Föstudagur 06.01.2012 - 19:02 - FB ummæli ()

Sílikonur – hver ber ábyrgð á gölluðu pippi?

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrr í kvöld kom fram að þær konur sem fengið höfðu gallað „pip“ iðnaðarsílikon í sig hjá lýtalæknum séu ekki allar íslenskar. Sumar konurnar komu sérstaklega hingað til lands til að bæta útlitið með þessum hætti. Í fréttinni kom einnig fram að velferðarráðuneytið væri að skoða hvort hægt væri að bæta konunum þetta upp með því að fjarlægja þennan viðbjóð úr líkama þeirra þeim að kostnaðarlausu og setja skárri fyllingar í staðinn og að bresk yfirvöld hyggist gera það fyrir þær konur sem fengu sér pip í Bretlandi.

Þetta finnst mér áhugavert, sérstaklega í ljósi þess að uppi eru stórfelldar hugmyndir um einhvers konar heilbrigðisferðaþjónustu hér á landi. Fólk getur þá komið hingað og t.d. fengið nýjan mjaðma- eða hnjálið í Mosfells- og Reykjanesbæ og jafnað sig svo á sjúkrahótelum hér á landi og notið lífsins í göngutúrum í íslensku roki. Í bjartsýnustu viðskiptaáætlunum virðist gert ráð fyrir að fólk taki alla stórfjölskylduna með sér í skurðaðgerðina og að hún dvelji á alvöruhótelum í nágrenninu og eyði fullt af peningum í hvalaskoðun og á veitingastöðum.

Skurðaðgerðir geta verið ágætisbisness þótt ég efist stórlega um að fólk drusli fleirum en í mesta lagi maka með sér heimshorna á milli til þess að leggjast undir hnífinn. Hins vegar þarf að vera alveg ljóst áður en lengra er haldið hvar mörkin á milli einkareksturs og almenna heilbrigðiskerfisins liggja og hver ber ábyrgð þegar eitthvað fer úrskeiðis.

Nú þyrftum við að fá að vita á hvaða forsendum erlendu sílikonurnar komu hingað, hvort aðgerðirnar hafi verið framkvæmdar á einkastofum eða opinberum sjúkrahúsum og hvort íslenska ríkið sé á einhvern hátt ábyrgt eða jafnvel skaðabótaskylt í þessu máli eða öðrum þar sem aðgerðir eru framkvæmdar á einkasjúkrahúsum í hagnaðarskyni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is