Mánudagur 05.03.2012 - 18:37 - FB ummæli ()

Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt

Í morgun var ráðist á starfsfólk lögfræðistofu sem séð hefur um innheimtuaðgerðir fyrir fjármálafyrirtæki. Ég tala við marga í skuldavanda og ég verð að viðurkenna að ég hef þakkað fyrir hvern einasta dag sem hefur liðið án þess fréttir í þessa veru hafi borist okkur. Því undir niðri kraumar djúpstæð reiði, vonbrigði og særindi fólks sem telur sig ekki eiga skilið þá framkomu, skilningsleysi og vanvirðingu sem fjármálafyrirtæki og rukkarar hafa í mörgum tilfellum sýnt. Skýrt dæmi um það eru þúsundir greiðsluseðla vegna fyrrum gengistryggðra lána sem reiknuð hafa út með ólögmætum hætti sem bárust landsmönnum þessi mánaðarmót. Meira að segja hjónin sem unnu málið í hæstarétti fengu rukkun fyrir það lán, sem sannarlega er enginn ágreiningu um, eins og enginn dómur hefði fallið. Það er eins og kjaftshögg. Ofbeldi.

Ég hef fengið símtöl frá fólki vegna þessa sem hefur verið í öngum sínum, misst stjórn á sér og brostið í grát. Það hefur verið reitt en þó kannski öðru fremur upplifað sig vanmáttugt. Einstaklingurinn er svo smár gegn öllu kerfinu. Margir eru búnir að reyna allt til að reyna að standa í skilum; allur sparnaður og viðbótarlífeyrir á þrotum, þótt lán hafi verið dæmd ólögleg, lagasetning Alþingis um afturvirka vexti ólögmæt en fólk stendur enn frammi fyrir ómanneskjulegu viðmóti, skilningsleysi og hótunum. Og jafnvel vörslusviptingum án dóms og laga.

Sá atburður sem átti sér stað í dag er bæði skelfilegur og óréttlætanlegur. Ég vona að sá sem fyrir árásinni varð nái sér sem fyrst að fullu.

Og það fjárhagslega ofbeldi sem landsmenn hafa þurft að búa við síðustu misseri finnst mér einnig óréttlætanlegt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is