Fimmtudagur 15.03.2012 - 21:17 - FB ummæli ()

Maastricht-skilyrðin og við

Helstu forréttindi þingmanna (fyrir utan bílastæði í miðborginni) eru að þeir geta lagt spurningar fyrir ráðherra sem verður að svara. Stundum er svarið þó hálfgert prump, og kannski sérstaklega þegar mikið liggur við að fá gott svar. Þá er eins og ráðherrann (eða starfsfólkið í ráðuneytinu) reyni hvað þeir geta til að koma sér undan að svara. Mér hugnast skriflegar spurningar til skriflegs svars best því mér finnst sanngjarnt að gefa ráðherranum tíma til að skoða málið og svo finnst mér gott að fá svarið skriflegt svo ég geti farið vel yfir það og vitnað til þess ef með þarf.

Og það finnst mér ég einmitt þurfa í dag þegar ég sé að fjármálaráðherra landsins, Oddný Harðardóttir, hafi sagt á Iðnþingi í dag að Ísland gæti uppfyllt Maastricht-skilyrðin um skuldastöðu ríkisins 2016. Ég hef nefnilega spurt um þetta. Tvisvar. En ekki fengið þetta svar.

Fyrir um ári síðan spurði ég þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árna Pál Árnason um Maastricht-skilyrðin, hvort við uppfylltum þau og ef ekki með hvaða hætti stefnt væri að því. Yfirlýst stefna meirihluta ríkisstjórnarinnar er jú að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evru og til þess að það sé hægt þarf að uppfylla skilyrðin sem kennd eru við Maastricht. Auk þess eru þau afar skynsamleg. Daginn sem okkur tekst að uppfylla þau mætti kannki segja að við hefðum náð nægilega góðum tökum á efnahagsmálum okkar til að nota krónuna.

Svar Árna Páls fannst mér nokkuð bjartsýnt en hann gerði ráð fyrir að allt stefndi hér í rétta átt, að vísu ekki strax en síðar. Spátíminn í svari hans náði til ársins 2016 og samkvæmt þeirri spá sem hann studdist við ættu skuldir Íslands að vera 68,8% af vergri landsframleiðslu þá en krafan er að þær séu undir 60%. Ef þetta er rétt spá og skuldir héldu svo áfram að lækka eftir 2016 ættum við kannski séns 2018 eða 2019 í fyrsta lagi.

En svo fengum við nýjan ráðherra efnahags- og viðskipta. Auk þess breytast forsendur og því ákvað ég nú í vetur að leggja spurninguna fram aftur og nýja svarið barst í dag. Heppilegt. Steingrímur J. Sigfússon er ekki eins brattur í spádómum sínum og Árni Páll og spátímabil hans nær eingöngu til 2014. Og samkvæmt svarinu mun hlutfall skulda af vergri landsframleiðslu árið 2014 vera 84,8% og því töluvert langt í 60% takmarkið. Og mér er fyrirmunað að skilja hvernig það ætti að geta lækkað svo mikið á aðeins tveimur árum. Oddný segir reyndar að hún sé að tala um skuldir ríkisins að frádregnum skuldum vegna gjaldeyrisvaraforðans en þær teljast með. Það eru eingöngu viðskiptaskuldbindingar og lífeyrisskuldbindingar sem ekki teljast með. En hugsanlega ætlar Oddný að skila AGS peningunum. Gjaldeyrisvarasjóður sem tekinn er að láni er ekki bara dýr því vextirnir eru háir heldur líka eiginlega gagnslaus því það vita allir að við eigum hann ekki. Og ef til vill er hugsunin sú að við þurfum ekki á honum að halda eftir að við erum komin í skjól Evrópska seðlabankans (ef eitthvert skjól er þar að finna). En þangað til verður þessu fé væntanlega ekki skilað í heild.

Um daginn áttum við, þinghópur Hreyfingarinnar, fund með fulltrúum AGS því þótt við eigum að vera útskrifuð með láði (humm, humm) er enn fylgst vel með okkur og verður svo á meðan við skuldum AGS peninga. Við spurðum Julie Kozack sem haldið hefur utan um mál Íslands hjá sjóðnum út í skuldastöðuna og hvenær raunhæft væri að Ísland myndi uppfylla þetta skilyrði Maastricht-skilyrðanna. Hún svaraði því til að raunhæft væri að horfa til áranna 2020-2025. Ástæða þess að við spurðum var bloggfærsla Vilhjálms Þorsteinssonar þar sem hann les það úr áætlun AGS að 60% markmiðinu yrði náð 2015. Franek Rozwadowski sagði hann með augun á rétta töflu en á vitlausan stað.

Þótt við með undraverðum hætti næðum að uppfylla þessa kröfu Maastricht-skilyrðanna eru öll hin eftir. Í landi þar sem verðbólga og vextir hafa hingað til verið með hæsta móti getur lækkun þeirra verið krefjandi verkefni. Og ekki má gleyma því að við þurfum að vera skammlaust í ERM II í tvö ár áður en til greina kemur að við tökum upp evru.

Maastricht-skilyrðin eru verðug markmið til að stefna að, óháð því hvort við göngum í Evrópusambandið og tökum upp evru. Mér finnast stjórnvöld þó helst til bjartsýn á væntan árangur. Við erum í vandræðum með krónuna okkar en ég held að við verðum að trúa því að til séu lausnir á því. Þær þarf að skoða, og vega og meta kosti þeirra og galla. Evrópusambandsaðild og upptaka Evru er ein lausn en alls ekki sú eina mögulega og kannski alls ekki sú besta. Hún er alla vega greinilega ekki sú fljótlegasta. Mér finnst við skulda þjóðinni að skoða allar leiðir með opnum huga og veljum svo þá bestu.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is