Fimmtudagur 02.02.2012 - 16:07 - FB ummæli ()

Hvað varð um peningana hans afa?

Stundum berast mér athyglisverð bréf. Hér á eftir fer eitt þeirra, birt með leyfi bréfritara og afa hans:

Afi minn var að verða 70 ára og fer nú á ellilífeyri. Afi hefur alltaf hugsað um peningana sína og þarf ekki að hafa áhyggjur. Þannig að áður en ég held áfram þá vil ég láta strax vita að ég er ekki að kvarta.

Við erum skyldug til að borga í lífeyrissjóð. Við þykjum ekki nægilega skynsöm til að leggja sjálf til hliðar eins og Bandaríkjamenn. Og ég nefni þau því langafi og amma eru Bandarísk og afi (eða langafi) vildi bara gera þetta sjálfur. En nei, borga í sjóð sem sér um að ávaxta peninga fyrir mann þannig að við „þurfum“ ekki að gera þetta sjálf.

Afi hefur unnið sömu vinnuna alla sína starfsævi og á alla launaseðla frá því hann var 11 ára þegar hann byrjaði að vinna. Hann hefur samtals borgað í lífeyrissjóð rétt tæpa 31 milljón króna. Ég er hagfræðingur og búinn að núvirða til að mynda það sem borgað var fyrir gjaldfellingar og þess háttar. Þetta er peningur sem var tekinn af hans launum og „geymdur“ fyrir hann því íslenska ríkið treystir honum ekki til þess að gera það sjálfur. 31 milljón plús allir vextirnir sem lífeyrissjóðurinn hefur skaffað honum hlýtur að koma sér vel. En sjáum til!

Núna skoðum við þetta skattfrjálst: Hann fær útborgað 80.000 kr. á mánuði!!! Til þess að fá allt sem hann hefur greitt til baka þarf hann að lifa þangað til hann verður 103 ára. Þannig að hann spurði lífeyrissjóðin hve lengi er reiknað með að hann lifi , eða hvernig þetta sé reiknað. Fimmtán ár er svarið! Þannig að hann er að fá kr. 14.400.000.- miðað við þeirra útreikning. Hann spurði þá hvar restin væri og svarið er að þetta sé það sem hann á. Það koma upp- og niðursveiflur.

Burtséð frá vöxtum og þess háttar; Hvernig er hægt að taka X mikið af einhverjum en svo ekki borga þetta X til baka, heldur minna? Hann spurði hvort það væri hægt að fá þetta í eingreiðslu og já en þá væri tekin þóknun og hann gæti fengið 11.000.000 í eingreiðslu! Það er EINN ÞRIÐJI af því sem hann hefur borgað í sjóðinn í gegnum tíðina. Aftur segi ég, þetta er peningur sem afi var skyldugur til að borga en ef hann hefði lagt þetta sjálfur til hliðar þá væri hann að fá ALLA fjárhæðina auk vaxta núna. Hann væri að vísu búinn að borga fjármagnstekjuskatt alla sína ævi en þetta væru kr. 48.000.000.- sem hann ætti í dag hefði hann lagt peningana inn á lágvaxtabók í stað þess að greiða í lífeyrissjóð.

Við hins vegar vitum að ellilífeyrir er skattskyldur þannig að hann væri ekki að fá allan þennan pening sem ég nefndi að framan, 11 milljónirnar væru til að mynda bara útgreiddar 9 milljónir og svo mætti lengi telja. Sem betur fer dó afi ekki því þá hefði amma bara fengið fyrir skatt 7.000.000 eða rétt um EINN FIMMTA af því sem afi er búinn að borga.

Ég spyr því: er það sanngjarnt að tekið sé af okkur fé þegar það er ekki hægt að tryggja að við fáum þó ekki væri nema BARA til baka það sem við höfum nú þegar borgað?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is