Sunnudagur 05.02.2012 - 15:28 - FB ummæli ()

Rannsókn á lífeyrissjóðunum getur ekki verið lokið

Að mörgu leyti var það klókt hjá forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna að ganga sjálfir í að láta rannsaka sjóðina, þ.e. ef þeir hafa eitthvað að fela. Þann 28. september 2010 ályktaði Alþingi eftirminnilega um ýmis atriði sem nauðsynlega þyrfti að læra af, breyta og laga eða rannsaka betur eftir útkomu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ályktunina má lesa á bls. 15 í skýrslu þingmannanefndarinnar en hún var samþykkt 63-0. Í öðrum hluta hennar eru upptaldar þær rannsóknir og úttektir sem eiga að fara fram á vegum Alþingis (en ekki rannsóknarefnisins sjálfs):

  1. Sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi lífeyrissjóða á Íslandi frá setningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og síðar. Í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi lífeyrissjóðanna.
  2. Sjálfstæð og óháð rannsókn á aðdraganda og orsökum falls sparisjóða á Íslandi frá því að viðskipti með stofnfé voru gefin frjáls. Í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi sparisjóðanna.
  3. Stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Á grundvelli hennar verði metnir kostir og gallar þess að sameina starfsemi stofnananna í þeim tilgangi að tryggja heildaryfirsýn yfir kerfisáhættu, fjármálalegan stöðugleika og ábyrgð á samræmingu viðbragða.

Nú er farin í gang rannsókn á vegum þingsins á falli sparisjóðanna og sömuleiðis á Íbúðalánasjóði en ekkert bólar á stjórnsýsluúttekt á FME og SÍ. Forsætisnefnd ákvað að bíða með skipun nefndar um starfsemi lífeyrissjóðanna þar til eftir að ljóst væri hvað kæmi út úr þeirri úttekt sem nú hefur litið dagsins ljós. Menn geta deilt um hvort sú bið sé réttlætanleg þegar Alþingi sjálft hefur ályktað um að það sjálft skuli standa fyrir rannrókn sem skuli bæði sjálfstæð og óháð.

Úttektarnefnd lífeyrissjóðanna sjálfra var skipuð á grundvelli sjórnarsamþykktar Landssamtaka þeirra frá 24. júní 2010 og í fyrsta kafla skýrslunnar nýju er greint frá því að í kjölfar ályktunar Alþingis hafi stjórn Landssamtakanna haft samband við Alþingi og skýrt frá skipan sinnar nefndar. Um viðbrögðin segir:

Varð það að ráði að úttektarnefndin ynni sitt verkefni því ekki væri ljóst hvenær Alþingi skipaði slíka rannsóknarnefnd og talið, að úttektarnefndin hefði þá lokið störfum. (bls. 11).

Þótt ég hafi enn ekki lesið öll fjögur bindi þessara nýju skýrslu sýnist mér nefndin hafa unnið ágætt verk, miðað við þær forsendur sem hún átti að vinna út frá og hvaða heimildir hún hafði til rannsóknarinnar. Nefndin gat nefnilega „ekki gert kröfu til gagna, upplýsinga og skýringa sem ekki voru látin fúslega af hendi.“ (bls. 14). Stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, aðrir starfsmenn lífeyrissjóða, sem og endurskoðendur þeirra eru nefnilega bundnir þagnarskyldu um allt sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls, eins og það er orðað í 32 gr. laga nr. 129/1997 og helst sú þagnarskylda þótt látið sé af starfi. Það sjá allir að þessi lagagrein hlýtur að hafa torveldað störf nefndarinnar.

Í lögum nr. 68/2011 um rannsóknarnefndir Alþingis eru mun víðtækari heimildir til þess að krefjast upplýsinga eins og sjá má m.a. í 7.- 8. grein:

Öflun gagna og upplýsinga.

