Laugardagur 10.12.2011 - 17:18 - FB ummæli ()

Alvöru matarmarkað í Reykjavík, takk!

Í kuldanum og rokinu í dag tókst lítilli sérverslun með sælkeravörur í Nóatúninu að sanna að það er sko sannarlega áhugi á matarmarkaði á Íslandi þar sem neytendur geta keypt matvöru beint af þeim sem búa hana til, milliliðalaust, allan ársins hring.

Víðast hvar erlendis er að finna slíka markaði sem eru  frábær vettvangur fyrir bændur og smærri framleiðendur til að koma vörum sínum til kröfuharðra neytenda sem vilja ferska vöru en hafna verksmiðjuframleiðslu, eitur- og aukaefnanotkun og illri meðferð á búfé. Þar má smakka, spjalla, fá ráð, versla og sýna sig og sjá aðra. Ég hef gaman af því að heimsækja svona staði í útlöndum og smakka, taka myndir og versla. Víða er einnig hægt að borða á staðnum.

Í mörg ár hefur starfað vinsæll bændamarkaður í Mosfellsbæ um helgar síðsumars þar sem áherslan hefur einkum verið á grænmeti og í Kolaportinu er einnig vísir af matarmarkaði og þótt umhverfið þar sé ekki beinlínis spennandi er auðvitað alltaf gaman að koma þar við. Svo eru til góðar verslanir eins og Frú Lauga við Laugalæk, Yggdrasill, Ostabúðin og Búrið sem stóð fyrir markaðnum í dag og víða um land má finna bændamarkaði á sumrin. Ekkert af þessu nær þó stemmningunni á alvöru matarmarkaði.

Þegar ég kom við í Nóatúninu í dag beit kuldinn í kinn og rokið reif í tjöldin sem höfðu verið reist á bílaplaninu. Örtröð var hjá flestum ef ekki öllum söluborðunum og margt var þegar uppselt. Gestir sönnuðu að þeir láta ekki smáatriði eins og veður og vind stoppa sig og flestir væru þeir örugglega til í að koma um hverja helgi.

Reykjavík þarf alvöru matarmarkað, í fallegu umhverfi, t.d. við höfnina þar sem hægt væri að kaupa ferskan fisk, auk kjöts beint frá býli, eggja úr hænum sem fá að ganga frjálsar og komast undir bert loft, brauðs, osta og alls þess sem fólki dettur í hug að útbúa. Slíkt hefði ekki bara gildi fyrir íbúana, heldur yrði einnig skemmtilegur áfangastaður fyrir ferðamenn sem vilja kynna sér matarmenninguna á þeim stöðum sem þeir heimsækja. Og síðast en ekki síst er markaður af þessu tagi forsenda frekari framþróunar í matvælaframleiðslu sem auðveldar bændum og minni framleiðendum að koma vöru sinni á markað og fá þá samstundis viðbrögð við því sem þeir hafa fram að færa.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is