bankanum segir: “Þessi ráðstöfun dregur verulega úr hagnaði ársins og rýrir arðsemi eigin fjár.” Sem sagt, ef ekki ekki hefði komið til þessi óheppilegi dómur hæstaréttar, ef ósáttir lántekendur hefðu ekki verið að vesenast þetta, hefði hagnaðurinn slagað í 55 milljarða á síðasta ári. Bömmer! Svipuð viðhorf eru uppi hjá Arion-banka sem hagnaðist um 11,1 milljarð á síðasta ári. Á þeim bænum hefur dómur hæstaréttar minnkað hagnaðinn um 13,8 milljarða sem hlýtur að hafa verið svekkjandi fyrir æðstu menn og vesalings kröfuhafana. Og hvernig sögðu fjölmiðlar frá þessu? Á mbl.is birtist frétt á föstudaginn undir fyrirsögninni “Tapa 51 milljarði á dómnum”. Og ríkisútvarp allra landsmanna talar einnig um tap. Á föstudaginn birtist fréttin “Tapa 38 milljörðum á gengisdómi” á vefnum þeirra.

Gengistryggð lán sem mannréttindi

En skoðum nú aðeins hvað í raun er um að ræða. Á árunum 2004-2007 buðu þau fjármálafyrirtæki sem þá störfuðu neytendum nýjung á lánamarkaði, svokölluð gengistryggð lán. Loksins sátu íslendingar við sama borð og aðrir íbúar hins vestræna heims. Þeim bauðst að fjármagna íbúðakaup eða annað án þess að greiða lánsfjárhæðina margfalt til baka. Þetta þótti mikil mannréttindabót enda voru menn orðnir þreyttir á að borga af verðtryggðu lánunum sínum en horfa á höfuðstólinn hækka í sífellu. Það er nefnilega ekki góð skemmtun. Á móti kom reyndar að gengið gat sveiflast til og frá þannig að fólk þurfti að hafa borð fyrir báru og geta mætt svona 30% gengisfalli. Gengið féll hins vegar mun meira en það og lántakendur sátu í súpunni. Sumarið 2010 kom svo í ljós að samkvæmt íslenskum lögum voru þessi lán ólögleg. Kerfið brást við þeim tíðindum fyrst með tilmælum en svo lagasetningu sem skelltu svokölluðum seðlabankavöxtum á lánið frá lántökudegi í stað gengistryggingar. Það var kallað leiðrétting og fólkið sem hafði farið svo illa að ráði sínu að taka ólögleg lán (skítt með það þótt það hafi verið gert í góðri trú) átti bara að vera ánægt með hana. Nú voru nefnilega flestir íslenskir lántakendur jafnilla settir, hvort sem þeir voru með gengistryggð lán eða hina hefðbundnu verðtryggðu hörmung. Málið leyst ekki satt?

En svo dúkkuðu upp óánægðir skuldarar, fólk sem var jafnvel að gaspra um evrópskan neytendarétt sem stjórnvöld höfu reyndar innleitt í íslenska lögggjöf en engum finnst í raun skipta neinu máli. Þetta fólk fór í mál og þrátt fyrir að fjármálafyrirtækin hafi ítrekað tekist að koma í veg fyrir að hæstiréttur gæti svarað spurningunni um hvort það stæðist íslensk lög, jafnvel stjórnarskrá, að reikna himinháa vexti á lán mörg ár aftur í tímann, þrátt fyrir að allir gjalddagar hafi verið greiddir, þá varð svar hæstaréttar að lokum bæði réttlátt og sanngjarnt. Samningar skulu standa. Það “tap” sem bankarnir færa nú í bækur sínar eru því peningar sem þeir áttu aldrei. Þetta var væntur ávinningur af ólöglegu athæfi þeirra sem þeir komust ekki upp með, þökk sé hæstarétti og þeim lántakendum sem tóku slaginn.

Hver er að ræna hvern?

Eftir allt sem á undan er gengið í íslensku þjóðfélagi. Eftir allt það raunverulega tjón og tap sem hrun bankakerfisins hefur valdið íslenskri þjóð á síðustu árum; er til of mikils mælst að fjölmiðlar hagi orðum sínum þannig að með því að lesa fréttir fái maður glögga mynd af því hver er að reyna að ræna hvern?

Greinin birtist fyrst í DV 19. mars 2012.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is