Þriðjudagur 10.01.2012 - 00:11 - FB ummæli ()

Hvað ættum við að borða?

Daglegt líf á upplýsingaöld

Líf nútímamannsins snýst um upplýsingar. Því hefur verið fleygt að í einu dagblaði séu meiri upplýsingar en 19. aldar maðurinn fékk á allri lífsleiðinni. Daglega berast okkur fregnir af ástandi heimsmálanna, niðurstöður nýrra rannsókna og ýmsar fréttir af fólki og fyrirbærum. Vinir og ættingjar segja okkur frá reynslu sinni og svo drögum við eigin ályktanir út frá upplifunum, þekkingu og reynslu.

Það er ekki til neinn einn algildur sannleikur, regla sem á við um alla jarðarbúa. Það sem var álitið satt og rétt í gær getur verið orðið úrelt á morgun. Við fáum misvísandi upplýsingar nánast daglega og að lokum hættir fólk að taka þær til sín eða breyta eftir þeim. Þetta kemur ef til vill einna skýrast fram þegar kemur að mataræði fólks. Yfir okkur rignir fréttum og upplýsingum um hollustu og rétt mataræði, æskilegan líkamsvöxt, tísku, auglýsingar um sælgæti og skyndibita, uppskriftir, matreiðsluþætti og heilsueflingu. Stór hópur fólks breytir ekki eftir betri vitund, borðar óhollan mat, hreyfir sig lítið og reykir jafnvel. En upplýsingarnar sem fólki berast eru líka misvísandi eða stangast á. Þegar ég var unglingur dvaldi ég tvö sumur í Bretlandi og þar lærði ég að drekka te með mjólk eins og þar er siður. Nokkrum árum síðar las ég um rannsókn sem sýndi fram á að þeir sem drykkju te með mjólk ættu frekar á hættu að fá hjartasjúkdóma en þeir sem slepptu mjólkinni. Ég vandi mig því snarlega af mjólkinni og hef drukkið mjókurlaust te síðan. Stuttu seinna heyrði ég hins vegar af annarri rannsókn sem sýndi fram á að tedrykkja yki hættuna á ristilkrabbameini. Þeir sem settu mjólk í teið sitt væru hins vegar ekki í hættu. Valið stóð því á milli hjartasjúkdóma, ristilkrabbameins eða að hætta tedrykkju. Fjölmargar rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að tedrykkja hefur margvísleg jákvæð áhrif á heilsu manna. Te inniheldur til dæmis polyphenol-efni sem rannsóknir hafa sýnt að veiti vörn gegn hjartasjúkdómum og krabbameini. Ætti ég þá ekki bara að halda áfram að drekka te? Hver getur í raun gefið eitt algillt svar?

Leiðbeiningar til almennings

Næringarfræði er hitamál og fara átökin fram á mörgum sviðum. Það skiptir samfélag miklu að þegnar þess haldi heilsu og þrótti. Hagsmunir yfirvalda sem vilja takmarka kostnað við heilbrigðiskerfið og matvælaframleiðenda sem vilja vinna vöruna á sem hagkvæmastan hátt og fá sem mest fyrir hana fara ekki endilega saman. Þá eru uppi skiptar skoðanir innan næringarfræðinnar auk þess sem ýmsir næringarþerapistar og -ráðgjafar, sölufólk og misvitrir kenningasmiðir blanda sér í umræðuna. Og ekki má gleyma stóru spurningunni um misskiptingu fæðunnar á milli vesturlanda þar sem er í raun of mikið framboð af mat og fátækari landa þar sem fólk líður skort.

Sumt fólk fer illa með líkama sinn og það er samfélaginu dýrt. Koma má í veg fyrir marga sjúkdóma með réttu mataræði, hreyfingu og hollum lifnaðarháttum. Yfirvöld þurfa því að koma skýrum skilaboðum til almennings um hvað æskilegast sé að fólk borði, hversu mikið og að allir þurfi á hreyfingu að halda.

