Laugardagur 21.01.2012 - 20:14 - FB ummæli ()

Hin sorglegu örlög þingmannamála

Því hefur verið haldið fram að það hefði verið ólýðræðislegt að vísa tillögu Bjarna Benediktssonar um syndaaflausn hans ástkæra fyrrum formanns FLokksins frá. Ég verð að viðurkenna að það er örlítið til í því og þau rök ættu fullkomnlega við ef þetta væri nú þannig að þingmenn leggðu inn þingmál og að þau væru rædd í þinginu í þeirri röð sem þau bærust og fengju svo málefnalega umræðu í nefndum þingsins. En þannig er það ekki, ja hreinlega bara alls ekki.

Hefð hefur skapast fyrir því að hver þingflokkur megi í upphafi þings (nýtt þing er sett 1. október ár hvert) leggja fram þrjú forgangsmál og eiga þau að njóta forgangs í þinginu, komast til umræðu á undan öðrum. Og maður hefur lært að til þess að auka líkurnar á að koma málum á dagskrá er eins gott að leggja þau fram eins fljótt og auðið er. Þá hugsanlega fást þau rædd og eru send til nefndar. Nefndir senda málin svo til umsagnar og samkvæmt nýju þingskaparlögunum sem tóku gildi 1. október s.l. birtast umsagnirnar jafnóðum á vef þingsins. Það er risastökk fram á við því áður urðu umsagnirnar ekki opinberar fyrr en nefnd tók mál til umræðu sem hún í flestum tilfellum, þegar um þingmannamál var að ræða, gerði alls ekki. Umsagnirnar birtust því aðeins þingmönnunum sjálfum sem gátu notað þær til að betrumbæta málin sín fyrir næstu umferð því öll þingmál sem ekki hljóta afgreiðslu falla niður þegar nýtt þing er sett 1. október og þá geta menn lagt þau fram aftur.

En ættum við ekki bara að þakka fyrir að fá þrjú forgangsmál? Þau hljóta nú að komast til umræðu fljótt og vel eða hvað? Ef það væri nú svo gott. Eitt þeirra þriggja sem við í Hreyfingunni lögðum fram hefur t.d. enn ekki komist til umræðu. Og tvö þingmál sem ég lagði fram löngu fyrir jól er enn órædd í þinginu. Svo vill til að ég lagði þau fyrst fram á síðasta þingi en þau komust aldrei til umræðu og því síður til nefndar þá. Síðasti dagur til að leggja fram þingmál sem eiga að fást rædd fyrir jólahlé er samkvæmt starfsáætlun 30. nóvember. Útbýtingardagur tillögu Bjarna var 16. desember og samtímis kom fram krafa um að málið yrði afgreitt fyrir jól! Og þá fauk nú í ýmsa. Einn þingmaður sagði að Bjarni mætti svo sem alveg leggja tillöguna fram en þetta ætti að vera eins og við skíðalyfturnar, hann ætti bara að fara með tillöguna aftast í röðina. Og ég er sammála því.

Það liggja nefnilega fyrir fjöldi góðra þingmála frá óbreyttum þingmönnum, t.d. um leiðréttingu á skuldum heimilanna, afnám verðtryggingar, lýðræðisvæðingu lífeyrissjóða, ný fiskveiðistjórnunarkerfi, afnám stimpilgjalds, stofnun Þjóðhagsstofu, lækkun skatta á smokka og þjóðaratkvæðagreiðslur svo eitthvað sé nefnt. Fengju þessi þjóðþrifamál framgöngu í þinginu og yrðu kláruð gætu það orðið þjóðinni til góðs. En sú almenna kurteisi sem gildir á skíðasvæðunum gildir ekki á Alþingi. Þar ákvað hin pólitíska yfirstétt að nauðsynlegt sé að komast hjá því með öllum ráðum að stjórnmálamenn bæru ábyrgð á gerðum sínum. Því var samið um að bæta heilum degi við starfsáætlun þingsins til að ræða tillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun ákæru á Geir H. Haarde. Það mál var tekið fram fyrir öll hin sem flest varða almannahagsmuni. Nú er það mál komið inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hún hefur þegar skipulagt tíma sinn fram í febrúar. Ekki ómerkara mál en ný stjórnarskrá lýðveldisins er á dagskrá og svo eigum við eftir að fara í gegnum stóran stafla af skýrslum frá Ríkisendurskoðun. Ég legg til að tillaga Bjarna Benediktssonar fari aftast í röðina.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is