Þriðjudagur 31.01.2012 - 22:48 - FB ummæli ()

Fúsk hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands

Eitt af því sem ég lærði í háskóla, jafnvel þótt ég stundaði þar aðallega nám í hugvísindum, var hvernig fara bæri með heimildir og gögn. Slíkt er nefnilega mismerkilegt og þegar upplýsingar koma frá hagsmunaaðilum ber að taka þeim með fyrirvara.

Við vitum að fyrir hrun gerðu fyrirtæki og hagsmunasamtök atvinnulífsins töluvert af því að panta skýrslur um allt mögulegt sem studdu málstað þeirra sjálfra. „Fræðimönnum“ og stofnunum var þá greitt fyrir að vinna álit upp úr gögnum sem þeir fengu frá þeim sem pantaði það. Sumir hafa notað hugtakið akademískt vændi yfir þess konar vinnu. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, nánar tiltekið 8. bindinu eða siðfræðihlutanum er að finna harða gagnrýni á háskólasamfélagið fyrir hrun sem og fjölmiðla. Bent er á skýrslur sem háskólaprófessorar gerðu fyrir Viðskiptaráð Íslands fyrir háar fjárhæðir um fjárhagslegan stöðugleika á landinu. En dæmin eru fleiri og margslungnari. Miklar kröfur eru á háskóla, ekki bara hér á landi heldur víða um heim að virkja fleiri tekjustofna og þá er veruleg hætta á hagsmunaárekstrum og að fræðimenn fari að ástunda sjálfsritskoðun, þori sem sagt ekki að setja fram skoðun sem ekki var kostunaraðilum þóknanleg og jafnvel ekki heldur skoðun sem ekki væri hugsanlegum framtíðarkostunaraðila að skapi. Fyrir hrun voru það bankarnir  sem ekki mátti styggja en könnun á fjárveitingum frá þeim til háskólanna á árunum 2003-8 leiddi í ljós að Háskóli Íslands hafði þegið 121 milljón króna frá fjármálafyrirtækjunum, HR 142 milljónir, auk 55,6 milljóna í nemendastyrki, HA þáði 31 milljón og 5 að auki í nemendastyrki. Háskólinn á Bifröst hafði gert samninga við alla bankana sem hefði fært þeim 90 milljónir á þremur árum en aðeins fyrsta greiðslan upp á 10 milljónir hafði borist fyrir fall bankanna. Þótt þessir styrkir hafi ekki verið stór hluti af heildarkökunni ógnuðu þeir bæði sjálfstæði skólanna sem og einstakra fræðimanna. (Bls. 112).

Erfiðast er þó að henda reiður á og uppræta þöggunina, sjálfsritskoðunina og meðvirknina. Mér finnst margt benda til þess að ástandið hafi ekki batnað svo heitið geti. Eini munurinn er nú að stóri skýrslukaupandinn er ekki atvinnulífið heldur ríkið. Og enn þorir enginn að rugga bátnum. Allir hafa fyrir fjölskyldu að sjá, þurfa að greiða næstu afborgun af stökkbreytta láninu sínu og það er öruggara að þegja. Annars áttu á hættu að missa bitlingana; nefndarsetuna, skýrslugerðina eða hvað það nú er sem heldur þér á floti.

Þann 1. október afhenti Andrea Ólafsdóttir formaður Hagsmunasamtaka heimilanna Jóhönnu Sigurðardóttur undirskriftalista með undirskriftum 33.525 einstaklinga sem vildu gera kröfur HH að sínum en krafan er svohljóðandi:

Í nafni almannahagsmuna krefjumst við undirrituð almennra og réttlátra leiðréttinga á stökkbreyttum lánum heimilanna og afnáms verðtryggingar.

Hafi stjórnvöld ekki orðið við þessari kröfu fyrir 1. janúar 2012 jafngildir undirskrift mín kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um kröfugerðina.

Með undirskriftalistanum fylgdu fjórar mismunandi leiðir til leiðréttinga frá Hagsmunasamtökunum.

Þann 4. október 2011 gefur forsætisráðherra það út að nú skuli kalla saman sérfræðingahópinn frá árinu áður til að meta hvert svigrúmið sé eitt skipti fyrir öll eins og sjá má á fréttatilkynningu frá ráðuneytinu. Þar kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Samtökum fjármálafyrirtækja hafi bankarnir afskrifað 144 milljarða frá hruni. Það vissum við öll sem höfum fylgst með þessu en þegar rýnt er nánar í töluna má sjá að ekki er um raunverulega afskrift nema að litlu leyti. Langstærsti hlutinn er ránsfengur vegna gengistryggðra lána sem höfðu verið dæmd ólögmæt eða um 120 milljarðar, þá kröfur sem eru óinnheimtanlegar að miklu leyti sem hafa verið afskrifaðar með 110% leiðinni (höfum það hugfast að til er 100% leið og hún heitir gjaldþrot) og minnsti hlutinn vegna sértækrar skuldaaðlögunar sem eru kannski einu raunverulegu afskriftirnar. Ég hef reyndar efast um að bankarnir hafi í raun og veru afskrifað svo mikið vegna gengistryggðra lána og lagði fram fyrirspurn á þinginu um það en var svarað með skætingi að upplýsingum um svona smámuni væri ekki haldið saman.

