Miðvikudagur 22.02.2012 - 14:39 - FB ummæli ()

Hvað með þennan dóm?

Nú þegar hæstiréttur hefur fellt þann dóm að lög Árna Páls nr. 151/2010, samþykkt af 27 stjórnarþingmönnum, sem fólu í sér afturvirka íþyngjandi vexti fyrir lántakendur standist ekki og gangi gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar vakna fjölmargar spurningar.

Skuldamál heimilanna eru ástæðan fyrir því að ég fór að skipta mér að stjórnmálum. Ég er 39 ára og nánast allir vinir mínir eru í vondum málum vegna forsendubrests sem við bárum ekki ábyrgð á og gátum ekki með nokkru móti varast. Við höfum flest verið á vinnumarkaði í 10-20 ár, reynt að koma okkur upp þaki yfir höfuðið, eignast börn, borgað skatta og lifað lífinu eftir bestu getu. Við sitjum í skuldasúpunni og fáum það auk þess framan í okkur að við séum áhættufíklar upp til hópa, heimtufrekt óreiðufólk eða að við höfum lifað um efni fram.  Ég er ekki sammála því. Við vorum einfaldlega óheppin; keyptum kannski húsnæði í fasteignabólu, sum okkar hafa svo misst vinnuna eða orðið fyrir tekjuskerðingu. Og svo hefur allt hækkað og fólk á erfitt með að ná endum saman. Og gjaldmiðillinn sem við fáum launin okkar í er ónýtur en við þurfum að standa skil á skuldum okkar í mynt sem lýtur allt öðrum lögmálum: Verðtryggðri krónu. Þetta er dæmi sem gengur einfaldlega ekki upp og samfélagið verður allt að taka þátt í að laga.

Eftir að hafa skoðað nýfallin dóm hæstaréttar sé ég ekki betur en að fordæmisgildi hans hljóti að vera algjört. Þar stendur einfaldlega að ekki sé hægt að krefja fólk sem greitt hefur af lánum sínum í góðri trú um vexti langt aftur í tímann. Það hlýtur að eiga við alla sem tekið hafa gengistryggð lán og greitt af þeim í samræmi við samkomulag við lánveitanda. Og það þýðir ekki endilega að hver einasta greiðsla hafi verið greidd – það lán sem dómurinn snýst um var t.d. í frystingu í heilt ár þannig að aðeins voru greiddir vextir af láninu en ekkert inn á höfuðstólinn. Engu að síður hafa lántakendurnir í flestum tilfellum greitt mun meira en þeir hefðu átt að gera samkvæmt upphaflegum forsendum.

En strax spretta upp “sérfræðingar” sem segja okkur að niðurstaðan sé ekki svona einföld, málið hafi verið sérstakt og alls ekki víst að það eigi við önnur lán. Hér eru nefnilega gríðarlegir hagsmunir í húfi. Strax 16. júní 2010 þegar gengislánin voru dæmt ólögmæt í hæstarétti, varð mér ljóst að kerfið myndi reyna að verja sig fram í rauðan dauðann. Sú hefur líka orðið raunin og það fylgja því gríðarleg vonbrigði að sjá stjórnvöld spila með og sýna fjármálakerfinu sjúklega meðvirkni og þjónkun á kostnað heimila og smærri fyrirtækja. Þingmenn eiga að vinna að almannahag og það eiga allir embættismenn ríkisins, svo sem yfirmenn FME og Seðlabankans líka að gera. Engu að síður gengu þeir fram fyrir skjöldu með bankastjórunum og beittu fyrir sig sanngirnisrökum um að fólk skyldi ekki njóta þeirra vaxtakjara sem samið var um – slíkt væri nefnilega svo ósanngjarnt fyrir bankana. Markmiðið með lögum 151/2010 var ekki að rétta hlut lántakenda heldur reyna að koma gengislánahópnum í jafnslæma stöðu og þeim sem voru með verðtryggð lán. Ef allir yrðu jafnilla settir væri vandamálið leyst, ekki satt?

En gengistryggð húsnæðislán eru enginn lottóvinningur, þótt umræðan sé oft á þann veg. Það hefur kostað fólk blóð, svita og tár að reyna að halda áfram að greiða, ófá hjónabönd hafa brostið, fólk misst heimili sín og flutt úr landi. Og það gleymist líka að taka inn í myndina að flest eru þessi lán til langs tíma, 25 – 40 ára. Þótt vextir verði, nú eftir dóminn, tiltölulega hagstæðir frá upphafi lánstímans, gildir það ekki um alla framtíð. Bankarnir hafa alla möguleika á að ná því sem þeir vilja síðar á lánstímanum. Eina fólkið sem segja má að hafi fengið happdrættisvinning í lánsformi (eða ættum við að kalla þetta eitthvað annað?) eru kúlulánaþegarnir sem fengu lán til hlutabréfakaupa sem þeir munu aldrei þurfa að standa skil á – þökk sé Árna Páli og lögum sem hann lagði til sem félags- og tryggingarmálaráðherra strax árið 2009 um sértæka skuldaaðlögun. Þar segir í greinagerð: “Hugtakið lánssamningur í lögunum skal skilgreint rúmt þannig að það taki allra samninga sem leiða af sér fjárskuldbindingu, þ.m.t. skuldbindingar vegna útgáfu verðbréfa og afleiðusamninga.” (Leturbreyting mín). Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar virðist mér því hafa verið að bjarga fyrst þeim sem skulduðu stóru peningana. Almenningur hefur mátt éta það sem úti frýs.

Pistillinn birtist fyrst í DV 22. febrúar 2012.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is