Sunnudagur 04.12.2011 - 21:18 - FB ummæli ()

Lítil saga úr hversdagslífinu

Eftirfarandi bréf barst okkur þingmönnum fyrir nokkru. Bréfið hreyfði við mér þótt ég viti að margir aðrir eru í svipuðum sporum og fátt var um ráð enda duga þau úrræði sem stjórnvöld hafa fundið upp á skammt í hinum margbreytilega raunveruleika. Ég fékk leyfi bréfritara til að birta bréfið því mér fannst það eiga erindi til fleiri. Persónugreinanlegum atriðum hefur verið breytt en allar tölur eru bréfritara.

Það er  árið 2007. Við hjónin eigum tvö börn og erum svo lánsöm að fjölskyldan er að stækka. Við erum afar hamingjusöm yfir barnaláninu. Við búum í fallegu parhúsi sem við byggðum sjálf með blóði, svita og tárum. Vorið er 2008. Húsið okkar er metið á um 55 miljónir. Við skuldum í því u.þ.b. 14 milljónir hjá LSR þannig að eign okkar er 41 milljón ef við seljum. Við sjáum einbýlishúsalóð í hverfinu okkar á fallegum stað. Hugsum sem svo við ættum kannski að byggja aftur og vera á núllinu, gætum unnið minna og hugsað um börnin. Fáum herbergi fyrir alla og bara draumahúsið. Eigum vel fyrir lóðinni og öllum framkvæmdum þar sem maðurinn minn er getur byggt sjálfur. Við látum teikna húsið og erum spennt fyrir því. Við tökum viðbótarlán hjá LSR upp á 21,7 milljónir fyrir lóðinni og byrjunarframkvæmdum. Skuldin er þá í október 2008 35.7 milljónir. Enn eigum við 19.3 milljón í húsinu sem við reiknum með að fá fljótlega þar sem parhúsið er sett á sölu. Þá verður bankahrun og fasteignamarkaðurinn frýs. Við borgum af lánunum samviskusamlega í góðri von um að húsið seljist, algjörlega grunlaus um hvað sé í vændum. Hér var engin óráðsía í gangi og hér eru engir flatskjáir á heimilinu.

Tíminn líður, róðurinn herðist. Allt hækkar, matvara, bensín, barnaföt og þar með lánin líka. Veturinn 2009 -2010 er erfiður.  Ég tek út viðbótarlífeyrissparnaðinn minn sem er rúm milljón til að endar nái saman, en slatti af því fer í skatta.  Við leyfum okkur lítið en ég er full bjartsýni á að hlutirnir fari nú að lagast. Húsið selst ekki, lánin hækka og greiðslubyrðin. Sumarið 2010 frystum við lánin í 1 ár, hefði frekar viljað borga en sem betur fer gerðum við þetta því að eiginmaðurinn er atvinnulaus stóran hluta vetrarins. Vorið 2011 er komið að því að borga aftur. Sem betur fer er eiginmaðurinn með vinnu og búinn að hafa síðan þá. Enn hefur húsið ekki selst og staðan er þannig að verðmat er um 44-46 miljónir á parhúsinu og skuldin 45 miljónir. Eignabruninn er orðin 20 miljónir.

Eftir skuldbreytingu er afborgunin 180 þúsund á mánuði og höfuðstóllinn hækkar um 300 þúsund á mánuði. Við sóttum um 110% leiðina í vor þar sem fasteignamat ríkisins er 37,5 milj. Þá var skuldin 41 milljón. Okkur var synjað því við eigum skuldlausan bíl og lóð með steypuklumpi á.

Ég er búin að reyna að vera bjartsýn og vongóð, kaus skjaldborgina yfir heimilin, en í dag er ég hálf vonlaus, eiginlega orðin þunglynd. Lífeyrissjóðurinn vill ekkert meira gera fyrir okkur. Við borgum, lánin hækka, húsið selst ekki (hver hefði svo sem áhuga á að taka yfir lán sem bara hækka þrátt fyrir afborganir?).

Staðan er að verða þannig að skuldin er að verða hærri en húsnæðið. Mig langar ekki að vera föst í skuldafangelsi með fjölskylduna og geta ekki leyft okkur neitt og í raun ná ekki endar saman. Allt sem kemur upp á aukalega ruggar bátnum eins og gleraugnakaup fyrir börnin. Mig langar ekki að verða gjaldþrota og missa allt. Ef maðurinn verður verkefnalaus erum við í vondum málum.

Því spyr ég ykkur þingmenn og ráðherrar hvað á ég að gera?
Við erum búin að:
1) Taka út lífeyrissparnaðinn.
2) Búin að frysta lánin í eitt ár.
Þetta tvennt hefur bara verið til þess að gera eignabrunann enn stærri.
3) Reyna 110% leiðina.

Nú er þrennt í stöðunni:
a) Skila lyklunum til LSR og fá að leigja hjá þeim í eitt ár og eiga hálfsteypt hús. Þetta úrræði fellur niður um áramót og því mikilvægt að hafa hraðar hendur.
b) Reyna að selja og ganga út með 1 miljón sem dugar ekki til að gera nýbygginguna fokhelda og vera á hrakhólum með börnin þar sem ekki er mikið um leiguíbúðir.
c) Halda áfram að borga og vona að eitthvað verði gert en jafnframt eiga hættu á að verða í ævilangri fátæktargildru.

Ég verð að fá einhver ráð því við hjónin erum orðin ósammála og komnir brestir í hjónabandið.

Jólin eru í næsta mánuði og mig kvíðir fyrir frekar en að hlakka til. Því þau kalla á frekari útgjöld. Mér finnst ég ekki eiga heima hjá hjálparstofnun kirkjunnar eða mæðrastyrksnefnd því við erum bæði í vinnu og búum í góðu húsnæði. Það eru örugglega svo margir aðrir verr settir.

Ætlar þessi ríkisstjórn virkilega ekkert að gera? Þessi úrræði sem hún setti fram hafa bara aukið á skuldir þeirra sem voru í byrjun ekki hátt veðsett. Skiljiði ekki og sjáið hvað er að gerast um hver mánaðarmót? Finnst ykkur þetta í alvörunni í lagi og réttlátt??? Ég er handviss um það að LSR fer ekki á hausinn þó að hann lagi höfuðstól lána, þetta er leiðrétting! LSR hefur ekkki pungað neinu meira út, þetta eru tölur á blaði!

Ég vona að þú gefir þér tíma til að lesa þetta og gerir eitthvað. Réttlát niðurfærsla höfuðstóls og afnám verðtryggingar er það sem verður að gerast.

Þetta bréf var ókeypis útrás fyrir mig í mínu boði þar sem ég hef ekki efni á sálfræðiaðstoð.

Hvernig myndir þú, lesandi góður ráðleggja bréfritara?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is