Svo fór að sérfræðingahópurinn var ekki kallaður saman en verkefninu komið fyrir hjá Hagfræðistofnun Háskólans og var henni einnig falið að meti þá kosti sem Hagsmunasamtökin höfðu lagt til. Og afraksturinn er þessi umdeilda skýrsla sem nú hefur litið dagsins ljós þremur og hálfum mánuði síðar.

Ýmsir hafa orðið til þess að gagnrýna skýrsluna bæði í ræðu og riti. Einna ítarlegastir eru þeir Marinó G. Njálsson hér og hér  og Ólafur Arnarsson.

Eins og áður sagði lærði ég aðallega hugvísindi en ekki tölur en ég sé ekki betur en að gagnrýni Marinós á tölurnar eigi fyllilega rétt  á sér og sömuleiðis ádrepa Ólafs. Þau atriði sem ég get ekki betur séð en að séu grundvallarmistök eru nokkur. Í fyrsta lagi sú staðreynd að á síðu 11 er sama tilkynning frá Samtökum fjármálafyrirtækja og minnst er á í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá 4. október tekin góð og gild sem heimild um svigrúm bankanna til afskrifta. Eftir allt sem á undan er gengið trúi ég ekki orði frá þessum félagsskap. Samkvæmt forsætisráðherra þann 4. október var ástæðan fyrir skýrslugerðinni að komast að raunverulegu svigrúmi fjármálafyrirtækja. Á dauða mínum átti ég von en ekki því að eftir þriggja og hálfsmánaðar bið myndi Hagfræðistofnun birta gagnrýnislaust sömu tilkynningu og skýrslukaupandinn sjálfur biður um að sé rannsökuð án  þess að gera nokkra tilraun til að rannsaka hana. Málið í hnotskurn er að SFF leggja fram tölu og segja að svigrúmið sé uppurið. Hagsmunasamtökin, ég og margir fleiri segjast ekki trúa þessu enda séu upplýsingar sem sýni fram á annað meðal annars í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna. Hagfræðistofnun er fengin til að sannreyna tölurnar og eftir dúk og disk birta þeir fréttatilkynningu frá SFF í skýrslu og þá á hún allt í einu að vera orðin heilagur sannleikur!

Annað sem mér finnst verulega ámælisvert eru lagatúlkanir Hagfræðistofnunar sem hljóta að liggja utan sérsviðs hennar. Reyndar er þetta ekki í eina stofnun Háskólans sem tekur að sér lagatúlkun, skuldara í óhag, því Umboðsmaður skuldara vildi láta kanna endurútreikning gengistryggðra lána. Það var einkum tvennt sem þurfti að skoða, útreikningarnir sjálfir og svo lögmæti afturvirkra vaxtaútreikninga, í sumum tilfellum langt aftur í tímann samkvæmt lögum 151/2010. Málið var brýnt og því var skammur tímafrestur gefinn. Lagastofnun HÍ treysti sér ekki til að taka málið út á þessum stutta tíma en Raunvísindastofnun HÍ lét slag standa og gaf þessu öllu saman heilbrigðisvottorð sem stjórnvöld hafa flaggað við ótal tækifæri. Í nýju skýrslunni má lesa um efasemdir Hagfræðistofnunar á lögmæti þeirra leiða sem Hagsmunasamtökin leggja til.

Þá stendur eftir sú lykilspurning algjörlega án þess að reynt sé að glíma við hana: Hvað kostar að gera ekki neitt? Hvað kostar óbreytt ástand? Hvað kostar það samfélagið að 60.000 heimili séu tæknilega gjaldþrota? Svar óskast!

Í mínum huga hefur Hagfræðistofnun misst allan trúverðugleika sinn. Kannski mun hún fá aukin verkefni frá ríkinu í kjölfarið enda hefur sýnt sig að stjórnvöld geta stólað á að fá þær niðurstöður sem þeim hentar. Næsta skref hjá mér er að leggja fram fyrirspurn í þinginu um þá upphæð sem forsætisráðuneytið reiddi af hendi fyrir herlegheitin.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is