Fimmtudagur 09.02.2012 - 17:10 - FB ummæli ()

Í fátæktargildru

Fyrir jólin barst okkur þingmönnum bréf frá ungri konu sem fannst hún föst í einhverju sem mætti kalla fátæktargildru. Bréfið fer hér á eftir, reyndar örlítið endurskoðað frá henni sjálfri frá því hún sendi okkur það fyrst. Við breyttum einnig persónugreinanlegum atriðum. Bréfið er birt með leyfi bréfritara:

Kæri þingmaður.

Núna fyrir jól hafa verið aragrúi af fréttum á flestum fréttavefjum um fólk sem á ekki fyrir jólagjöfum og jólunum í heild sinni, já og útifötum fyrir börnin sin. Ég væri í þessum hóp væri ég ekki að vinna hjá fyrirtæki sem gaf mér jólamatinn og að börnin mín eigi afa sem gaf þeim úlpur í jólagjöf. Ég er 34 ára einstæð móðir, bý í íbúð á vegum bæjarfélagsins. Þrátt fyrir það þá næ ég ekki endum saman, heima hjá mér er verslað aðra hverja viku þar sem krakkarnir mínir eru eina viku hjá mér og svo þá næstu hjá pabba sinum og þá reyni ég að vinna eins og ég get aukalega. Ég vinn tvær vinnur; vinn á leikskóla sem nýútskrifaður leikskólaliði en fæ enga launahækkun fyrir þann fína titil. Og vinn svo hjá olíufélagi í aukavinnu. Bíllinn sem ég keyri fékk ég gefins þannig að ég borga bara bensín af honum og tryggingar sem í dag er BARA mikið, því það er allt dýrt. Þið hafið gert margt til að hjálpa þeim sem voru komnir í miklar skuldir um það leytið sem hrunið skall á og svo eftir hrunið. En það er einn hópur sem hefur alveg gleymst og það er sá hópur sem ég tilheyri. Þeir sem eyddu EKKI umfram tekjur og eru EKKI með þvílíkar skuldir á bakinu. Í dag erum við því að bugast undir öllu því sem þið eruð búin að framkvæma t.d skattálögurnar sem hafa komið í allkonar formi hvort sem það sé bein skattahækkun eða í formi sköttunar á bensín, mat eða annað. Ég vinn eins og ég sagði áður tvær vinnur og er því talin of tekjuhá og borga því skatt miðað við það. Ég reyni að bjarga mér með því að vinna fyrir mér og mínum en það er tekið of mikið í skatt. Óskin mín væri að hægt væri að breyta þessu og að ég þyrfti ekki að borga skatt eins og ég sé með um eða yfir 500 þúsund á mánuði í laun. Ég þarf reglulega að kaupa mér lyf en ég kvíði fyrir því að þurfa að kaupa næsta skammt þar sem þessi fína ríkistjórn er að leggja til breytingu á þessu kerfi og ég mun borga meira fyrir lyfin en ég borga í dag.
Allt þetta fína og flotta sem á að hjálpa fólkinu sem hefur það ekki sem
best er bara ekki að hjálpa okkur. Ég sendi ykkur ágætu þingmenn og
ráðherrar póst í sumar og þeir einu sem svöruðu mér voru þeir sem eru í stjórnarandstöðu. Ég fékk meira að segja boð um fund sem ég þáði og bað þann mann um að hafa samband þegar það hentaði en ekkert hefur heyrst í viðkomandi síðan þá. Núna mun ég því bíða spennt eftir pósti á hverjum degi til að sjá hverjir skoða póstinn sinn og hverjir eru það sem láta fólkið í landinu sig varða.

Þar sem ég er föst í viðjum lágra launa sem virðist samt vera í skattkerfinu, láglaun + láglaun = há laun, þá langar mig til að fara í skóla til að hafa bara há laun. En þar sem mig vantar nokkrar einingar þá kemst ég ekki í skóla og vegna lágra launa kemst ég ekki í kvöldskóla né dagskóla til að klára þær fáu einingar sem ég á eftir að taka fyrir stúdentspróf. Ég ætlaði í hárgreiðslu í Iðnskólanum en fór ekki því Lín lánar ekki fyrir fyrstu önninni í skólanum nema þú hafir fengið lán hjá þeim áður.

Ég hef reynt að sækja um vinnu þar sem meira er borgað en hef ekki fengið, þannig að ég virðist vera föst ofan í holu og geri ekkert annað en að klóra í bakkann en kemst aldrei upp. Ég er lítil en finnst samt ekki sanngjarnt að ég horfi alltaf upp á ykkur hina þar sem ég virðist aldrei komast í ykkar hæð.
Ef maður skoðar aðeins launin mín þá er ég að fá útborgað frá leikskólanum 143,941 og úr hinni vinnunni fékk ég um 35,000 kr.  Þá á ég á eftir að borga alla reikningana mína og leigu. Ég fæ einungis meðlag með einu barni en þarf að borga meðlag á móti því annað barnið mitt er með lögheimili hjá pabba sínum. Því núllast meðlagsgreiðslurnar út. Barnabætur fæ ég fjórum sinnum á ári, síðast voru þær kr. 53.976.-. Ég greiði kr. 73,686 í húsaleigu að frádregnum húsaleigubótum. Ég fæ bara húsaleigubætur með einu barni því hitt á lögheimili hjá pabba sínum.