Opinberar ráðleggingar í Bandaríkjunum

Bandaríkjamenn eru af mörgum taldir leiðandi í ráðleggingum til alþýðunnar um mataræði þótt deila megi um árangurinn. Fyrstu ráðleggingar yfirvalda þar í landi komu fram um 1950 og í þeim var greint frá fjórum fæðuhópum; mjólkurhópi, kjöthópi, ávaxa- og grænmetishópi og brauð- og kornmetishópi. Þessir fjórir hópar skyldu vera undirstaðan í mataræði þjóðarinnar. Þessum hópum var hnekkt árið 1992 er fyrsti fæðupýramídinn var settur fram en með honum hafði einn fæðuhópur bæst við en það er flokkur fitu, olíu og sætinda en slíkra afurða skyldi aðeins neyta í hófi. Þá var skilið á milli ávaxta og grænmetis. Stærsti flokkurinn og undirstaðan í pýramýdanum var flokkur brauðs, kormetis, hrísgrjóna og pasta og var fólki ráðlagt að neyta 6 – 11 skammta daglega. Sú framsetning kom sér afar vel fyrir bakara og alla framleiðendur brauða og bakkelsis en hagnaður af slíkri starfsemi jókst mikið eftir að fæðupýramídinn var kynntur. Á sjötta áratugnum hafði ráðlagður dagsskammtur verið fjórir skammtar og því var um töluverða aukningu að ræða.

Í Bandaríkjunum er það Landbúnaðarráðuneytið (enska: U.S. Depertment of Argiculture eða USDA) sem setur fram opinbera stefnu yfirvalda um æskilegt fæðuval. Það ráðuneyti starfar auðvitað öðru fremur fyrir matvælaframleiðendur þar í landi og hlutverk þess er að gæta hagsmuna þeirra. USDA hefur oft verið gagnrýnt fyrir að sitja báðum meginn við borðið og telja sumir að hagsmunir framleiðenda hafi verið settir ofar hagsmunum neytenda.

USDA endurskoðar ráðleggingar sínar á fimm ára fresti. Síðasti fæðupýramídinn, svokallaður MyPyramid var töluverð uppstokkun frá fyrri gerðum og var kynntur árið 2005 en þá var í fyrsta sinn einnig lögð áhersla á hreyfingu. Á síðasta ári var pýramídinn svo lagður á hilluna og „diskurinn minn“ eða MyPlate leit dagsins ljós.

Áður en endurskoðuð útgáfa kemur út herja ýmsir hagsmunaaðilar grimmt á nefndina sem sér um ráðleggingarnar og árið 2004 og svo aftur 2009-10 var áhugavert að fylgjast með umræðunni um þær endurskoðanir sem nú hafa litið dagsins ljós. Frést hafði fyrir þær báðar að þær ættu að fela í sér talsverðar breytingar og því hefur þessi áróður ef til vill verið enn meira áberandi en áður fyrir síðustu tvær endurskoðanir. Framleiðendur unnins hveitis voru meðal þeirra sem reyndu að beita nefndina þrýstingi en þeir lýstu áhyggjum sínum á því að iðnaðurinn ætti erfitt því almenningur neytti minna af brauði en áður vegna vaxandi vinsælda mataræðis þar sem minna er neytt af kolvetnum og vegna ráðlegginga um að neyta beri frekar heilkornaafurða en franskbrauðs. Minni neysla á kolvetnum er umdeild og fæstir næringafræðingar á því að fólk eigi ekki að neyta kolvetna en gildi heilkorna umfram hvíts hveitis er óumdeilanlegt og því ættu yfirvöld tvímælalaust að ráðleggja neyslu á slíkum vörum ef þeim er alvara með að leggja línurnar fyrir hollt og gott mataræði almennings. Það þjónar hins vegar ekki framleiðendum hvíts hveitis. Niðurstaðan 2005 varð að ráðleggja fólki að minnst helmingur kornafurða sem það neytti væri úr grófu korni.

