Miðvikudagur 30.11.2011 - 20:27 - FB ummæli ()

Foringjaræði, lýðræði og samræða

Árin fyrir hrun einkenndust stjórnmálin að foringjaræði þar sem leiðtogar stjórnarflokkanna réðu því sem þeir vildu. Þeirra var valdið, flokkurinn og dýrðin. Þeir tóku sér til að mynda vald til að lýsa yfir stuðningi Íslands við stríð í fjarlægu landi án þess að spyrja þing eða þjóð. Hugmyndir um beint lýðræði, þjóðaratkvæðagreiðslur og virkari þátttöku almennings í ákvarðanatöku og stefnumótun áttu ekki upp á pallborðið þá.

Margir bundu vonir við að núverandi valdhafar, formenn stjórnarflokkanna yrðu ekki aðeins talsmenn annarra vinnubragða, annars konar stjórnmála, heldur myndu iðka þau sjálf. Kannski héldum við að það yrði rökrétt niðurstaða þeirra eftir tæplega 60 ára sameiginlega þingsetu og náin kynni við þau vinnubrögð sem hér hafa viðgengist og áttu svo stóran þátt í því hvernig fór. Og vissulega virðist yfirbragð stjórnmálanna stundum vera annað. Því halda ýmsir stjórnarþingmenn alla vega fram þegar spurt er hvers vegna alltaf sé allt upp í loft á stjórnarheimilinu. Skýringin á því er oft sögð sú að nú sé foringjaræðið fyrir bí og því megi stjórnarþingmenn gagnrýna forustuna og ákvarðanir hennar opinberlega, jafnvel með sérhagsmuni síns kjördæmis að leiðarljósi. Gallinn er bara sá að hin „nýju stjórnmál“ byggjast í raun ekki á minna foringjaræði, virkara lýðræði eða opnara samráði heldur einhvers konar hópslagsmálum þar sem sá sterkasti, klókasti eða frekasti vinnur eftir að hafa safnað liði með sérhagsmunaöflunum og niðurlægt félaga sína.

Nýlega las ég bókina Hollráð Hugos eftir Hugo Þórisson sálfræðing sem hefur  aðstoðað og leiðbeint foreldrum, kennurum og öðrum um samskipti við börn og unglinga árum saman. Leiðarþráður í hans leiðbeiningum er virk hlustun, virðing fyrir öðrum, umburðarlyndi og kærleikur. Hann ráðleggur okkur foreldrum að hlusta á börnin okkar, í stað þess að rífast og skammast, ekki bara vegna þess að þá líður öllum svo miklu betur í sálinni, heldur vegna þess að það virkar svo miklu betur. Steingrímur og Jóhanna létu þau orð falla í einhverju viðtalinu að þau væru eins og „pabbi og mamma“ á stjórnarheimilinu. Mikið væri nú gott ef þau sem og aðrir þingmenn, hvar í flokki sem þeir eru staddir, tileinkuðu sér þau góðu ráð að leggja sig fram við að hlusta á aðra og skoðanir þeirra af virðingu og umburðarlyndi og taka tillit til annarra sjónarmiða en sinna eigin.

Einmitt núna stendur baráttan um Ísland sem hæst. Tekist er á um auðlindir landsins, hver eigi fiskinn í sjónum, orkuna í iðrum jarðar og  jörðina undir fótum okkar. Auk þess er nánast verið að gera upp þrotabú í hverju horni og skuldamál almennings og fyrirtækja eru enn, þremur árum eftir hrun, í óskiljanlegri flækju og lítið hefur verið gert nema stækka biðsalinn eftir réttlæti.

Á meðan rífast þingmenn og ráðherrar, reyna að níða skóinn hver af öðrum, krækja í freistandi ráðherrastóla eða draga aðra niður í foraðið. Það hlýtur að vera hægt að gera hlutina öðruvísi, standa saman og taka almannahag fram yfir sérhagsmuni. Mikið held ég að okkur liði öllum betur ef við hefðum það á tilfinningunni að þeir sem stjórna landinu hefðu ekki bara munn heldur líka eyru; gætu talað saman og hlustað í alvöru hvert á annað og okkur öll hin líka.

Greinin birtist fyrst í DV 30. nóvember 2011.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is