Það eina sem ég vil er að ég geti átt fyrir mat fyrir mig og börnin mín og borgað og keypt það sem er nauðsynlegt en í dag er það ekki hægt.

Virðingarfyllst  X

 

Ólíkt mörgum öðrum sem kastljósið hefur beinst að undanfarið er þessi kona hvorki skuldsett né atvinnulaus og tilheyrir því kannski ekki þeim hópum sem hefur verið að borga hrunið í gegnum lánin sín eða hafa misst lífsviðurværið. Ég bauð henni til fundar við mig þar sem við gætum farið yfir málin í góðu tómi.

Við hittumst í janúar. Til fundar við mig mætti þessi stelpulega, unga kona. Hún var skýr, eldklár, ákveðin, rökföst og kom vel fyrir og ef ég hefði verið að velja starfsmann hefði hún vel komið til greina og ég er sannfærð um að hún standi sig vel í starfi. Enda hefur hún ekki átt í erfiðleikum með að fá vinnu. Henni hefur bara ekkert gengið að fá mannsæmandi laun.

Lítum aðeins á aðstæður hennar:

Tekjur:

  • Útborguð laun á leikskólanum: 143.941.-, (frádráttur er samtals 82.168, heildarlaun 226.109.)
  • Útborguð laun úr aukavinnunni: 35.048. (Heildarlaunin eru kr. 73.628 en nú er vinkona okkar orðin svo „tekjuhá“, þ.e. yfir kr. 230.000 að stærstur hluti launanna fer í hærra skattþrep! Eftir skatta og gjöld stendur því minnihlutinn eftir.)
  • Barnabætur (á mánuði): 17.992
  • Húsaleigubætur: 20.981
  • Samtals til ráðstöfunar: kr. 217.965

Svo eru það útgjöldin:

  • Húsaleiga: kr. 94,667:-
  • Rafmagn og hiti: 5.374 kr
  • Nettenging: 1.360
  • Föst útgjöld eru því samtals: 101.401

Þá er allt hitt eftir. Það fara um kr. 20.000 í eldsneyti, kr. 6.000 í síma, annað eins í lyf og börnin þurfa auðvitað að klæðast og borða. Húsaleigan er vísitölutengd og hefur hækkað um 20.000.- Þegar búið er að greiða alla reikninga eru venjulega um 30-40 þúsund krónur eftir fyrir mat, þá mánuði sem barnabæturnar eru ekki greiddar út. Sem sagt, rúmur þúsund kall á dag til að klæða og fæða fjölskylduna.

Á vef Velferðarráðuneytisins er að finna reiknivél fyrir neysluviðmið. Þegar svona fjölskyldugerð er sett inn í reiknivélina kemur í ljós að dæmigerð heildarútgjöld samskonar fjölskyldu (einstætt foreldri með tvö börn aðra hvora viku) eru kr. 390.778.-. Grunnviðmið sem eru án húsnæðiskostnaðar eru kr. 154.563.- sem er um helmingi hærri upphæð en okkar kona á eftir þegar hún er búin að greiða leiguna. Skammtíma neysluviðmið – þ.e. sú upphæð sem fjölskylda á að geta skrimmt á í stuttan tíma, t.d. vegna atvinnuleysis eða tímabundins tekjutaps er kr. 280.374.- Hún er hugsuð þannig að þá geti fjölskyldan frestað, t.d. tannlæknaferðum eða heimilistækjakaupum í ákveðinn tíma á meðan ástandið gengur yfir. Þessi upphæð er þó ríflega 60.000 krónum hærri en okkar kona hefur til umráða og það er ekki tímabundið ástand.

Í samfélagi jafnaðar og tækifæra, eins og ég vildi svo gjarna að Ísland væri, myndum við varla sjá svona dæmi. Og það sem er kannski sárast er að það virðist lítil von til þess að þetta breytist í hennar tilfelli. Eins og sjá má á bréfinu hennar kemst hún vart í skóla en aukin menntun gæti veitt henni önnur og tekjuhærri störf. Og af hverju fær fólk ekki almennileg laun fyrir að vinna á leikskóla? Hana vantar bara örfáar einingar upp á stúdentsprófið en hefur ekki efni á að taka þær í kvöldskóla og kemst ekki í lánshæft iðnnám vegna þess að hana skortir grunn. Hún sagði mér að hún hefði sótt um ýmis betur launuð störf, t.d. í vaktavinnu og sjálfsagt fengið þau ef hún væri ekki með börnin sín hjá sér aðra hvora viku.

Þessi flotta, unga, hæfileikaríka og duglega kona virðist því föst í fátæktargildru, þrátt fyrir að vera í tveimur vinnum og skulda ekki neitt. Það er ekki í lagi.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is