Talsmenn sætindaframleiðenda reyndu einnig að beita áhrifum sínum til að reyna að koma í veg fyrir að sett yrði ákveðið hámark á það hve mikið fólki væri óhætt að snæða af sætindum  daglega í stað þeirra ráða sem fyrir voru um hóflega neyslu sem er mun teygjanlegra hugtak, sérstaklega fyrir sælgætisgrísi.

Talsmenn mjólkuiðnaðarins í Bandaríkjunum beittu USDA talsverðum þrýstingi árið 2004 því samtök mjólkurframleiðenda (National Dairy Council) vildu að ráðleggingar um daglega mjólkurneyslu yrðu hækkaðar úr 2 – 3 skömmtum í 3 – 4. Það hefði nefnilega getað skilað sér í stóraukinni sölu á mjólkurafurðum. Þegar pýramídinn var kynntur 2005 var mjólkurskammturinn þrír bollar miðað við neyslu 2000 hitaeininga á dag en fólki með mjólkuróþol ráðlagt að neyta kalkbættra afurða. Meirihluti fólks af afrískum og asískum uppruna, frumbyggjar Ameríku og þeir sem eiga ættir sínar að rekja til landanna í kringum miðjarðarhafið skortir laktósahvata og aðeins um 30% jarðarbúa þolir mjólkurvörur á fullorðinsaldri. Það er því hæpið fyrir yfirvöld í fjölmenningarsamfélagi eins og Bandaríkjunum að ráðleggja fólki að neyta mjólkurvara þegar vitað er að stór hluti þjóðarinnar er með mjólkuróþol. Hér hljóta hagsmunir mjólkurframleiðenda að spila inn í.

Fæðupýramídi Harvard School of Public Health – The Healthy Eating Pyramid

Árið 2005 kynntu vísindamenn við Harvard School of Public Health nýjan fæðupýramída sem settur var fram til höfuðs MyPyramid USDA en hann var bæði uppfærður árið 2008 og svo á síðasta ári þar sem hann var einnig settur fram sem diskur, Healthy Eating Plate, eins og opinberu ráðleggingarnar frá USDA til að auðvelda samanburðinn. Pýramídinn er þó enn í fullu gildi. Vísindamennirnir í Harvard töldu að þótt veruleg þróun í rétta átt hefði átt sér stað með MyPyramid og margt væri betra en áður væru ráðleggingar USDA langt frá því að vera í takt við nýjustu rannsóknir og almenningi til heilla. Af hinu góða taldist áhersla á hreyfingu og mikilvægi þess að halda sér í kjörþyngd og að fita gæti verið góð en í fyrri ráðleggingum var öll fita álitin af hinu slæma og flokkuð með sætindum. Þá var MyPyramid einnig hrósað fyrir að hafa sleppt hugtakinu flókin kolvetni og mælast frekar til þess að sykurneysla sé hófleg og að fólk borði gróft kornmeti. Forsvarsmenn Healthy Eating Plate benda hins vegar á nokkur atriði sem þeim finnast ekki samræmast nútíma næringarfræði. Þeir benda á að USDA finnist í lagi að helmingur kornmetis sé neytt sem unninnar sterkju, svo sem í formi franskbrauðs eða hvítra hrísgrjóna en þeir vilja meina að slíkar afurðir séu engu betri en sykur og gefi af sér næringarsnauðar hitaeiningar og hafi óhagstæð áhrif á brennsluna og geti aukið hættuna á hjartasjúkdómum og sykursýki. Þá eru þeir einnig á móti því að allar próteinríkar afurðir séu settar undir sama hatt og dæmdar, öðru fremur, eftir fituinnihaldi og að velja skuli fitulitlar afurðir. Ekki sé tekið tillit til þess að fita er mis(ó)holl og að það geti haft mikil og góð heilsufarsleg áhrif að skipta rauðu kjöti úr fyrir fisk, fuglakjöt, baunir og hnetur. Það þriðja sem þeir ásaka USDA um er að hvetja til mjólkurneyslu en eins og fyrr segir mælir Landbúnaðarráðuneytið með því að fólk drekki þrjú glös af léttmjólk daglega eða samsvarandi mjólkurafurðir. Það gera 300 auka hitaeiningar daglega en þeir Harvardmenn benda á að flestir Bandaríkjamenn fái nú þegar of margar hitaeiningar. Þá vilja þeir meina að sannanir skorti á forvarnargildi mjólkurneyslu vegna beinþynningar og að USDA hunsi vísbendingar um tengsl krabbameins í eggjastokkum og blöðruhálskirtli við mjólkurneyslu.

