Föstudagur 16.12.2011 - 21:17 - FB ummæli ()

Sjálfbærni

Nú stendur hið hefðbundna þinglokamálþóf stjórnarandstöðunnar yfir. Þá blaðra menn út í eitt, leggja fram kröfur um tvöfaldan ræðutíma, lengja umræðurnar með hinum ágætu andsvörum sem eru reyndar hugsuð til að gera einræður að samræðum en ekki sem málþófstrix en gagnast í hvoru tveggja. Tilgangurinn er að skapa sér samningsstöðu til að koma sínu máli í gegn, fá meiri hlutann til að fallast á sínar kröfur eða slá af í einhverju frumvarpinu.

Nauðsynlegt er fyrir stjórnarandstöðuna á hverjum tíma að eiga neyðarventil ef stjórnarflokkarnir ganga af göflunum. Í Danmörku þar sem málþóf tíðkast ekki getur minni hluti þings t.d. sett mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hefur hins vegar aðeins einu sinni gert það. Ef við mátum þetta við íslenskan veruleika þá hefði minni hlutinn getað sent Icesave beint til þjóðarinnar í stað þess að tala mánuðum saman. Það væri hins vegar lítil stemmning fyrir því úti í samfélaginu að senda það dægurþras sem þessa dagana eru tekin í gíslingu til þjóðarinnar.

Málið sem rætt hefur verið í dag er um hækkun á kvóta Íslands hjá AGS. Skítamál svo sem og skárra en mörg önnur sem röflað hefur verið um dögum saman áður. Þegar málið kom fyrst á dagskrá voru nokkrir á mælendaskrá og ef allt væri eðlilegt hefði umræðan kannski tekið tvo tíma. Mælendaskráin reynist hins vegar vera algjörlega sjálfbær því um leið og einhver líkur máli sínu bætist nýr við á mælendaskránna. Nýr er kannski ekki einu sinni rétta orðið, því stundum er það einmitt sá sem var að lljúka máli sínu.

Hún er þá kannski loksins fundin, sjálfbærnin, sem svo margir stjórnmálamenn tala um sí og æ.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is