Laugardagur 18.02.2012 - 16:09 - FB ummæli ()

Gengislántakandi í útlegð

Ég auglýsti eftir reynslusögum vegna gegnislána á feisúkk og barst þetta bréf, birti það með leyfi bréfritara. Persónugreinanlegum atriðum hefur verið breytt:

Við erum þrjú í fjölskyldunni.

Ég á fyrirtæki og ég er meðal annars að borga af gengisláni vegna þess. Konan á líka bíl með gengistrggðu láni.

Bíllinn hennar var keyptur árið 2006 á kr. 1.450.000.- með kr. 1.250.000. – láni. Konan mín hefur verið í skilum þessi rúmu fimm ár sem hún hefur verið að borga bílinn. Hún skuldar núna jafn mikið og í upphafi, þegar 10 mánuðir eiga að vera eftir af láninu. Hún er að borga 10 þúsund krónum meira á mánuði en gert var ráð fyrir í upphafi.

Fyrirtæki mitt fjárfesti í tækjum fyrir 6 milljónir vorið 2005. Ég lenti svo í slysi á bíl sem fyrirtækið átti skuldlaust og hann gjöreyðilagðist. Enginn sambærilegur bíll var til á markaði fyrir svipað verð og hann var metinn á. Því keypti ég nýlegan bíl með yfirtöku og milligjöf.

Ég er búinn að borga bílinn meira en einu sinni en skulda samt meira en ég fæ fyrir hann, kr. 2,100.000.-  Upphaflega skuldaði ég kr. 2,700.000.-. Ég borga kr. 85.000.- á mánuði en  upprunalega borgaði ég um kr. 45.000.- á mánuði.

Tækin seldi ég úr landi í fyrra því ég var að sligast undan greiðslum sem voru um kr. 140.000.- á mánuði. Ég var „heppinn“ að finna kaupanda í Noregi en hefði sennilega átt þau skuldlaust með réttum útreikningum lánanna og því ekki neyðst til að selja þau.

Þegar ég tók lánin voru afborganir af þeim um kr. 70.000.- og svo bættist bíllinn við með kr. 45.000.- Þetta var því allt í lagi á meðan maður hafði einhver smá verkefni.

Þessar skuldir riðu loks baggamuninn eftir fyrri gengislána-dóminn og ég varð að flytja úr landi. Fjölskyldan mín er heima.

Sala tækjanna, sem ég hefði getað haldið, með réttum útreikningum, gerir mér örðugra að koma aftur heim. (Hentuðu líka vel í snjómokstur á göngustígum við aðstæður sem tæki Rvk réðu ekki við. Gat haft fyrir afborgunum með því yfir harðasta veturinn.)

Ég verð því að vera lengur hér, en nýlegur dómur Hæstaréttar mun vonandi stytta það.

Ég er að því kominn að selja vinnubílinn líka á undirverði til að geta byrjað að borga af húsinu aftur í sumar.

Ég næ ekki endum almennilega saman. Ég er þó með um kr. 900.000.- í laun sem framkvæmdastjóri. Sótti samt um og fæ umönnunarstarf um helgar og nætur svo endar nái saman. Konan mín er með prýðileg laun. Við erum með íbúðalánin í frystingu og við eyðum mjög litlu.

Ég kaupi tvisvar í mánuði í matinn.. Er heppinn að búa í matarkistu. Það er stundum styttra að ná sér í matinn í náttúrunni en að fara út í búð. Ég á kartöflur sem ég ræktaði og sultu sem ég sultaði og svo framvegis.

Þessi nýji dómur Hæstaréttar styttir vonandi tímann hér úti. Því ég sakna fjölskyldunnar. Ég þarf kannski að vera 2-3 ár í viðbót, en ég verð bæði að greiða skuldirnar og kaupa ný atvinnutæki. Ekki mun ég taka ný lán á Íslandi framar. Aldrei.

Það er mikilvægt fyrir stjórnina að hún standi með kjósendum nú og komi því til leiðar að bankarnir borgi fumlaust það sem þeir tóku með ólögmætum hætti. Bankarnir eru búnir að svíkja okkur Íslendinga svo mikið að þeim er ekki lengur treystandi til að reikna út sjálfir leiðréttingarnar. Dæmin og dómarnir sanna það.

Geri ríkisstjórnin þetta ekki missir hún það litla traust sem hún hefur. Hún á mikla sök á þessu. Hún var vöruð við af umboðsmanni Alþingis en skellti skollaeyrum við.

Verði þessu þýfi skilað skilmerkilega mun það, ásamt útboðum Seðlabankans geta hleypt glóð í efnahagslífið með vorinu. Við skulum vona það.

P.S.

Það hefði verið gott ef Seðlabankinn hefði boðið okkur litla fólkinu að taka þátt í gjaldeyrisútboðinu um daginn. Ég er að fara að byggja upp atvinnu til langframa á Íslandi sem kostar lítið. Þess vegna fæ ég ekki erlendar krónur á sama verði og þeir sem eiga 20 milljónir og meira.

Hér er enn eitt dæmið um hvernig þeim sem eiga mikið fjármagn er hyglað umfram þá sem eiga minna fjármagn.  Ætli sé ekki verið að mismuna þegnum á EES svæðinu með þessu?

Þegar Árni Páll Árnason, og aðrir sem ábyrgð bera á þessum lögum og þeim erfiðleikum sem þau hafa valdið tugþúsundum, fullyrða að enginn hafi verið verr settur vegna laganna hlýtur maður spyrja sig hvar þetta fólk hefur verið?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is