Hinum holla diski Harvard er skipt til helminga. Öðrum megin eru grænmeti og ávextir en grænmetishólfið er þó stærra. Helmingur fæðunnar ætti því að mati Harvard að vera grænmeti og ávextir (kartöflur og franskar teljast ekki með). Á hinum helmingnum er til helminga óunnið kornmeti, svo sem brún hrísgrjón, heilhveiti pasta, haframjöl og fleira og hinum megin prótein svo sem fiskur, fuglakjöt, baunir og hnetur. Neyslu á rauðu kjöti skal takmarka og forðast alveg beikon og unnar kjötafurðir. Lögð er áhersla á daglega hreyfingu og að halda sér í kjörþyngd. Til hliðar eru annars vegar drykkir sem skulu vera hitaeiningasnauðir og svo hollar olíur.

Heilsufarslegur ávinningur af hollu mataræði

Rannsóknir hafa verið gerðar á bættri heilsu fólks sem fylgir annars vegar ráðleggingum USDA og hins vegar Harvard skólans. Niðurstöðurnar eru settar upp í sérstaka vísitölu, Healthy Eating Index, sem USDA bjó til. Karlar sem fylgdu að mestu mataræði USDA minnkuðu hættuna á að þróa með sér hjartasjúkdóma, krabbamein og aðra króníska sjúkdóma um 11% á 8 – 12 ára tímabili miðað við aðra. Þær konur sem fylgdu mataræði stjórnvalda hve nákvæmast eftir voru einungis í 3% minni hættu til að þróa með sér króníska sjúkdóma.(1) Samanburðarrannsóknir sýna hins vegar að karlar sem fylgja mataræði Healthy Eating Pyramid voru 20% ólíklegri til að þróa með sér alvarlega króníska sjúkdóma en aðrir. Konur sem fylgja því fæði minnkuðu líkurnar um 11%. Karlar sem fylgdu mataræði Harvard skólans minnkuðu líkurnar á hjartasjúkdómum um næstum 40% og konur um næstum 30%.(2)

Opinberar ráðleggingar til Íslendinga

Hér á landi er það Manneldisráð sem sér um að fræða almenning. Það heyrir undir hið nýja embætti Landlæknis sem varð til er Landlæknir og Lýðheilsustöð sameinuðust og heyrir það svo undir velferðarráðuneytið en fram til 2003 var Manneldisráð sérstök stofnun. Landlæknisembættið hefur ýmis önnur hlutverk en fjallað er um hér en því er meðal annars ætlað að koma á framfæri fræðslu, ráðleggingum og hvatningu til almennings og vera tengiliður stjórnvalda, heilbrigðisþjónustu, mennta- og vísindasamfélagsins, hagsmunasamtaka og alþjóðastofnana við fólkið í landinu og fjölmiðla sem miðla upplýsingum enn frekar. Erfitt er þó að átta sig fyllilega á hvernig hið nýja embætti starfar því vefir Lýðheilsustöðvar og Landlæknis hafa ekki verið sameinaðir. Þeir sem vilja kynna sér ráðleggingar um t.d. mataræði er vísað á gamla vef Lýðheilsustöðvar sem þó hún sé ekki lengur til.

