Laugardagur 14.01.2012 - 20:35 - FB ummæli ()

Er Ísland ónýtt?

Stundum þyrmir algjörlega yfir mig þegar fréttir berast af því hvers konar bananalýðveldi við búum í. Nú hefur komið í ljós að á saltinu sem flest matvælafyrirtæki landsins virðast hafa keypt í framleiðsluna stendur skýrum stöfum „Industrial Salt“ og tekið fram á mörgum tungumálum að það skuli ekki nota nema einmitt í þeim tilgangi. Og því miður, virðast flestir nema Reykjavíkurborg hafa keypt það.

Hér tíðkast einnig að sílikon til iðnaðar sé notað sem íhlutir í mannslíkamann, reyndar án þess að menn áttuðu sig á því en þegar sannleikurinn kom í ljós ákvað bæði landlæknir og innflutningsaðilinn sem kom þessu fyrir í 440 kvenlíkömum að þegja.

Og þegar áburður stenst ekki gæðakröfur er ákveðið að þegja og halda áfram að selja hann og dreifa honum um sveitir landsins. Það var nú eldgos …

Hér varð hrun einmitt vegna þess að eftirlitsstofnanirnar sem við treystum á voru ekki að vinna vinnuna sína og stjórnvöld SEM VISSU Í HVAÐ STEFNDI gerðu ekki neitt.

Stundum langar mig að leggja niður allar stofnanir, allt kerfið eins og það leggur sig og byrja upp á nýtt. Falskt eftirlit og falskt öryggi er nefnilega verra en ekki neitt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is