Föstudagur 20.01.2012 - 17:49 - FB ummæli ()

Hið undarlega samhengi hlutanna

Stundum eru hlutirnir allt öðruvísi en þeir líta út fyrir að vera.

Nú eftir hádegið var framinn gjörningur hér á Austurvelli. Stórum steini hefur verið komið fyrir á vellinum sem á að vera minnisvarði um borgaralega óhlýðni og nefnist Svarta keilan. Verkið er eftir andófslistamanninn Santiago Sierra sem vappaði í kringum steininn og sló í fleiga og boraði á hann göt. Að lokum kom hann fyrir svartri keilu í bergið. Nokkur hópur mætti á gjörninginn í snjókomunni; listamenn, safnstjórinn og fleira fínt fólk. Ég fylgdist með öðru hvoru út um glugga hliðarherbergis þingsalarins og verð að viðurkenna að ef ég hefði ætlað að fremja þennan gjörning hefði ég æft mig í að sveifla sleggju fyrir fram, mér sýndist hann vera hálfmáttlaus. Á meðan á þessu stóð gekk okkar eigin stórkostlegi andófslistamaður Helga Björk Magnúsdóttir Grétudóttir framhjá með logandi spýtu í annarri hendi en dreifði brauði með hinni. Á eftir henni gekk hópur af gæsum sem hún hefur tamið í frostinu í vetur.

Helga Björk stendur fyrir andófsgjörningum næstum daglega hér við Austurvöllinn sem hún leggur oft mikla hugsun og vinnu í og oft eru þeir stórkostlegir. Hún hefur ekki aðeins tamið gæsir heldur einnig máva sem fylgdu henni um allt höfuðborgarsvæðið, hún hefur skreytt Icesave jólatré og borgað reikninga í Intrum með fullar fötur af  krónu peningum dag eftir dag og verið handtekin fyrir framan stjórnarráðið fyrir að gefa mávum brauð. Yfirleitt hanga einhver ummerki um þetta merka andófsstarf hér við Austurvöllinn til að minna okkur á að samfélagið okkar er ekki í lagi. Þó er sennilega langt í að Listasafn Reykjavíkur bjóði Helgu Björk velkomna.

Hér inni á þinginu fer fram annar gjörningur, nú þegar akkúrat þrjú ár eru liðin frá því að við stóðum hér fyrir utan húsið og lömdum í potta og pönnur af því að við gátum ekki annað. Ég mun aldrei gleyma þeirri tilfinningu að standa fyrir utan sjálft Alþingi með hjartað fullt af sorg vegna þess að allt sem við höfðum byggt tilveru okkar á hér norður í ballarhafi reyndist vera lygi. Allir brugðust okkur. Viðskiptalífið klárlega og nú sjáum við fyrstu ákærurnar í þeim málum koma fram eftir langa bið. Eftirlitsstofnanir brugðust einnig og fréttir síðustu vikna um iðnaðarsalt, gallaða brjóstapúða og kadmíum-áburð sýna okkur svart á hvítu að ekkert hefur skánað í þeim efnum. Og stjórnmálamennirnir brugðust. Hrapalega. Og mér sýnast þeir lítið hafa skánað. Inni á milli er vel meinandi fólk sem virkilega vill vinna að almannahag en meirihlutinn virðist staðráðinn í að viðhalda samtryggingunni.

Sú tillaga sem Bjarni Benediktsson hefur lagt fram og rædd er einmitt í dag á degi byltingarinnar er bein ögrun við alla sem vilja uppgjör, alla sem vilja réttlæti. Ef hún verður samþykkt hér í dag er það staðfesting á því að valdastéttin er ósnertanleg. Skrílinn má ákæra, jafnvel fyrir árás á Alþingi en hin pólitíska yfirstétt Íslands er ósnertanleg.

En rétt eins og þegar kemur að því hverjir eru andófslistamenn og hverjir ekki þá eru þeir sem raunverulega standa að baki þessari tillögu fleiri en Bjarni einn og tilgangur þeirra er ekki endilega sá að leysa Geir úr viðjum Landsdóms. Hér er djarft teflt til að viðhalda ákveðnu jafnvægi órólegra deilda inni í stjórnarflokkunum. Sumir segjast hafa skipt um skoðun eftir að hafa verið þjakaðir af samviskubiti en aðrir segjast ekki hafa skipt um skoðun en vilja að málinu sé vísað til nefndar undir yfirskyni lýðræðisástar þrátt fyrir að örlög yfirgnæfandi meirihluta þingmannamála sé að sofna í nefnd. Svo er bara spurning hvort taflmennirnir haldist uppi á taflborðinu eða hrynji niður á gólf.

Til hamingju með þriggja ára afmæli búsáhaldabyltingarinnar, eða þannig.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is