Hagsmunaaðlilar eru sýnilegir í fræðsluefni Lýðheilsustöðvar ef eitthvað er að marka hinn gamla vef en hvaða áhrif geta þeir haft á stefnu, markmið og boðskap embættisins? Ýmsar leiðir eru færar til að miðla fræðslu. Manneldisráð gaf til að mynda út vinsæla matreiðslubók, Af bestu lyst, árið 1993 í samvinnu við bókaforlagið Vöku-Helgafell, Hjartavernd og Krabbameinsfélagið en allar uppskriftir í bókinni eru miðaðar við „opinber Manneldismarkmið fyrir Íslendinga“.(3) Bókin er einhver vinsælasta matreiðslubók seinni tíma hérlendis og hefur verið endurútgefin fjórum sinnum og endurprentuð margoft. Í kjölfarið fylgdi safnklúbbur og tvær bækur til viðbótar. Upphaflega bókin er gefin út með styrk frá Manneldisfélaginu, Íslenskum sjávarafurðum og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Nú skal það ekki dregið í efa að fiskur sé hollur en 25 uppskriftir af fiskréttum eru í bókinni en aðeins 17 grænmetisréttir og eru margir þeirra frekar meðlæti en aðalréttir. Mjólkurafurðir koma lítið við sögu þótt Manneldisráð hafi mælt með töluverðri mjólkurneyslu á útgáfutíma bókarinnar og geri enn. Hefði staðan ef til vill verið önnur ef bókin hefði verið styrkt af kartöflubændum eða Mjólkursamsölunni? Önnur skýring gæti verið sú að aðstandendur bókarinnar hafi leitað eftir styrkjum frá fiskframleiðendum því að þeir hafi talið fiskneyslu landsmanna ábótavant og viljað benda lesendum á fleiri leiðir til að elda fisk.

Ráðleggingar Landlæknisembættisins

Lýðheilsustöð (ja eða Landlæknir) notar ekki pýramída heldur Fæðuhringinn til að setja fram upplýsingar um æskilegt mataræði á aðgengilegan hátt. Hringnum er skipt í þrennt og í kringum hann má sjá myndir af fólki að hreyfa sig til að minna á mikilvægi hreyfingar. Flokkarnir sex eru ávextir og ber, grænmeti, kornvörur, feitmeti, mjólk og mjólkurvörur og að lokum kjöt, fiskur, egg, baunir og hnetur. Nýjasta útgáfa Fæðuhringsins kom út í nóvember árið 2005, nokkrum mánuðum eftir að MyPyramid kom út í Bandaríkjunum og eru ráðleggingarnar ekki ósvipaðar þeim. Mikilvægt er að borða fæðu úr öllum flokkum og þótt allir hlutar hringsins séu jafnstórir er mismikið í þeim sem undirstrikar vægi þess að borða fjölbreyttan kost úr hverjum flokki og vægi hvers flokks í hollu mataræði. Engin sætindi er að finna í íslenska fæðuhringnum og ekki heldur unnar kjöt- eða fiskvörur. Í hringnum miðjum er vatnsglas sem minnir okkur á að vatn er besti svaladrykkurinn.

Í eldri gerð hringsins voru geirarnir misstórir og ef til vill auðveldara að átta sig á vægi hverrar fæðutegundar fyrir sig. Þar var hins vegar ekkert sem minnti á hreyfingu eða vatnsdrykkju. Athyglisvert er að sjá að hlutur ávaxta og berja virðist mun veigameiri á nýrri hringnum en þeim eldri.

Vefur  hinnar aflögðu Lýðheilsustöðvar er ekki mjög aðgengilegur og efnið á honum virðist lítið hafa verið uppfært eftir hrun. Það finnst mér vissulega áhyggjuefni því forvarnir og upplýsingar eru bestu bestu fjárfestingarnar þegar kemur að heilbrigði þjóðar.

