Laugardagur 25.02.2012 - 02:40 - FB ummæli ()

Nýja Ísland, 25-0

Sennilega er fátt eins táknrænt fyrir baráttuna fyrir nýju og betra Íslandi og ritun nýrrar stjórnarskrár. Það finnst mér alla vega. Og því tek ég það afar nærri mér þegar fullyrt er að Alþingi – sem reyndar klúðrar nú ansi mörgu – sé að klúðra málinu.

Sameinuðu þjóðirnar eru fyrir löngu búnar að finna upp prógramm fyrir þjóðir sem þurfa og/eða vilja semja nýja stjórnarskrá. Það var sem sagt búið að finna upp hjólið. Við þurftum hins vegar að finna upp „séríslenska leið“ til þess. Mér hefur oft fundist við vera að velta þríhyrningi á þessari vegferð okkar. Þúfurnar hafa verið margar og stórar en við erum að nálgast markið. Hélt ég.

Reyndar held ég að við getum bara verið stolt af þessu alíslenska ferli. Nóg er alla vega aðdáunin utan frá. Það þykir nefnilega flott úti í hinum stóra heimi að læra af mistökum og reyna að bæta samfélagið eftir Hrunið. Reyndar er myndin sem útlendingar hafa af því sem er að gerast ekki endilega í samræmi við upplifun okkar. Þeir sem segja okkur eiga heimsmet í skuldaniðurfærslu átta sig sennilega ekki á að meira en helmingurinn er til örfárra einstaklinga og að lán íslenskra heimila eru ýmist ólögleg eða sjálfhækkandi þrátt fyrir að greitt sé af þeim. Og margir erlendir blaðamenn sem ég hef talað við virðast halda að með þjóðaratkvæðagreiðslunum um Icesave hafi þjóðin neitað að greiða allar skuldir óreiðumanna og þar með séu þær úr sögunni. Svo er ekki. En eitt af því sem ég hef reglulega verið spurð um er stjórnlagaráðið og ekki síst virk þátttaka þjóðarinnar. Ég gerðist meira að segja svo fræg að flytja erindi um gagnvirka stjórnarskrárritun með aðstoð feisbúkk í Þýskalandi síðasta sumar. Þetta þótti verulega kúl, get ég sagt ykkur.

Leiðarstef í ferlinu öllu hefur verið þátttaka þjóðarinnar. Haldinn var þjóðfundur þar sem þverskurður þjóðarinnar kom saman og miðlaði því áfram til okkar hinna hvað hann vildi sjá í stjórnarskrá. Stjórnlaganefndin skilaði að mínu mati frábæru starfi og nestaði væntanlegt stjórnlagaþing með afar gagnlegri skýrslu í tveimur bindum. Yfir 500 manns buðu sig fram til setu á stjórnlagaþinginu og stór hluti þjóðarinnar lagði það á sig að vega og meta mannkosti þessa fólks og velja þéttan hóp sem þéttist svo enn frekar þegar hæstiréttur dæmdi kosningarnar ógildar. Þá var úr vöndu að ráða. Mín fyrstu viðbrögð voru að rétt væri að kjósa aftur. Eftir að hafa rýnt í stöðuna sem upp var komin var ég þó sátt við að Alþingi, sem sannarlega hefur valdið í hendi sér, myndi skipa þá einstaklinga sem þjóðin hafði valið (enda ekkert í ákvörðun hæstaréttar sem véfengdi að niðurstaðan væri rétt) í Stjórnlagaráð. Og það gerðum við. Og Stjórnlagaráð stóðst prófið. Það skilaði fínu verki á tilsettum (en þó alltof skömmum tíma). Er þetta nákvæmlega eins stjórnarskrá og ég myndi skrifa? Nei, en í því felst fegurðin. Þarna mættust ólík sjónarmið, ólíkar manneskjur. En þær komust að sameiginlegri niðurstöðu. 25-0.

En þau drög sem liggja fyrir eru svo miklu, miklu betri en það sem við eigum nú. Sú stjórnarskrá var í grunninn samin handa 19. aldar dönum. Þessi er fyrir 21. aldar Íslendinga. Og það sem mestu skiptir er að hún er raunverulega okkar. Við bjuggum hana til saman með þátttöku okkar í öllu þessu ferli. Og hún byggir á því sem við höfum lært, ekki síst síðustu árin sem hafa verið okkur öllum svo erfið. Þetta er ekki plagg sem kom að ofan eða utan eins og það sem Kristján níundi réttir okkur á hverjum degi fyrir framan Stjórnarráðið (er ekki kominn tími til að flytja þá styttu?) Það varð til hjá okkur.

