Sunnudagur 12.02.2012 - 22:53 - FB ummæli ()

Að stofna stjórnmálaafl … lengri leiðin

Í dag var haldinn fyrri stofnfundur nýs stjórnmálaafls sem enn hefur ekki verið gefið nafn en gengur undir vinnuheitinu „Breiðfylkingin“. Hægt er að fara ýmsar leiðir til að stofna stjórnmálaflokk og sennilega er langþægilegast að gera það í litlum hópi þar sem flestir eru sammála um áherslur, vinnubrögð og stefnumál og bjóða svo fólki að vera með. Við ákváðum að fara hina leiðina.

Upphaf þessa starfs má rekja til síðasta aðalfundar Borgarahreyfingarinnar (já hún er enn til og nei, ég er ekki í henni) þann 29. september á síðasta ári en þar var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Aðalfundur Borgarahreyfingarinnar 2011 samþykkir að fela stjórn Borgarahreyfingarinnar að óska eftir viðræðum um formlegt samstarf við Hreyfinguna og önnur öfl sem eiga málefnalega samleið með Borgarahreyfingunni og vilja berjast fyrir því að stefna hennar nái fram að ganga. Þá felur fundurinn stjórn Borgarahreyfingarinnar að styðja við starfsemi grasrótarhópa sem eiga málefnalega samleið með Borgarahreyfingunni, til dæmis með því að bjóða umræddum grasrótarhópum afnot af húsnæði Borgarahreyfingarinnar.

Um svipað leyti voru uppi hræringar meðal ýmissa grasrótarhópa og stjórnmálasamtaka, m.a. annars Hreyfingarinnar um að taka á leigu húsnæði fyrir starfið og gekk Borgarahreyfingin inn í það samstarf. Úr varð að stofnað var rekstrarfélag um Grasrótarmiðstöðina þar sem hóparnir eignuðust sameiginlegt heimili og fundarstað.

Hreyfingin ákvað að taka áskoruninni frá okkar fyrrum félögum í Borgarahreyfingunni og láta reyna á samstarf og það sama gerði Frjálslyndi flokkurinn og auk fólks héðan og þaðan líka. Skipaður var undirbúningshópur sem hittist sex sinnum og hafa ýmsir komið að því starfi. Ákveðið var að leggja drög að svokallaðri kjarnastefnu og samþykktum fyrir fyrri stofnfundinn sem haldinn var í dag. Þá var kosið bráðabirgða framkvæmdaráð sem ætlað er að bera kyndilinn fram að seinni stofnfundinum sem verður haldinn að jafndægri að vori eða í kringum 20. mars.

Kjarnastefnan er hugsuð eins og einfaldur uppdráttur að því sem sameinar okkur – því sem við erum sammála um, en auðvitað þarf að útfæra hana nánar í stefnuskrá fyrir kosningar. Það kom skemmtilega á óvart að fundurinn í dag sem var bæði fjölmennari og voru fundargestir úr fleiri áttum en við höfðum gert ráð fyrir, var í megin dráttum sammála um helstu atriði, svo sem öflugar aðgerðir í þágu  heimilanna (leiðrétting á skuldum og afnám verðtryggingar), lýðræðisumbæturnar og nýja stjórnarskrá, skipan auðlindamála og uppstokkun á kvótakerfinu og siðvæðingu stjórnsýslu og fjármálakerfisins. Þegar kom að ESB færðist hins vegar hiti í leikinn. Tillaga undirbúningshópsins lítur svona út:

Evrópusambandið:
Aðildarviðræður við ESB verði kláraðar og niðurstaðan borin undir þjóðaratkvæði. Meðal okkar eru skiptar skoðanir um ESB-aðild en við leggjum áherslu á opið og lýðræðislegt ferli, óháða upplýsingagjöf og fræðslu og treystum þjóðinni til að ráða niðurstöðunni.
Greinilegt var að sumum fundargestum fannst þessi tillaga ganga of langt í stuðningi við aðildarviðræðurnar (eða aðlögunarviðræðurnar eins og sumir vilja kalla þær). Ég er ein þeirra sem ekki hef gert upp hug minn hvað varðar ESB aðild, enda liggur samningurinn ekki fyrir enn, en ég treysti þjóðinni fullkomnlega til að meta samninginn þegar hann liggur fyrir. Ég held að þjóðin muni aldrei samþykkja samning sem afsalar okkur fiskimiðunum eða öðrum auðlindum eða leggur íslenskan landbúnað í rúst.
En við erum lögð upp í vissa óvissuferð saman og óvíst hvar hún endar en þannig er lýðræðið. Meirihlutinn ræður og samkvæmt þeim samþykktum sem við erum að vinna með þarf meira að segja aukinn meirihluta. Þau drög að lögum sem rædd voru á fundinum í dag erum mjög í anda þess hvernig Hreyfingin hefur kosið að starfa og hefur gefist ákaflega vel. Við vinnum með flatan strúktúr, enga foringja og allir hafa jafnt vægi. Við reynum ávallt að leysa öll mál með því að ræða málin þar til við komumst að samhljóða niðurstöðu eða konsensus. Atkvæðagreiðslur eru fátíðar í okkar hópi, heyra til algjörra undartekninga og ég minnist þess hreinlega ekki að þinghópurinn hafi nokkurn tímann greitt atkvæði um nokkurn skapaðan hlut. Þetta fyrirkomulag er hins vegar ekki það sem almennt tíðkast í íslenskum stjórnmálum sem gjarna hampa sterkum (og „óbrigðulum“) leiðtogum. Þó vann kvennalistinn á svipuðum nótum sem og (skilst mér) Stjórnlagaráðið. Nú er að sjá hvort nýtt afl treystir sér til að vinna með flatan strúktúr þar sem ákvarðanir eru raunverulega teknar hjá félagsmönnum öllum en ekki foringjum eða öðrum útvöldum.
Eftir daginn er ég hæfilega bjartsýn á að við komumst öll á leiðarenda saman en við erum lögð af stað. Ég ætla að vera með í ferðalaginu svo lengi sem mér sýnist það stefna í rétta átt – það er þá átt sem ég tel rétta. Og þannig er það, hver og einn þarf að gera það upp við sig hvar hann á heima, hvar hans kraftar nýtast best, hvar hans sjónarmið finna samhljóm. En ef stefnan er tekin í aðra átt þarf maður líka að hafa manndóm í sér til að geta yfirgefið rútuna með bros á vör og geta sagt, farvel, góða ferð og gangi ykkur öllum sem allra best.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is