Þriðjudagur 17.01.2012 - 17:59 - FB ummæli ()

Staðgöngumæðrun

Nú er þing komið saman aftur eftir jólahlé með tilheyrandi uppþotum og umróti eins og landsmenn hafa sjálfsagt tekið eftir.

Mér finnst bæði athyglisvert og afhjúpandi að þessi fyrsta vika þingsins er undirlögð málum frá Sjálfstæðisflokknum og er þingleg meðferð þeirra hluti af samkomulagi um þinglokin fyrir jólin. Í dag er til umræðu mál sem formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram um staðgöngumæðrun, mál sem varðar ef til vill 0-5 fjölskyldur á ári og á föstudaginn mun þingið ræða tillögu Bjarna Benediktssonar er varðar einn mann. Gerast sérhagsmunirnir sértækari?

Á meðan eru íbúar landsins að kljást við skuldavanda sem þingið hefur enn ekki tekið á með fullnægjandi hætti og langtíma atvinnuleysi. Hefði ekki verið nær að ræða þau mál á þinginu í dag?

Eina mál dagsins í dag, fyrir utan óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra er þó auðvitað allrar athygli vert. Þetta er viðkvæmt mál og vandmeðfarið og stútfullt af siðferðislegum álitaefnum.

Ég verð að viðurkenna að það eru ýmis sjónarmið sem takast á í hausnum á mér í þessu máli. Ég velti því til að mynda fyrir mér hvort það sé skýlaus réttur allra að eignast barn. Er það eitthvað sem samfélaginu okkar finnst vera orðin sjálfsögð mannréttindi?

Ég velti líka fyrir mér hugtakinu „velgjörð“ en þingsályktunin snýst um staðgöngumæðrun í svokölluðu velgjörðarskyni. Ég efast ekki um að til séu konur sem myndu vilja ganga með börn annarra hjóna eða barn fyrir systur eða vinkonu. Reyndar þekki ég konur sem hafa lýst því yfir af einlægni í mín eyru. En það eru líka til konur sem ættu erfitt með að segja nei við systur, frænku, vinkonu eða jafnvel dóttur þótt þær treysti sér í raun hvorki líkamlega né andlega í þann pakka. Hvar er velgjörðin stödd þá?

Umræðan um staðgöngumæðrun hefur mikið snúist um sölu á konum, börnum og kvenlíkamanum. Í þá umræðu ætla ég mér ekki hér og nú en vil ítreka að hún er ekkert grín. Þau sjónarmið ber okkur að taka alvarlega.

Í lok síðasta sumars átti ég ágætan fund með fulltrúum Staðgöngu sem er áhugafélag um staðgöngumæðrun og hlýddi á þeirra sjónarmið sem ég hef samúð með. Í desember átti ég svo annað athyglisvert samtal við íslenska konu sem hafði tekið að sér það hlutverk að verða staðgöngumóðir. Þessi kona svaraði auglýsingu íslenskra hjóna og fór með þeim í nokkur skipti til útlanda vegna þessa. Í eitt skiptið tókst frjóvgun en meðgöngunni lauk reyndar nokkrum vikum síðar með fósturláti.

Ástæður þessarar konu voru hennar eigin og engin velgjörð við einn né neinn. Hún átti eitt barn fyrir en engan mann og huggði ekki á frekari barneignir. Barnið sem hún átti fyrir fæddist fyrir tímann og ástæðan fyrir því að hún tók verkefnið að sér var að hana sjálfa langaði að ljúka heilli meðgöngu. Þessari konu fannst hugmyndin um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni fjarstæðukennd. Hún gat alls ekki hugsað sér að ganga með barn fyrir einhvern sér nákominn – henni fannst þetta eiga að vera hreinræktað viðskiptasamband á milli fullorðins fólks.

Þetta samtal fékk mig til að hugsa málið frá öðru sjónarhorni en áður. Það er nefnilega svo margt í þessu, mörg sjónarmið sem enn hafa ekki verið fullreifuð og verða það kannski aldrei. Mörg álitamál eru sett fram í nefndaráliti 1. minni hluta velferðarnefndar sem Valgerður Bjarnadóttir þingmaður hefur lagt fram og mælt fyrir. Sjónarmið Eyglóar Harðardóttur sem lagði fram álit 2. minni hluta um að rétt væri að gera brot á núgildandi lögum sem banna staðgöngumæðrun refsiverð. Meiri hluti nefndarinnar skilaði hins vegar áliti þar sem mælst er til þess að tillagan sé samþykkt.

Í dag hef ég verið að hlusta á umræðuna en á morgun er okkur þingmönnum ætlað að greiða atkvæði um tillöguna. Ég hef ekki gert upp hug minn enn. Þótt umræðan í dag hafi verið góð og muni standa fram á kvöldið efast ég um að ræðumönnum takist að útrýma öllum vafaatriðum eða siðferðisspurningum úr huga mér. Ég efast líka um að það sé í mannlegum mætti að uppfylla skilyrði tillögugreinarinnar sem hljómar svo:

Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Við vinnuna verði m.a. lögð áhersla á að tryggja í fyrsta lagi hag og réttindi barnsins, að tryggja í öðru lagi rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar, og að tryggja í þriðja lagi farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra. Skýrt verði kveðið á um traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur við framkvæmd og eftirlit staðgöngumæðrunar sem og hvernig best verði stuðlað að upplýstri umræðu um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í samfélaginu. Við vinnuna verði faglegt mat og þekking, alþjóðlegar rannsóknir og reynsla annarra vestrænna þjóða lögð til grundvallar. Frumvarpið verði lagt fram svo fljótt sem verða má.

Ég er ekki viss um að hægt sé að smíða frumvarp sem tryggir allt þetta – ég er ekki einu sinni viss um að öll þessi atriði fari saman.

Ég vil líka leyfa mér að benda á að heimurinn er fullur af umkomulausum börnum sem enginn á, enginn hugsar um, enginn kyssir góða nótt. Væri kannksi ekki réttara að rýmka lög um ættleiðingar?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is