Tilraunastöð í hverjum manni

Við erum öll einstök. Við erum misstór, höfum ólíkan smekk, sumir hafa óþol og ofnæmi en aðrir stálmaga sem þolir allt. Sumt fólk er sífellt á ferðinni og brennir ótal hitaeiningum en aðrir hreyfa sig ekki spönn frá rassi. Hvernig er þá hægt að leggja línurnar fyrir gjörvallt mannkynið?

Síðustu 20 árin eða svo hef ég haft mikinn áhuga á næringu í víðasta skilningi þess orðs. Þegar ég byrjaði að halda heimili og hugsa um þessa hluti átti að borða afskaplega kolvetnaríka fæðu. Pasta var tiltölulega nýr kostur á borðum landsmanna og kynnt sem fæða fyrir íþróttafólk. Ég einsetti mér að borða mikið af pasta – sem hentaði fátækum námsmanni reyndar ágætlega því auðvelt var að búa til bragðgóða rétti fyrir lítið fé. Ég borðaði mikið af ávöxtum, kartöflur voru í uppáhaldi og grænmeti var haft með eftir efni og ástæðum. Fitu forðaðist ég nánast alveg, steikti aldrei mat, notaði aldrei viðbit á brauð og skar alla sýnilega fitu af kjöti.

Nú er öldin önnur (í bókstaflegri merkingu) og flestir hafa áttað sig á að fita er ekki bannvara og ekki er öll fita eins. Við erum líka flest hætt að troða okkur út af brauði eða pasta daginn út og inn. En það eru ekki aðeins ráðleggingarnar sem hafa breyst, við breytumst líka. Það sem hentar okkur á einum tíma lífsins er ekki endilega það besta á öðru æviskeiði. Því er mikilvægt að hlusta á líkamann og tengja líðan við hvað við vorum að borða.

Nú í upphafi árs þegar margir ætla að taka upp nýja og betri siði er ekki úr vegi að hafa í huga hvaðan hinir nýju siðir eru komnir. Ef einhver er að reyna að selja okkur vöru sem á að leysa öll okkar vandamál er það að öllum líkindum of gott til að vera satt, það ættum við öll að hafa lært. En það er líka rétt að íhuga með hvaða hætti ráðleggingar rata til okkar og hvort einhverjir hagsmunaaðilar hafi haft tækifæri til að hafa áhrif á þær. Þumalputtareglan er þó sú að ferskur matur og lítið unninn er hollari en fæða sem er í raun frekar orðin iðnaðarvara en landbúnaðarafurð.

Gleðilegt ár og gangi okkur öllum vel að standa við áramótaheitin.

Heimildir:

Fullerton-Smith, Jill, The Truth About Food, Bloomsbury, New York 2007.

Laufey Steingrímsdóttir: Af bestu lyst, Vaka-Helgafell, Reykjavík 1994.

Morgunblaðið: „Manneldismarkmið í einni hollustukörfu“, Morgunblaðið, bls 22, 6. desember, 2001.

Morgunblaðið: Tölur Manneldisráðs um fæðuframboð á Íslandi árið 2000: Eigum Norðurlandamet í neyslu mjólkur“, Morgunblaðið, 25. júlí, 2001.

Ólafur Gunnar Sæmundsson: Lífsþróttur – næringarfræði fróðleiksfúsra, Ós, Seltjarnarnesi 2007.

Zamiska, Nicholas: The Wall Street Journal – “Health: Food-Pyramid Frenzy – Lobbyists Fight to Defend Sugar, Potatoes and Bread In Recommended U.S. Diet, 29 júlí 2004.

Fótnótur:

(1) McCullough ML, Feskanich D, Stampfer MJ, et al. Diet quality and major chronic disease risk in men and women: moving toward improved dietary guidance. Am J Clin Nutr. 2002; 76:1261-71.

Sótt af: http://www.hsph.harvard.edu/nutritionsource/what-should-you-eat/pyramid-full-story/index.html þann 8. 5. 2009.

(3) Bls. 8, Af bestu lyst.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is