Þriðjudagur 20.12.2011 - 20:45 - FB ummæli ()

Að treysta dómstólum

Þann 14. maí í fyrra sat ég í þingsal þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins tók til máls um fundarstjórn forseta um svokallað nímenningamál sem þá var í hámæli. Níu einstaklingar höfðu verið valdir að því er virðist af handahófi úr hópi manna sem ruddist inn á þingpallana 8. desember 2008. Nímenningarnir voru ákærðir fyrir 100 gr. hegningarlaga, árás á Alþingi, sem hefði þýtt eins til sextán ára fangelsi ef þeir hefðu verið fundnir sekir. Mörgum þótti þetta fjarstæðukennd ásökun og hafði Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, lagt fram tillögu um að ákæran yrði dregin til baka enda virtist skrifstofa þingsins hafa ýtt á eftir ákærunni. Í tilefni þess sagði Bjarni:

Virðulegi forseti. Í hliðarherbergi liggur frammi tillaga til þingsályktunar sem nú er búið að dreifa á þinginu um ákæru á hendur níu mótmælendum fyrir árás á Alþingi. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa þeirri skoðun minni við hæstv. forseta þingsins að þetta mál er ekki þingtækt. Fyrir utan efnisatriðin, fyrir utan það hversu fráleitt það er að héðan af þinginu berist þau skilaboð til samfélagsins að menn treysti ekki ákæruvaldinu í landinu, að menn hafi einhverjar efasemdir um að dómstólarnir séu bærir til þess að útkljá þau mál sem upp koma, er hér efnislega á ferðinni mál sem augljóslega er ekki þingtækt … (Leturbr. höf).

Síðar í umræðunni sagði Bjarni:

Þar fyrir utan er um að ræða íhlutun í framkvæmdarvaldsaðgerð. Það er hlutverk þingsins að setja rammann og reglurnar og framkvæmdarvaldið á síðan að fylgja þeim reglum. Ekkert liggur fyrir í þessu máli annað en að menn fylgi þeim reglum sem settar hafa verið á þinginu. Þess vegna er þingsályktunartillagan efnislega (Forseti hringir.) algjörlega tilefnislaus. (Leturbr. höf).

En nú hefur þessi sami Bjarni Benediktsson lagt fram tillögur til þingsályktunar um að Alþingi hlutist til um mál sem þegar er í fyrirframákveðnu ferli í dómskerfinu.

Geir H. Haarde var ekki valinn af handahófi úr hópi manna heldur eftir ítarlega athugun Rannsóknarnefndar Alþingis sem skilaði níu binda skýrslu um hrunið, yfirlegu þingmannanefndar og saksóknara Alþingis og atkvæðagreiðslu í þinginu. Geir var skipstjórinn í brúnni, sá sem stýrði skútunni í strand. Vissulega var hann ekki einn í áhöfninni og Alþingi hefði klárlega getað hagað málum þannig að hann hefði haft með sér félaga og meirihluti þingmannanefndarinnar lagði til að mál fjögurra fyrrverandi ráðherra færu áfram. Alþingi hafnaði því en vel má hugsa sér að verði mál Geirs aftur tekið upp að mál hinna verði líka endurskoðuð. Ég efast reyndar um að íhlutun á borð við þá sem Bjarni leggur til í mál sem þegar er í ákveðnu ferli sé réttlætanleg. Í riti Gunnars G. Schram, Stjórnskipunarréttur, segir á bls. 179 um Landsdómsferlið:

Þegar Alþingi hefur samþykkt málshöfðun og kosið sækjanda […] er málið komið úr höndum þingsins. Hvorki hið sama þing né annað nýskipað getur eftir það afturkallað málsókn.

Við tölum oft um þrískiptingu valdsins og að valdmörkin á milli löggjafavalds, framkvæmdavalds og dómsvalds séu ekki nægilega skýr. Nú eru mál Geirs H. Haarde í ferli í dómskerfinu og landsdómur hefur það hlutverk að komast að réttlátri niðurstöðu. Löggjafavaldið á ekki að grípa inn í það ferli.

Annað hvort treysta menn ákæruvaldinu og dómstólum eða menn gera það ekki. Það á ekki að skipta máli hvort um mótmælendur eða fyrrverandi ráðherra sé að ræða, allir eiga að vera jafnir fyrir lögum. Mér fannst dómstólar komast að réttlátri niðurstöðu í máli nímenninganna. Þeir réðust ekki á Alþingi. Eigum við ekki að bíða og sjá hvort landsdómur sé bær til að útkljá það mál sem upp er komið?

Greinin birtist fyrst í DV 19. desember 2011.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is