 7. gr. Sérhverjum, jafnt einstaklingum, stofnunum sem lögaðilum, er skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að láta í té gögn sem hún fer fram á. Með gögnum er m.a. átt við skýrslur, skrár, minnisblöð, bókanir, samninga, álit sérfræðinga og önnur gögn sem nefndin óskar eftir í þágu rannsóknarinnar, hvort sem þau eru prentuð (skrifleg) eða á rafrænu formi.
 Sömu aðilum og greinir í 1. mgr. er jafnframt skylt að verða við óskum rannsóknarnefndar um að skýra skriflega frá athöfnum sínum og svara skriflega fyrirspurnum hennar.
 Skylt er að verða við kröfu rannsóknarnefndar um afhendingu gagna og að veita upplýsingar þótt þær séu háðar þagnarskyldu. Sama gildir um upplýsingar sem óheimilt er að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra, forstöðumanns eða annars yfirmanns viðkomandi, jafnt hjá hinu opinbera sem einkafyrirtæki.
 Lögmaður, endurskoðandi eða annar aðstoðarmaður verður þó ekki krafinn upplýsinga, sem honum hefur verið trúað fyrir út af rannsókn nefndarinnar, nema með leyfi þess sem í hlut á. Ákvæði a- og b-liðar 2. mgr., 3. mgr. og 4. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, gilda enn fremur um upplýsingagjöf þeirra sem þar eru tilgreindir. Dómari sker úr um upplýsingaskyldu þeirra og verður mál af því tagi rekið skv. 5. mgr. þessarar greinar.
 Nú verður ágreiningur um afhendingu gagna, skýringa eða skriflegra svara, sbr. 1.–3. mgr., og getur rannsóknarnefnd þá leitað um hann úrskurðar héraðsdóms á grundvelli XV. kafla laga um meðferð sakamála. Lögregla skal veita nefndinni liðsinni við að framfylgja slíkum dómsúrskurði. Heimilt er að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar innan þriggja sólarhringa frá uppkvaðningu hans.
 Í þágu rannsóknar er rannsóknarnefnd heimilt að beita ákvæði 73. gr. laga um meðferð sakamála til að varna því að gögnum sé fargað og skal lögregla framfylgja þeirri ákvörðun.
 Rannsóknarnefnd á frjálsan aðgang að öllum starfsstöðvum stjórnvalda og til rannsókna á aðstæðum í þágu þess verkefnis sem henni hefur verið falið. Starfsmenn stjórnvalda og þeir aðilar sem rannsókn tekur til, sbr. 3. og 7. mgr. 5. gr., skulu láta rannsóknarnefnd í té alla nauðsynlega aðstoð vegna starfa hennar.
 8. gr. Rannsóknarnefnd getur kallað einstaklinga til skýrslugjafar og skulu þeir sem gefa skýrslu segja satt og rétt frá fyrir nefndinni. Formaður stýrir skýrslutökum en getur falið öðrum nefndarmanni það. Þá getur hann falið starfsmanni nefndarinnar eða öðrum er vinna að rannsókninni að beina spurningum að þeim sem gefur skýrslu. Taka skal upp á hljóð- eða myndband það sem fram fer við skýrslutöku eða varðveita það með öðrum tryggilegum hætti.
 Ef þeir sem kallaðir eru fyrir rannsóknarnefnd til skýrslutöku verða ekki við ósk nefndarinnar þar um getur nefndin óskað þess að héraðsdómari kveðji mann fyrir dóm til að bera vitni telji hún það nauðsynlegt í þágu rannsóknar málsins. Um kvaðningu og skýrslugjöf og aðra framkvæmd skal fara eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála eftir því sem við á. Ákveða má að skýrsla sé gefin fyrir luktum dyrum.

Af því sem ég hef lesið í skýrslunni fram til þessa sýnist mér að hún greini með trúverðugum hætti frá tapi sjóðanna, sem og óvönduðum vinnubrögðum við stjórnun, formleysi, vanhæfni, meðvirkni og annað sem er kunnuglegt úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið. Auk þess bendir hún réttilega á að það er löngu tímabært að endurskoða kerfið frá grunni. Hún fjallar hins vegar lítið um þá spillingu sem ég tel að hafi viðgengist í sjóðunum fyrir hrun og Lára Hanna gerir ágæta grein fyrir í nýrri, áhugaverðri bloggfærslu. Það er í mínum huga alveg ljóst að Alþingi ber að framfylgja eigin ályktun og skipa sjálfstæða og óháða rannsóknarnefnd um lífeyrissjóðina. Menn eiga ekki að komast upp með að rannsaka sjálfa sig og láta þar við sitja.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is