Og nú hefur það verið til umræðu í glænýrri þingnefnd sem ég á sæti í og allir héldu að yrði verkefnislaus. En það er nóg að gera. Okkur er ætlað að sinna eftirlitshlutverki þingsins sem hefur verið olnbogabarn og hafa umsjón með stjórnskipunarmálum. Því er frumvarp Stjórnlagaráðs á okkar borði. Það var lagt fram í skýrslu af forsætisnefnd við upphaf þings. Ef Alþingi samþykkir stjórnarskrárbreytingar ber að rjúfa þing og boða til þingkosninga. Næsta þing samþykkir svo breytingarnar (ja ef meirihluti er fyrir því) og þá tekur breytingin á stjórnarskránni gildi. Það var því alveg ljóst við upphaf þings í haust að stjórnarmeirihlutinn ætlaði ekki að samþykkja frumvarp Stjórnlagaráðsins fyrr en rétt fyrir kosningar 2013. Stjórnin ætlar jú að sitja, hvað sem okkur finnst um það. Ástæðan fyrir því að málið var lagt inn í skýrsluformi var að þá var hægt að ræða það í þinginu. Ég hefði viljað meiri og dýpri umræður um málið í þingsal en eftir þær var málinu vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við höfum þegar þetta er ritað fundað formlega 35 sinnum (nýjasta fundargerðin er ekki komin á vefinn þegar þetta er ritað), þar af í 21 skipti um nýja stjórnarskrá og málsmeðferðina. Þá höfum við einnig fundað óformlega – áttum heilan dag á Akureyri þar sem við funduðum með tveimur stjórnlaganefndarmönnum 1. desember (þótt fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni hafi reyndar kosið að sitja heima og halda fullveldisdaginn hátíðlegan) og sátum málþing sem í Háskólanum á Akureyri um málið. Þá höfum við skipað smærri vinnuhópa sem tekið hafa að sér sérstök verkefni, svo sem að funda með Lagastofnun HÍ og fulltrúum úr Stjórnlagaráði um framhaldið.

Eitt af því fyrsta sem við ákváðum var að við skyldum reyna að hafa vinnubrögð Stjórnlagaráðsins sjálfs að leiðarljósi. Ferlið skyldi opið og gegnsætt og við vildum tryggja áframhaldandi aðkomu almennings að því. Þess vegna ákváðum við að setja auglýsingu í blöðin og biðja venjulega Íslendinga að segja okkur hvað þeim fannst í stað þess að senda þessum venjulegu (ASÍ, SA og fleirum) umsagnarbeiðnir. Það máttu sem sagt allir senda okkur bréf til að segja okkur hvað þeim fannst. Og við lásum þau og birtum á vefnum okkar. Yfir 200 einstaklingar sáu ástæðu til þess að senda okkur bréf þess efnis að þeir lýstu yfir stuðningi við frumvarp stjórnlagaráðs og óskuðu þess að þjóðin fengi að greiða atkvæði um það sem fyrst. Yfir 70 í viðbót sendu efnislega umsögn.

Og við ákváðum líka að reyna að hafa fundi nefndarinnar um málið eins opna og hægt væri. Einum af fyrstu fundunum var sjónvarpað á Alþingisrásinni og á vef þingsins þar sem horfa má á þessa upptöku. Þá hafa vel flestir fundirnir verið opnir fréttamönnum. Þeir koma bara aldrei. Eftir að nefndin fékk landsdómsmálið í fangið nú í janúar höfum við þurft að venjast því að funda með fréttamenn viðstadda en þegar fundað hefur verið um bæði málin standa þeir samviskulega upp og yfirgefa svæðið þegar talið berst að nýrri stjórnarskrá. Við höfum fengið ótal gesti til okkar til að fjalla um málið, margir þeirra hafa skilað vönduðum umsögnum um málið sem fæstar hafa þó ratað í fjölmiðla.

Og nú viljum við spyrja þjóðina hvað henni finnst um það sem fyrir liggur en fyrst viljum við eiga samtal við stjórnlagaráðið sjálft og miðla til þess upplýsingum sem við höfum fengið í formi umsagna og frá gestum. Og sumt höfum við hugsað upp alveg sjálf, það verður að viðurkennast líka. Sérstakur hópur var skipaður úr nefndinni (fulltrúi Framsóknar vildi reyndar ekki taka þátt) til að hitta fulltrúa stjórnlagaráðs og ræða með hvaða hætti við gætum átt þetta samtal. Fimm stjórnlagaráðsmenn komu og hittu okkur þann 8. febrúar, fyrrverandi formaður og varaformaður ráðsins og svo einn frá hverri af þremur nefndum ráðsins. Fundurinn var góður og hreinskiptinn. Það kom skýrt fram að Stjórnlagaráðið var sammála um að ef það ætti að koma aftur að málinu þyrftu þau að vera kölluð formlega saman aftur. Annað væri hreinlega ósanngjarnt. Þau hefðu komist að sameiginlegri niðurstöðu, 25-0 og það hefði byggst á málamiðlunum og ef nú ætti að opna á að hræra í niðurstöðunni væri alveg ljóst að allir þyrftu að fá að koma saman að þeirri vinnu. Þau rök skil ég vel. Annars gætu þeir sem væru frekastir bara þrýst sínu í gegn – og gengið gegn sameiginlegri niðurstöðu ráðsins. Það væri ótækt. Hitt sem mér fannst koma alveg skýrt fram var að þau vildu öllu fylgja málinu áfram. Ef þau fengju bara smá fyrirvara myndi endurkoma stjórnlagaráðs hafa forgang hjá þeim.

