Miðvikudagur 01.02.2012 - 18:57 - FB ummæli ()

75% bilun

Um daginn, þegar fréttir bárust að menguðum áburði, iðnaðarsalti og -sílikoni og ýmsu fleiru, skrifaði ég færslu hér á bloggið undir fyrirsögninni „Er Ísland ónýtt?“ Færslan fór víða og margir tóku undir með mér, þótt einstaka hafi móðgast og tekið þessu fullpersónulega og fundist ég eiga að segja af mér þingmennsku og sækja endurmenntun til útlanda. Ég sé hinsvegar engan tilgang með því að kóa með ónýtu kerfi. Ef hlutirnir eru ekki í lagi þarf að laga þá. Ef þeir eru algjörlega gangslausir og ónýtir eigum við að henda þeim og byrja upp á nýtt.

Í hruni felast tækifæri til uppbyggingar á samfélaginu í þeirri mynd sem við viljum sjá það. Þess vegna var ég frekar ánægð til að byrja með með að fá vinstri stjórn eftir 18 ára valdatímabil Sjálfstæðisflokksins sem endaði með ósköpum. Ég gerði nefnilega ráð fyrir að nú yrði byrjað með hreint borð og farið í að bæta og breyta. Við gætum t.d. breytt fiskveiðistjórnunarkerfinu, tekið upp alvöru gjaldmiðil, sett okkur nýja stjórnarskrá, leiðrétt lán heimilanna og losað okkur við verðtrygginguna. Vissulega er ekki útilokað að þessu verði öllu lokið vorið 2013 þegar næstu kosningar verða ef áætlun stenst og ég mun halda áfram að gera mitt besta til að ýta öllum góðum málum áleiðis. Ég verð þó að viðurkenna að ég er að verða ansi þreytt á biðinni eftir Nýja Íslandi.

Hluti af skýringunni, að mínu mati er, að menn ráðast ekki til atlögu við kerfið. Og það var kerfið sem brást þegar Ísland hrundi þótt persónur og leikendur hafi verið fleiri og hlutverkin misstór.

Í gær birtist frétt hér á Eyjunni af því að aðeins tvær til þrjár af þeim átta öryggismyndavélum sem staðsettar eru í miðborg Reykjavíkur virka. Hinar eru bilaðar og því dæmi um hið falska öryggi sem felst í ónýtu eftirlitskerfi. Nú er ég ekki endilega sérlega hrifin af því að saklausir borgarar séu myndaðir í bak og fyrir á ferðum sínum um borgina en þetta er dæmi um kerfi sem virkar klárlega ekki nema svona 25%. 75% af öryggiskerfinu er nefnilega bilað. Og öryggismyndavélunum var ætlað að koma í staðinn fyrir virkt eftirlit alvöru lögreglumanna.

Í gærmorgun kom svo upp enn eitt dæmið um að fara þarf vel yfir alla verkferla þegar kemur að öryggi. Sprengja sprakk snemma morguns í nágrenni stjórnarráðsins. Rúv gerði þessu nokkuð góð skil í kvöldfréttunum sem jafnaðist á við meðal áramótaskaup. Lögreglan mætir ekki á staðinn fyrr en löngu eftir að sprengjan sprakk og byrjar á að gramsa í þessu nánast á sokkaleystunum áður en þeir átta sig á alvöru málsins. Og ríkisstjórnin er látin funda inni á afgirtu svæðinu á meðan lögreglan dundar sér með fjarstýrða bílin og fínu búningana. Vanhæf ríkisstjórn og allt það en er þetta ekki einum of? En það er búið að skipa nefnd til að fara yfir öryggismál stjórnarráðsins! Vei!

Það getur verið að kerfið sé ekki allt ónýtt en sennilega eru 75% af því ekki í lagi.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is