Mánudagur 28.11.2011 - 20:14 - FB ummæli ()

Gamla Ísland, nýja Ísland og erlend fjárfesting

Heyrst hefur í stóra Grímsstaðamálinu að ráðherra sem fór að lögum og svaraði þeirri spurningu sem beint var til hans frá kínversku fjárfestingafélagi hefði átt að gera hlutina öðru vísi. Hann hefði frekar átt að kalla manninn sem hefur verið í fréttum vegna málsins til sín og reyna með einhverjum hætti að leysa málið með það að markmiði að hugmyndir mannsins yrðu að veruleika.

Svoleiðis hafa kaupin örugglega gerst á eyrinni á gamla Íslandi þar sem orkuverð var leyndarmál og samið var um málin bak við luktar dyr.

Ég hélt að svoleiðis ætluðum við ekki að hafa hlutina eftir hrun, nú ætti allt að vera upp á borðum og gegnsæið haft að leiðarljósi. Meðal annars þess vegna finnst mér ákvörðun Ögmundar til fyrirmyndar. Ég er heldur ekki tilbúin að kaupa það að maður eða félag sem sækir um undanþágu frá lögum viti ekki að landakaup af þessu tagi stangist á við lög eins og haft hefur verið eftir Huang Nubo í fjölmiðlum. Ef hann vissi það ekki hefði honum aldrei dottið í að sækja um undanþágu eða hvað?

Það ástand að í hvert sinn sem möguleg erlend fjárfesting er í sjónmáli hlaupi menn upp til handa og fóta og það brjótist nánast út hópslagsmál vegna þess að leikreglurnar séu ekki skýrar er fullkomnlega óþolandi. Ýmislegt hefur þó áunnist; unnið er að rammaáætlun um virkjanakosti og fyrir liggur rammasamningur um ívilnanir vegna nýfjárfestinga (lög 99/2010) þannig að þeir hlutir eru að lagast. Hins vegar er enn brýn þörf á að endurskoða lög um erlenda fjárfestingu, lög um eignarétt á landi og síðast en ekki síst að gera eins konar rammaskipulag um Ísland allt þar sem ákveðið er hvers konar starfsemi er ásættanleg á hverjum stað. Það er fullkomnlega óboðlegt fyrir alla aðila, hvort heldur er íbúa þessa lands, sveitarfélög sem reyna að laða til sín atvinnustarfsemi og mögulega fjárfesta, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir að þegar hugmynd að atvinnustarfsemi kemur upp sé ekki ljóst hvort hægt sé að finna slíkri starfsemi stað og þá hvar og hvernig lagalega umhverfið er.

Spurningar um erlenda fjárfestingu eiga ekki að þurfa að snúast um þann aðila sem bankar á dyrnar eða atvinnuástandið í einhverjum landshluta. Við þurfum að ræða prinsippin og draga upp heildarmyndina. Við þurfum að gera kröfur um lágmarks arðsemi, setja skilyrði um siðferðisleg gildi fyrirtækja sem hér vilja starfa, sem og umhverfissjónarmið. Og þegar við vitum hvað má, hvar það má, hvað við viljum fá út úr því og hvernig á að gera hlutina getum við tekið á móti hverjum sem er á faglegum forsendum með allt upp á boðum svo hægt verði að loka reykfylltu bakherbergjunum fyrir full og allt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is