Þriðjudagur 28.02.2012 - 20:44 - FB ummæli ()

Og á bara að halda áfram að rukka?

Nú eru að koma mánaðarmót og þá reyna menn eftir fremstu getu að greiða reikningana sína, gera upp skuldir samkvæmt fyrirfram ákveðnu samkomulagi við lánveitendur. En nú er uppi sérstök staða. Tugþúsundir lántakenda hafa verið að greiða af áður gengistryggðum lánum sem hafa verið uppreiknuð með fáránlega háum afturvirkum vöxtum frá því sautjánhundruð og súrkál eins og mælt var fyrir í Árna Páls-lögunum nr. 151/2010. Hæstiréttur hefur gert Alþingi afturreka með þessa íþyngjandi löggjöf sem sumir þingmenn og ráðherra héldu reyndar fram að væri bæði sanngjörn og ívilnandi fyrir lántakendur. Einmitt!

Fyrir nokkrum dögum barst mér bréf frá lántakanda hjá Arion-banka (birt með leyfi bréfritara):

Sæl Margrét,

Ég vildi vekja athygli þína á því að Arion banki sendir út
greiðsluseðla vegna gengistryggðra fasteignalána þrátt fyrir dóm
Hæstaréttar 15. febrúar. Ég er að vonast til þess að þú vekir athygli
annarra Alþingismanna og þá sérstaklega félaga þinna í Efnahags- og viðskiptanefnd á þessu. Nú veit ég ekki hvað aðrar fjármálastofnanir en Arion banki eru að gera í þessum málum en mér finnst fráleitt að gjaldfæra fyrir lán þegar ekki er búið að endurreikna höfuðstól þeirra í kjölfar dóms Hæstaréttar.

Ég hef sett mig í samband  við bankann út af þessu og fékk neðangreint svar:

„Arion banki hefur lokið frumathugun á nýföllnum dómi Hæstaréttar í
máli 600/2011 sem snýr að endurútreikningi erlendra lána samkvæmt
ákvæðum laga nr. 151/2010.

Að svo stöddu liggur ekki fyrir hvert fordæmisgildi dómsins er. Bankinn mun upplýsa viðskiptavini sína um leið og athugun á áhrifum og þýðingu dómsins liggur fyrir.

Arion banki áréttar að betri réttur viðskiptavina sem hann kann að
njóta samkvæmt lögum eða betri rétt þeirra samkvæmt endanlegir
dómsniðurstöðu í dómsmáli sem Arion banki er aðili að og sem varðar
sams konar skuldaviðurkenningu og viðskiptavinur hefur gengist undir hjá bankanum er alltaf tryggður.

Hvað varðar greiðslur af láninu er alltaf betra fyrir viðskiptavini að
standa í skilum því lítið á allar greiðslur sem inntar eru af hendi
sem innborgun á lánið. Við endurútreikning eru greiðslurnar
vaxtareiknaðar frá greiðsludegi fram að breytingardegi lánsins. Allar
greiðslur lækka því lánið.“

Ég hef hinsvegar bent bankanum á að hann ákveður ekki einhliða hvert fordæmisgildi dómsins er. Það er alveg ljóst að dómurinn hefur skýrt fordæmisgildi fyrir öll ólögleg gengistryggð lán.

Ég hef einnig lýst þeirri skoðun minni að það sé lágmarkskrafa að
gjaldfærsla bankans á lánum sé hafin yfir allan vafa. Það er ekki hægt
að ætlast til þess að viðskiptavinirbankans séu látnir velja um að:

A) Greiða ranga upphæð
B) Fara með lánið í vanskil.

Ég er líka í þeirri stöðu að Lýsing hf. skuldar mér nokkur hundruð
þúsund krónur (skv. útreikningi á Sparnadur.is rétt tæplega eina
milljón króna) vegna uppgjörs á bíl sem ég seldi á dögunum. Eftir
seinni gengislánadóminn á ég skýran endurkröfurétt á Lýsingu en þar
vilja menn þæfa málið með svipuðum rökum og Arion banki notar.

Ég vil taka það sérstaklega fram að við erum ekki í neinum
greiðsluerfiðleikum enda fórum við mjög varlega í fjármálum fyrir og
eftir Hrun og skuldum því ekki mikið.

Við eigum hinsvegar í miklum vandræðum með hvernig fjármálastofnanir láta í kjölfar þess að Hæstiréttur kveður upp sinn dóm. Báðir þessir aðilar sem ég vísa til, Arion banki og Lýsing virðast ætla að freista þess að líta framhjá dómi Hæstaréttar. Að mínu áliti er það ekkert annað en aðför að íslensku réttarríki.

Það er athyglisvert að fjármálafyrirtæki skuli treysta sér til að rukka þessi lán, nú hálfum mánuði eftir að dómur hæstarétta féll eins og ekkert hafi í skorist. Ég velti fyrir mér hvort menn ætli virkilega ekkert að læra?

Á heimasíðu Arion-banka er þegar þetta er ritað ekkert sem bendir til þess að um þessi mánaðarmót eigi að taka tillit til þeirrar stöðu sem upp er komin. Undir fréttum á síðunni  má sjá að bankinn er upptekinn við að eiga í viðskiptum við sjálfan sig í gegnum Eignabjarg ehf með hlutabréf í Högum og að hann hafi reynt að bæta ímynd sína með því að gefa þúsundum barna Andrésblað á öskudaginn. Eina fréttin um dóm Hæstaréttar er frétt frá 15. þ.m. sem er á svipuðum nótum og það sem birtist í bréfinu hér að ofan.

Ég get eiginlega ekki orða bundist yfir þessari framkomu. Ætla fjármálafyrirtækin virkilega að halda áfram að rukka ólöglegu lánin samkvæmt ólöglegum endurútreikningum? Þetta kalla ég að bjóða hættunni heim.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is