Fimmtudagur 01.03.2012 - 00:10 - FB ummæli ()

Yfirstéttin og sauðsvartur almúginn

Í dag ræddum við tillögu Bjarna Benedikssonar um afturköllun ákæru á hendur Geirs Haarde. Þetta var síðari umræða. Ég var á móti því að málið væri tekið inn í þingið – og er sammála félaga mínum í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, Magnúsi M. Norðdahl, um að málið hafi vart verið þingtækt en hann gerði grein fyrir þeim sjónarmiðum í séráliti og einni af bestu ræðum dagsins. Þetta mál er búið að njóta forgangs umfram önnur þingmannamál – ég hefði viljað senda það aftast í röðina. En í nefndina fór það og tók mikinn tíma frá öðrum og mikilvægari störfum. Setti raunar stjórnarskrármálið í uppnám því það raskaði tímaplani okkar algjörlega. Þetta er því eiginlega eins og „tveir fyrir einn“ díll fyrir Sjálfstæðismenn – þeir reyna bæði að frelsa leiðtogann fyrrverandi og eyðileggja nýja stjórnarskrá í einu og sama málinu. Og málið var skoðað vel og gerð ítarleg grein fyrir þeim sjónarmiðum sem fram komu í nefndaráliti meirihutans sem ég tók þátt í að vinna og skrifa undir þótt ég hafi verið á móti því að taka málið út úr nefndinni. Það er nefniega ekki hefð fyrir því að afgreiða mál út í minnihuta – slík mál sofna venjulega í nefnd þótt lítill bragur sé að því.

Í gær rakst ég á frétt á vef Rúv sem mér finnst lýsa ástandinu á Alþingi mjög vel. Hún ber heitið Yfirstéttin er frekari en almúginn:

Því hærra sem menn eru settir í samfélaginu, því eigingjarnari eru þeir, ágjarnari, siðlausari og líklegri til að hafa rangt við; brjóta lög og aðrar leikreglur. Þetta hefur margan grunað, en nú er það vísindalega sannað. Sönnunin var unnin af Paul Pitt, prófessor í félagssálfræði.

Pitt, og félagar hans í Berkeley-háskóla í Kalíforníu, standa á því fastar en fótunum að auðugt fólk og aðrir sem njóti velgengni og forréttinda hafi meiri tilhneigingu en minni háttar fólk til að segja ósatt, svindla, svína í umferðinni og yfirleitt hegða sér andfélagslega. Þeir sem yfir aðra séu settir telji eðlilegt að önnur siðalögmál gildi um sig, þeir eigi einnig betra en sauðsvartur almúginn með að losa sig úr klípu, fari illa, hafi til að mynda efni á úrræðagóðum lögmönnum.

Þetta finnst mér vera raunsönn lýsing á því sem er að gerast á Alþingi Íslendinga. Hin pólitíska elíta stendur saman þegar kemur að því vernda einn úr hópnum. Um hann gilda önnur lög, aðrar kröfur, annar veruleiki en fyrir venjulegt fólk. Hann hefur verið ósnertanlegur, alla vega fyrir hrun, og nú óttast ég að meirihluti þeirra Alþingismanna sem nú sitja hafi komist að þeirri ógeðfelldu niðurstöðu að svo eigi að vera áfram. Það kemur í ljós við atkvæðagreiðslu á morgun. Þar mun samtryggingin opinberast. Þá kemur í ljós hverjir vilja gera upp hrunið og hverjir ekki.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is