Föstudagur 09.12.2011 - 16:47 - FB ummæli ()

Dagur rauða nefsins

Ég er heimsforeldri. Það þýðir að mánaðarlega færast 1500 krónur út af kortinu mínu til UNICEF á Íslandi og þeim krónum er varið til hjálparstarfa í þágu barna víða um heim. UNICEF starfar í 156 löndum en UNICEF á Íslandi hefur sérstaklega styrkt börn í Síerra Leóne til mennta, unnið gegn kynferðisglæðum í Austur-Kongó, styrkt verkefni í Mósambík, auk þess að vinna að neyðarverkefnum þar sem neyðin er mest hverju sinni. UNICEF hefur til að mynda komið til bjargar eftir jarðskjálftana á Haítií og flóðin í Pakistan á síðasta ári og til að styðja við barnung fórnarlömb átaka í Líbíu nú í ár. Auk þess sér UNICEF um verkefni sem lúta að mannréttindafræðslu íslenskra barna hér á landi.

Ég verð samt að viðurkenna að þegar UNICEF leitaði til allra þingflokka eftir þingmönnum til að taka þátt í þverpólitísku dansatriði sem sýna ætti í beinni sjónvarpsútsendingu í kvöld voru mín fyrstu viðbrögð ekki að segja já takk, frábært tækifæri til að láta ljós mitt skína. Ég er enginn dansari! Okkur Birgittu fannst reyndar upplagt að senda Þór Saari fyrir hönd þinghóps Hreyfingarinnar (sjáið þið hann ekki fyrir ykkur í balletbúningi?) en úr varð að ég tæki þetta að mér.

Sjö þingmenn tóku áskoruninni og ætla að hætta á að gera sig að athlægi fyrir framan alþjóð. Við erum sjaldnast sammála um nokkurn skapaðan hlut öll sjö en ég held ég geti þó fullyrt að við erum sammála um að við sjáum ekki eftir þessu. Æfingar hófust á þriðjudagskvöldið og eftir þriggja tíma törn hafði danskennaranum Peter Anderson tekist hið ómögulega; að fá okkur til að stilla saman strengi okkar og semja okkar eigin nútímadans! Á miðvikudag skakklöppuðumst við svo um með harðsperrur, strengi og krambúleruð hné en í gærkvöldi tók við önnur þriggja tíma æfing þar sem við fínpússuðum hinn frumsamda dans. Afraksturinn verður svo til sýnis í kvöld í söfnunarþætti í opinni dagskrá á Stöð tvö sem ég hvet fólk til að fylgjast með. Mér sýnist dagskráin vera borin uppi af eintómum snillingum, nema kannski þessum sem vinna við Austurvöllinn en það má þá alltaf standa upp og setja í eins og eina þvottavél og missa af þeim.

Ég trúi því að okkur beri siðferðisleg skylda til að leggja okkar af mörkum til að bæta heiminn. Til þess eru margar leiðir færar, bæði í okkar nærumhverfi þar sem víða er pottur brotinn og í heiminum öllum. Aðstæður okkar flestra hér á Íslandi hafa versnað eftir hrunið og margir eru í miklum vanda en öll getum við þó þakkað fyrir að við höfum aðgang að hreinu vatni, búum í landi þar sem ekki er stríð eða farsóttir og yfirvöld hafa getað brugðist við þeim skaða sem náttúruhamfarir hafa valdið, fljótt og vel. Því miður er það ekki svo um allan heim. Á hverju ári deyja 150.000 börn af völdum snýkjudýrasýkinga. Lyf gegn þeim fyrir 300 börn kosta kr. 1257.- Á hverjum degi látast 600 börn úr mislingum. Bóluefni handa 50 börnum kostar kr. 1740.- Fyrir kr. 6960.- má hreinsa 50 000 lítra af óhreinu vatni og breyta því í drykkjarvatn og fyrir kr. 8.483.- má fá 150 pakka af næringarríku jarðhnetumauki sem bjargar lífi og heilsu vannærðra barna.

Ég vil hvetja alla sem geta til að styrkja UNICEF með því að gerast heimsforeldar. Stundum er sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn og öll erum við hluti af heimsþorpinu.

Nánari upplýsingar um starf UNICEF eru á www.unicef.is.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is