Miðvikudagur 14.12.2011 - 22:29 - FB ummæli ()

Eiga stjórnvöld ekki að standa vörð um almenna borgara?

Fréttir Kastljóssins síðustu daga eru ágætis áminning um að réttnefni á bankahruninu er í raun bankarán. Hrunið varð af mannavöldum og hvað sem síðar verður hefur enginn enn axlað ábyrgð á því tjóni sem við erum minnt á daglega. Icesave jólagleðin („engin jól án Icesave“) sem hófst í dag er ágætt dæmi.

Í því samhengi langar mig að benda á erindi sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent innanríkisráðherra þar sem þau biðja ráðherrann um grið og frið fyrir aðförum fjármálafyrirtækja vegna ólögmætra gengistryggðra lána.

Á síðu samtakanna segir:

Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú sent erindi til innanríkisráðherra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra þar sem þess er krafist að gefa fjölskyldum í landinu og heimilum grið og frið fyrir aðförum fjármálastofnana á grundvelli ólögmætra gengistryggðra lána sem enn ríkir mikil óvissa um. Samtökin sjá ekki hvernig er hægt að réttlæta fyrir fólki eignasviptingu með endurútreikningum á lánum sem líklegt getur talist að fáist ekki staðist fyrir dómstólum. Á þetta hafa samtökin margoft bent á, en þótti ástæða til þess að benda á það enn og aftur þar sem ekki er að sjá neina viðbragðsáætlun stjórnvalda við því ástandi er skapast á leigumarkaði og búferlaflutningum sé þetta látið viðgangast.

Að mati Hagsmunasamtaka heimilanna varða meinbugir á lögum nr. 151/2010, eða túlkun fjármálastofnana sem nú ganga fram með ranga afturvirka útreikninga, lögvarða hagsmuni hjá stórum hópi lántakenda hér á landi og þá ekki aðeins fyrir innheimtu afborgana sem skortir nauðsynlegar lagaheimildir, heldur einnig vegna vörslusviptingar, nauðungarsölu og annarra þungbærra innheimtuaðgerða sem fjármálastofnanir grípa til á grundvelli laganna nánast á degi hverjum.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna krefst þess að stjórnvöld sjái til þess að öllum aðfararbeiðnum, vörslusviptingum, fjárnámsbeiðnum, nauðungarsölum og gjaldþrotabeiðnum verði slegið á frest í þeim málum sem réttaróvissa ríkir. Á meðan hæstiréttur hefur ekki úrskurðað um réttmæti þeirra ákvæða sem er að finna í lögum 151/2010 og lúta að afturvirkum vaxtaútreikningi er ljóst réttaróvissa er til staðar.

Það er ekki hægt annað en að taka undir með samtökunum í þessu máli. Okkur er sagt að ekki sé hægt að láta ráðamenn sæta ábyrgð eða alla vega svipta þá sem mestu tjóni ollu eftirlaunum sem eru úr öllum tengslum við veruleikann vegna þess að ekki sé hægt að setja afturvirk lög. En lög 151/2010 eru afturvirk og hafa sent þúsundum heimila hrikalega bakreikninga vegna ólögmætra lána sem fólk tók í góðri trú og greiddi samviskusamlega af. Og ráðherrann neitar að segja okkur hve háir hinir endurreiknuðu vextir eru. Eignarréttur lántakandans er virtur að vettugi og fjármálafyrirtækjum gefið frítt spil í innheimtunni. Er ekki mál að linni?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is