Mánudagur 12.03.2012 - 16:49 - FB ummæli ()

Þarf ekki frekar vitnanna við?

Ég rak augun í litla frétt á vef RÚV í dag um breytta dagskrá í landsdómi á morgun. Samkvæmt henni hefur verið hætt við að kalla 10 manns fyrir dóminn á morgun. Samkvæmt áður birtri dagskrá áttu nokkrir nefndarmenn í þingmannanefndinni sem lagði til að dómurinn yrði kallaður saman að mæta, sem og tveir úr Rannsóknarnefnd Alþingis. Þetta finnst mér athyglisvert.

Þann 17. janúar, þremur dögum áður en taka átti tillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun ákærunnar á hendur Geir H. Haarde, birtist frétt í Morgunblaðinu og á Mbl.is þar sem rætt er við Andra Árnason, verjanda Geirs, undir fyrirsöginni „Þingnefndarmenn kallaðir fyrir landsdóm.“ Í fréttinni er m.a. haft eftir Árna:

„… Síðan er miðað við að þingmenn sem sátu í þingnefndinni og sem lögðu til ákæru, þ.e. þingmenn úr Atla-nefndinni, komi fyrir dóm og geri grein fyrir rannsókn sinni. Mikilvægt er að fara nákvæmlega yfir rannsóknargögnin með viðkomandi þingmönnum, enda önnuðust þeir rannsóknina á meintri ráðherraábyrgð á vegum þingsins.“

Einnig kom fram að aðeins stæði til að kalla þá þingmenn fyrir dóminn sem höfðu lagt þessa niðurstöðu til. Ég gat ekki lesið þetta öðruvísi en verið væri að reyna að hræða þingmenn til að kalla málið aftur. Ef þeir gerðu það ekki yrðu þeir sjálfir kallaðir fyrir dóminn til að bera vitni um störf sín sumarið 2010.

Vitnalistar bæði verjanda og sækjanda birtust svo í DV þann 30. janúar (bls. 11 en því miður ekki aðgengilegt á netinu nema fyrir áskrifendur) og voru í samræmi við þetta. Þar kom fram að verjandinn hugðist kalla til 7 af 9 þingmönnum í þingmannanefndinni, þ.e. alla nema þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þær Unni Brá Konráðsdóttur og Ragnheiði Ríkharðsdóttur.  Ef tilgangurinn með því að kalla þetta fólk fyrir hefði raunverulega verið að fá yfirlit yfir störf nefndarinnar þá finnst mér hálfasnalegt að skilja þær Unni og Ragnheiði eftir enda skeleggar og klárar konur sem hefðu getað varpað skýru ljósi á störf nefndarinnar. Unnur var til að mynda varaformaður hennar og öll nefndin stóð saman að vinnunni og skilaði sameiginlegri skýrslu, þótt nefndarmenn hafi komist að ólíkri niðurstöðu þegar kom að þessu tiltekna máli, þ.e. hvort kalla skyldi landsdóm saman og hverja skyldi ákæra. En það var líka flestum alveg ljóst hvernig þær Unnur Brá og Ragnheiður hyggðust greiða atkvæði um tillögu Bjarna Benediktssonar. Óvíst var um hin sjö.

Ég veit til þess að þingmenn úr nefndinni höfðu fengið boð um að mæta fyrir dóminn á morgun. En þó ekki allir sjö. Og samkvæmt fréttinni á RÚV sem vísað er til hér að ofan áttu þau Atli Gíslason, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Magnús Orri Schram og Oddný G. Harðardóttir öll sex að mæta. Sjöundi maðurinn, Sigurður Ingi Jóhannsson var einhverra hluta vegna ekki kallaður fyrir dóminn. Hann greiddi atkvæði gegn frávísunartillögu Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndarinnar líkt og Atli Gíslason, formaður nefndarinnar. Í atkvæðaskýringu sagðist Atli ætla að sitja hjá ef til efnislegrar afgreiðslu kæmi. Til hennar kom þó ekki. Sigurður Ingi gerði hins vegar grein fyrir því í þingræðu um málið að hann myndi styðja tillögu Bjarna um að kalla málið aftur.

Ég er ekki lögfræðingur og þekki ekki sérlega vel inn á störf dómstóla. Þó held ég að ef ég væri verjandi sem væri að reyna að færa sönnur á að mál hefði verið illa rannsakað, illa unnið eða illa rökstutt af þeim sem færi með ákæruvaldið, þá myndi ég kalla þá fyrir sem líklegast væri að væru sama sinnis. Verjandi Geirs ætlaði hins vegar að kalla alla hina fyrir dóminn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is