Þriðjudagur 24.01.2012 - 20:44 - FB ummæli ()

Enn af sorglegum örlögum þingmannamála

Síðustu helgi setti ég niður nokkur orð um örlög flestra þingmannamála; Sum komast aldrei til umræðu og því ekki heldur til nefndar í kjölfarið en þau sem eru svo heppin að fást rædd daga iðulega uppi þegar í nefndina er komið. Þau eru þó venjulegast send strax til umsagnar eftir 1. umræðu og stöku eru rædd eitthvað í nefndinni. Örfá komast í gegnum nálaraugað og eru samþykkt, jafnvel þótt þau séu sett fram af minnihlutanum. Hreyfingin hefur t.d. komið tveimur málum í gegnum þingið. Mér skilst að þetta sé mikil framþróun því hér á árum áður hafi það nánast verið ógerningur fyrir þingmann í stjórnarandstöðu að koma þingmáli í gegnum þingið. Sagan segir að á sínum 10 árum í stjórnarandstöðu hafi VG ekki komið nema einu máli í gegn, banni á umskurði kvenna (hver gæti svo sem verið á móti því?) og það með breytingartillögu við stjórnarfrumvarp en flokkurinn hafði áður lagt fram þingmál um sama efni. Ég hef reyndar ekki rannsakað þetta og sel söguna því ekki dýrara en ég keypti hana en eitthvað hlýtur þingið þó að hafa skánað.

Eftir birtingu bloggfærslunnar minnar var mér bent á stutt myndskeið sem geymir klippur úr gömlum þætti af Silfri Egils frá 9. mars 2008 og fréttum RÚV 10. september sama ár. Þar er verið að fjalla um vinnubrögð á þinginu nokkrum mánuðum og vikum fyrir hrun, þingmannamál sem aldrei komast á dagskrá og tekið sem dæmi mál sem Valgerður Bjarnadóttir, þá varaþingmaður en nú formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafði lagt fram um eftirlaunalögin alræmdu (gjarna kölluð „eftirlaunaósóminn“) sem samþykkt voru árið 2003. Markmið frumvarps Valgerðar var að gera lífeyriskjör alþingismanna, ráðherra og hæstaréttardómara aftur jafnsett lífeyriskjörum annarra ríkisstarfsmanna (jafna þarf lífeyrisréttindi allra landsmanna og endurskoða kerfið í heild en það er önnur saga).

Þetta myndband varð til þess að ég fór að grúska. Valgerður mælti fyrir málinu sínu 2. nóvember 2007, nokkrum dögum eftir að því hafði verið útbýtt. Þess má geta að varaþingmenn fá mál sín oft á dagskrá fyrr en aðrir enda afplána þeir vistina á Alþingi gjarnan stuttan tíma í einu og geta því ekki beðið endalaust. Í þetta sinn sat Valgerður á þingi í október og nóvember 2007. Að lokinni fróðlegri umræðu var málinu vísað til allsherjarnefndar.

Svo leið tíminn og komið var fram í mars árið 2008. Þá var Valgerður aftur á þingi og fór að grennslast fyrir um örlög málsins. Þann 4. mars tók hún til máls undir dagskrárliðnum „störfum þingsins“ (einnig þekktur undir heitinu „hálftími hálfvitanna“) og spurði þáverandi formann allsherjarnefndar, Birgi Ármannsson sem nú er annar af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hvað væri að frétta af málinu í nefndinni. Í fyrri ræðu sinni segir hún meðal annars:

Þann 2. nóvember sl. talaði ég fyrir þingmáli nr. 155, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Frumvarpið er um að lífeyriskjör þessa fólks verði færð til sama vegar og lífeyriskjör starfsmanna ríkisins. Ég er gjarnan spurð um framgang frumvarpsins og hef svo sem engu getað svarað öðru en því að málinu hafi verið, eins og formið gerir ráð fyrir, vísað til allsherjarnefndar. Mig langar því að biðja hv. þm. Birgi Ármannsson, formann allsherjarnefndar, að leysa úr þessum vandræðum mínum og spyrja hann um framgang frumvarpsins í nefndinni sem hann stýrir. Mér þætti t.d. fróðlegt að vita hve oft frumvarpið hafi verið rætt í nefndinni, hve mörgum hafi verið sent það til umsagnar, hvort umsagnir hafi borist og í hvaða anda þær eru. Einnig er forvitnilegt að vita hvort hugmyndir hafi komið fram í nefndinni um einhverjar breytingar á frumvarpinu.

Í fyrri ræðu sinni segir Birgir:

Því er til að svara varðandi málareksturinn að öðru leyti að frá því að málið var sent til umsagnar hefur það ekki verið tekið á dagskrá aftur í allsherjarnefnd, ekki frekar en önnur þau fjölmörgu þingmannamál sem til nefndarinnar hafa borist á þessu þingi. Ég held að ég fari rétt með að 33 mál, mest lagafrumvörp en einnig nokkrar þingsályktunartillögur, hafi komið til nefndarinnar í vetur og eins og venja hefur verið í nefndum þingsins hefur forgangsröðunin verið með þeim hætti að stjórnarfrumvörp og eftir atvikum frumvörp sem hafa komið frá forsætisnefnd þingsins eða formönnum þingflokka hafa fengið forgang í störfum nefndarinnar og þannig er staðan.

Í seinni ræðunni lýsir Valgerður vonbrigðum sínum og ber málið saman við annað mál um kjarabætur þingmanna sem hafði verið rætt:

Ég hlýt að lýsa vonbrigðum mínum með að málinu hafi ekki þokað áfram í nefndinni. Í umræðum sem fram fóru hér þingsal í síðustu viku og í gær um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað er ljóst að allsherjarnefnd hefur nægan tíma til að fjalla um kjör ráðamanna, þ.e. þegar á að bæta þau.

Ekki gefst þó tími til að færa kjör þessa hóps aftur til þess sem er líkara því sem gerist meðal fólksins í landinu. Það finnst mér ekki gott afspurnar.

Og Birgir svarar m.a. með þessum orðum:

Eins og ég gerði grein fyrir í fyrri ræðu minni höfum við fylgt þeirri vinnureglu í allsherjarnefnd að taka mál til afgreiðslu ekki í þeirri röð sem þau berast nefndinni heldur höfum við sett í forgang þau mál sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa staðið saman að. Það er ekkert óeðlilegt í ljósi þess að stjórnarfrumvörp sem slík eru flutt með atbeina og atfylgi meiri hluta þingsins. Fyrirfram má því ætla að þau njóti víðtækari stuðnings í þinginu en önnur mál.

Fleiri þingmenn tjáðu sig um málið í sömu umræðu, svo sem Siv Friðleifsdóttir, Ellert B. Schram og Helgi Hjörvar og má bæði lesa og hlusta á ræður þeirra á vef þingsins.

Frétt um málið birtist sama dag á Vísi.

Formanni allsherjarnefndar í aðdraganda hrunsins fannst sem sagt eðlilegt að þingmannamál kæmu í besta falli seint til umræðu í þingnefndum eða jafnvel alls ekki. Nú er spurningin hvort þessum sama þingmanni, Birgi Ármannssyni, finnist það forgangsmál í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að taka þingmannamál Bjarna Benediktssonar til afgreiðslu í nefndinni?

Eftirlaunaósóminn var hins vegar afnuminn stuttu eftir hrun en því miður ekki afturvirkt þannig að þeir ráðherrar sem höfðu áunnið sér margföld lífeyrisréttindi í samanburði við aðra ríkisstarfsmenn  héldu þeim.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is