Fimmtudagur 15.12.2011 - 23:44 - FB ummæli ()

Kæra DV,

Í gær las ég frétt í blaðinu ykkar á bls. 11 undir fyrirsögninni „Stjörnulögmenn verja Egil“. Fréttin fjallar um nauðgunarkæruna á hendur Egils nokkurs sem stundum kallar sig Gillz, hverjir munu aðstoða hann við málsvörn og viðbrögð við kærunni meðal stuðningsmanna hans. Allt í fína að fjalla um það allt og efnistök fréttarinnar ágæt og upplýsandi. Það er hins vegar þetta með fyrirsögnina sem ég átta mig ekki á.

Áður en lengra er haldið vil ég taka það fram að ég er ánægð með DV sem fjölmiðil, finnst hann standa sig betur en flestir aðrir. Blaðið stendur að mínu mati ágætlega undir slagorðinu sem það notaði einhvern tímann, „þorir meðan aðrir þegja“ og er eins nálægt því að vera „frjálst, óháð dagblað“ og hægt er hér á spillingareyjunni svo vitnað sé í önnur einkunarorð. Vissulega verður blaðinu stundum á, fer of geyst og stundum setur það fram staðhæfingar sem ég er ekki endilega sammála en á móti koma ótal góðar fréttir og svo er hjólað í ýmis mál og stungið á kýli sem aðrir veigra sér við að stinga á. Og eignarhaldið er geðfeldara en hjá öðrum sem ég man eftir í svipan.

En aftur af fréttinni. Þar segir:

Tveir stjörnulögmenn aðstoða Egil Einarsson við að verjast kæru átján ára stúlku sem sakaði hann og kærustu hans um nauðgun. Verjandi hans heitir Helgi Sigurðsson en hann starfar á sömu stofu og Brynjar Níelsson sem veitir ráðgjöf í málinu. Brynjar staðfesti þetta í samtali við DV þar sem hann sagði að leitað hefði verið til sín vegna málsins. „Ég hef aðeins komið að þessu máli, já, þar sem það hefur verið leitað til mín varðandi ráðgjöf. Ég er kannski vanari í þessum málum en flestir aðrir. Ég var bara í útlöndum þegar þetta kom upp og Helgi er formlega með hann ennþá, hvað sem síðar kann að verða,“ segir Brynjar.

Umfjöllunin um lögmennina heldur áfram og fullyrt er að Egill leggi allt undir þegar að vörninni kemur því hver tími hjá lögmanni kosti 20-25 þúsund krónur og að það heyri til undantekninga að tveir lögmenn standi saman að svona máli. Brynjar er formaður Lögmannafélagsins og hefur mikla reynslu samkvæmt fréttinni í að verja meinta og dæmda kynferðisbrotamenn. Svo segir:

Í gegnum tíðina hefur hann oft sinnt málum sem hafa verið umdeild og mikið í umræðunni. Brynjar var til dæmis verjandi Guðmundar Jónssonar, sem oftast er kenndur við Byrgið, og nýlega tók hann að sér að gæta hagsmuna Gunnars Þorsteinssonar í Krossinum svo dæmi séu tekin.

Samkvæmt fréttinni var Helgi hins vegar yfirlögfræðingur Kaupþings, fékk 450 milljón króna kúlulán og veitti svo stjórn bankans lögfræðiálit um að þeim væri heimilt að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna af slíkum lánum.

Nú er það svo að allir eru saklausir uns sekt er sönnuð og allir eiga rétt á sanngjarnri málsmeðferð og réttargæslu. það sem ég skil hins vegar alls ekki er hvers vegna þessir lögmenn eru kallaðir „stjörnulögmenn“! Er það vegna þess að þeir eru þekktir menn í samfélaginu? Það eru margir þekktir án þess að vera kallaðir stjörnuhitt eða -þetta. Eða er það vegna þess að þeir verja hina fallandi stjörnu? Þá mætti benda á að hvaða lögmaður sem er yrði umsvifalaust „stjörnulögmaður“ við það eitt. Eða á þetta kannski að vera brandari? Hann er þá ofar mínum skilningi.

Kæra DV, mér finnst ekkert stjörnuflott við að sérhæfa sig í að verja kynferðisbrotamenn, meinta eða dæmda. Einhver verður þó að taka að sér vörn brotamanna og sem betur fer eru menn sem eru til í að taka það að sér en það gerir þá ekki að stjörnum. Það er enginn glamúr fólgin í því. Og ekki heldur í því að afskrifa kúlulán til hlutabréfakaupa, ef út í það er farið. Í fyrri frétt blaðisins af sama máli kom fram að stúlkan hafi þurft að gangast undir aðgerð eftir ósköpin. Ekki voru það „stjörnulæknar“ sem framkvæmdu aðgerðina? Vandinn er að með því að nota þetta orðskrípi finnst mér málið í heild sinni upphafið og það er næstum eins og látið sé í það skína að það sé eftirsóknarvert að vera viðriðin það. Viljið þið gera það fyrir mig að nota orðið „stjörnulögmaður“ aldrei, aldrei, aldrei aftur um þessa menn. Þeir standa engan veginn undir því.

Og fyrst ég er farin að rausa þetta verð ég að segja að eins og mér finnst flott hjá ykkur að endurvekja gömlu góðu „beinu línuna“ þá finnst mér til skammar að þið skuluð bara bjóða körlum að sitja fyrir svörum. Þegar þetta er skrifað hafa fimm karlar setið fyrir svörum og í blaði gærdagsins kom fram að Björgólfur Thor sé sá eini sem ekki hefur þegið boðið um að sitja fyrir svörum. Kannski það sé skynsamlegt hjá honum, efast um að hann gæti svarað miklu án konunnar sem venjulega svarar fyrir hann.

Bestu fáanlegar,

Margrét

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is