Í ljósi þessa samráðs samþykkti Alþingi þingsályktun þann 22. febrúar s.l. sem kallar stjórnlagaráð aftur saman til fjögurra daga fundar og að senda skuli málið til þjóðarinnar í kjölfarið í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðlu. Vonbrigði mín við þeim tíðindum að tveir ráðsmenn, þar af fyrrverandi formaður Stjórnlagaráðs sem sat fundinn með okkur þann 8. febrúar ætli ekki að taka þátt eru mikil. Í bréfi til forsætisnefndar segir Salvör Nordal:

… Mitt mat er því það að fundinn eigi fyrst og fremst að nýta til samræðu milli stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við þá fulltrúa í stjórnlagaráði sem eiga heimangengt fremur en að kallað sé eftir breytingartillögum frá ráðinu með þessum stutta fyrirvara. Kjósi einhverjir innan stjórnlagaráðs að skila inn breytingatillögum til nefndarinnar að honum loknum geri þeir það í eigin nafni.

Þetta er þvert á það sem kom fram á fundi með Salvöru og öðrum fulltrúum Sjórnlagaráðs – eiginlega einmitt það sem við vorum sérstaklega beðin að varast.

Því hefur verið haldið fram að Alþingi hafi unnið málið illa, lítið skoðað heildarplaggið og stefnan sé óljós. Það getur vel verið að fjölmargir alþingismenn ráfi í villu síns vegar um þetta mál. Sumir lofuðu t.d. að koma á stjórnlagaþingi fyrir kosningar 2009 en kannast nú ekkert við það núna. Aðrir hafa bara alltaf verið á móti þessu. Meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem í þessu máli telur sex þingmenn því sú sem þetta skrifar styður málið heils hugar, hefur hins vegar haft það markmiði sínu að hafa vinnu nefndarinnar opna og tryggja að þjóðin fái að segja sína skoðun á því plaggi sem nú liggur fyrir. Minnihlutinn er einhverra hluta vegna alveg á móti því. Og ber fyrir sig að málið sé lítið rætt og illa unnið. Við erum samt búin að halda 21 fund um málið. Við lauslega athugun á þeim fundargerðum sem sjá má á vef nefndarinnar sé ég ekki betur en að málið sé aðallega illa unnið af fulltrúum minnihlutans.

Sjálfstæðisflokkurinn á tvo fulltrúa í nefndinni. Ólöf Nordal, varaformaður flokksins og systir fyrrverandi formanns Stjórnlagaráðs hefur mætt á 11 fundi af þeim 21 sem fjallað hafa um málið. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur leyst hana af tvisvar og Pétur Blöndal fjórum sinnum sýnist mér. Það er reyndar fengur í Pétri því hann er mjög áhugasamur þótt hann sé ekki sammál okkur í einu og öllu. Það háir honum hins vegar  að hafa ekki fylgst með málinu frá upphafi. Birgir Ármannsson er hinn fulltrúinn. Mér sýnist hann hafa mætt í flest skiptin en 10 sinnum of seint! En Birgir hefur sýnt málinu áhuga og ekki skorast undan frekari vinnu við málið. Vigís Hauksdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni, hefur líka yfirleitt mætt og meira að segja á réttum tíma en hefur ekki viljað taka þátt í vinnu nefndarinnar utan fastra fundartíma. Þessum fulltrúum hefur ávallt staðið til boða að koma ábendingum sínum um það sem betur mætti fara að svo Stjórnlagaráð gæti farið yfir það líka.

Auðvitað er starf nefndarinnar ekki fullkomið. Og auðvitað er alltaf hægt að gera betur. En mér sárnar að sjá því fleygt fram í umræðunni að við höfum ekkert verið að gera því það er ekki satt. Og við erum alls ekki búin með okkar starf. Við ætlum að spyrja þjóðina hvað henni finnst og halda svo áfram með málið þegar við höfum fengið ráðgjöf hennar. Samkvæmt stjórnarskrá getur þjóðaratkvæðagreiðsla um málið á þessu stigi aðeins verið ráðgefandi. En við ætlum að þiggja þau ráð. Ef þjóðinni líst illa á einhver ákveðin atriði eru það skilaboð til okkar um að vinna nánar í þeim. Ef þjóðin er hins vegar sátt og ánægð með flest verður vinnan næsta vetur minni og auðveldari. En við vitum það ekki nema spyrja. Og það hyggjumst við gera í júní.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is