Fimmtudagur 05.01.2012 - 23:07 - FB ummæli ()

Hver á þennan bústað, já eða nei?

Eins og glöggir lesendur vita er fyrirsögn þessa pistils fengin úr hinni sígildu kvikmynd Stellu í orlofi en Stella lætur þessi orð falla eftir að hún kemst að því að líf hennar er á vissum misskilningi byggt, án þess að hafa fengið botn í það nákvæmlega hvar hann liggur. Henni er þó ljóst að síðustu daga hefur hún dvalið í sumarbústað sem hún veit ekki hver á.

Þessa dagana finnst mér töluvert um slíkar spurningar sem ekki er hægt að svara með uppgefnum valmöguleikum. Fjölmiðlar hafa t.d. verið duglegir við að spyrja fólk hvern það vilji sjá sem næsta forseta alveg án þess að nokkur hafi gefið kost á sér. Reyndar hafa tvær konur sagst ætla að gefa kost á sér, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Jóhanna Magnúsdóttir og af fenginni reynslu ættum við að geta gert ráð fyrir atlögu Ástþórs Magnússonar. Engu að síður hef ég ekki séð að þau séu valkostir í þessum könnunum en hef svo sem ekki leitað af mér allan grun. Niðurstöðurnar eru svo túlkaðar eftir behag. Á Vísi var t.d. frétt um að lesendur miðilsins hefðu kosið Ólaf Ragnar sem er um það bil eini maðurinn sem við vitum að verður ekki í kjöri en hann hlaut 22% greiddra atkvæða.

Þá eru mánaðarlegar kannanir á fylgi flokkana svipaðar. Ljóst er að fleiri nýjir valkostir verða í boði en áður og að fólk er komið með upp í kok á stjórnmálaflokkunum. Engu að síður deilir Capacent þeim sem enga ætla að kjósa eða eru óákveðnir niður á þá kosti sem síðast voru. Það finnst mér hæpið.

Við þingmenn Hreyfingarinnar höfum verið spurð ítrekað síðustu daga hvort við ætlum að verja ríkisstjórnina falli ef vantrauststillaga verði lögð fram í þinginu. Stutt er síðan slík tillaga kom fram og þá stuttum við hana öll. Hvert og eitt okkar tók sjálfstæða ákvörðun þar um. Ég get  ekki svarað fyrir aðra en mig en verulega mikið þyrfti að breytast í áheyrslum stjórnarinnar í skuldamálum heimilanna svo ég myndi breyta um skoðun.

Frá því við komum á þing höfum við ávallt tekið afstöðu til málefna en ekki hvaðan þau koma. Þannig höfum við stutt öll góð mál, bæði frá stjórnarflokkunum sem og stjórnarandstöðu. Fyrstu vikurnar á þingi studdum við ríkisstjórnina en eftir fyrsta Icesave samninginn skiptum við snarlega um skoðun. Í Icesave málunum störfuðum við þétt með Sjálfstæðisflokki og Framsókn og fengum reyndar skammir fyrir að „elta“ þá. Við vorum hins vegar eina stjórnmálaaflið með eitthvað um Icesave í okkar stefnuská og það var hún sem við vorum að fylgja. Við höfum átt gott samstarf við þingmenn úr öllum flokkum en eigum málefnalega minnsta samleið með Sjálfstæðisflokknum, ekki vegna þess að við séum endilega svo vinstri sinnuð heldur finnst mér hann fastur í sérhagsmunapoti sem ágæt grein var gerð fyrir í Áramótaskaupinu. Þau tvö mál sem flokkurinn hefur lagt höfuðáherslu á og fengið á dagskrá fyrstu vikuna sem þing kemur saman á ný eru lýsandi dæmi um það; annað er um staðgöngumæðrun sem blessunarlega snertir ekki marga þótt vissulega þurfi að ræða þau mál og hitt um einn mann, fyrrverandi formann flokksins!

Málefnalega höfum við átt meiri samleið með Framsóknarflokknum, einkum er kemur að skuldavanda heimilanna; leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar. Í öðrum málum ber meira á milli þar.

Við eigum það hins vegar sameiginlegt með stjórnarflokkunum að vilja nýja stjórnarskrá og tryggja að auðlindirnar verði í þjóðareigu. Reyndar skil ég satt að segja ekkert í hve hægt gengur að þoka þeim málum í rétta átt og ekki stendur á okkur að leggjast á árarnar. En við viljum þó róttækari lýðræðisumbætur, svo sem persónukjör og þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði minni hluta þings og þjóðar. Þegar kemur að skuldavanda heimilanna og hvernig þau mál hafa verið þæfð í fúlan ullarsokk sem nær ómögulegt verður að rekja upp aftur hætti ég hins vegar alveg að vera sammála.

Fyrir áramót áttum við óformlega fundi með oddvitum stjórnarflokkanna um hvort við gætum starfað saman að sameiginlegum áhugamálum. Þessir fundir voru býsna góðir og það var gott að geta farið vel yfir þau málefni sem okkur eru hugleikin með þeim og sjá hvar við erum sammála og hvar ekki. Við lögðum fram ákveðna hugmynd að því hvernig hægt væri að rekja upp fúla ullarsokkinn án þess að högg kæmi á efnahagsreikning lánveitenda eða ríkissjóður þyrfti að borga brúsann og munum leggja fram þingmál um það á vorþinginu. Oddvitar stjórnarflokkanna lofuðu hins vegar engum stuðningi við það mál og við ekki neinum stuðningi við stjórnina þótt fullyrðingar um annað hafi verið settar fram. Ég vona hins vegar að þau skipti um skoðun og farið verði í almennar leiðréttingar á lánum þeirra 73.000 heimila sem urðu fyrir forsendubresti við hrunið. Ef til vill er þó meiri möguleiki á því með annarri stjórn.

Þegar ég er spurð, og þráspurð, hvort ég muni styðja vantrauststillögu sem ekki hefur verið lögð fram, óvíst er hvort verði lögð fram, en verði hún lögð fram er ekki vitað á hvaða forsendum það verði gert eða hver muni gera það, þá á ég erfitt með að gefa afdráttarlaust svar því ég veit ekki hvað mun gerast eða hvenær það gerist, ef það gerist. Ég veit heldur ekki hvernig stjórnarflokkunum muni lítast á þingmálið okkar – sem enn hefur ekki verið lagt fram enda þingið ekki starfandi þessa dagana. Ég get því bara svarað út frá stöðunni sem er í dag. Og í dag hefur ekkert breyst frá því vantraust var lagt fram síðast hvað sem síðar verður.

Og hver á svo þennan bústað? Já eða nei!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is